Sjávarútvegsbrautin á Dalvík
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Björn Valur Gíslason) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka menntmrh. greinargóð svör við spurningum mínum og lýsi ánægju minni með þau áform sem hann virðist hafa uppi um áframhaldandi uppbyggingu þessa skóla og annarra tengdra sjávarútveginum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þessu máli sé sýndur mikill skilningur af ráðamönnum en því miður hefur viljað skorta á þann skilning.
    Það eru upp ýmis áform um að ná að mennta fleiri sjómenn í skipstjórnarfræðum og er þá helst verið að horfa á trillusjómenn svokallaða. Það má svo auðvitað færa ýmis haldgóð rök fyrir því að það sé úr öðru ráðuneyti verið að murka líftóruna úr trillukörlunum í gegnum kvótakerfið illræmda þannig að það þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að mennta þá. En sé litið fram hjá því, ef hægt er, þá tel ég það mjög mikilvægt að gerðar séu lágmarkskröfur til þeirra sem fá að
stjórna bátum og þá af hvaða stærð sem er. Ég tel að slysaaldan nú í haust og undanfarin ár á litlum bátum undirstriki þá nauðsyn.
    Ég get alveg hugsað mér einhvers konar útibú frá starfandi stýrimannaskólum og sjávarútvegsskólum, sem eru starfandi víða um landið, út í sjávarþorpin sem sjái trillumönnum fyrir þeirri fræðslu sem með þarf. Þetta getur verið í einhverri þeirri mynd sem undanþágunámskeiðin voru hér fyrir nokkru síðan og reyndust mjög vel og gáfu mönnum færi á því að stunda þetta nám án þess að raska verulega sínum högum.
    Það er einnig hægt að hugsa sér annars konar fræðslu tengda þessum sjávarútvegsskólum og sjávarútvegsbrautinni á Dalvík kannski þó helst. Get ég nefnt í því sambandi öryggisfræðslu og endurmenntun sjómanna sem er ekki kannski tími til þess að ræða hér og nú en þó vert að benda á.