Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh. - og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langt mál. Ég ætla t.d. að spara mér það að orðlengja um fáryrði hv. 3. þm. Reykv. sem féllu hér úr ræðustólnum áðan og leiða þau alveg hjá mér. En ég vil nú láta það samt í ljósi að það er auðvitað ekki gaman að þurfa að standa að setningu bráðabirgðalaga og ekki síst um viðkvæm kjaramál. Ég hef oft tekið nær mér að standa að bráðabirgðalögum en í þetta skiptið og ég vitna til þess hvað við gerðum vorið 1983. Þá voru sett bráðabirgðalög, hinn 27. maí 1983, um launamál og ég ætla að lesa 1. gr. þeirra laga:
    ,,Ákvæði VIII. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., um verðbætur á laun skulu ekki gilda á tímabilinu frá og með 1. júni 1983 til og með 31. maí 1985. Sama máli gegnir um ákvæði í kjarasamningum um greiðslu verðbóta á laun á þessu tímabili. Verðbótavísitala skv. 48. -- 52. gr. laga nr. 13/1979 skal eigi reiknuð fyrir greiðslutímabili frá og með 1. júní 1983 til og með 31. maí 1985.
    Frá gildistöku þessara laga til 31. maí 1985 er óheimilt að ákveða að kaup, laun, þóknun, ákvæðisvinnutaxti eða nokkurt annað endurgjald fyrir unnin störf eða nokkrar starfstengdar greiðslur skuli fylgja breytingum vísitölu eða annars hliðstæðs mælikvarða á einn eða annan hátt. Tekur þetta til kjarasamninga stéttarfélaga og til allra annarra vinnusamninga, til kjaradóma og úrskurða í málum opinberra starfsmanna, svo og til launareglugerða og launasamþykkta allra fyrirtækja, stofnana og starfsgreina.``
    Það er stungin tólgin. Hverjir stóðu svo að setningu þessara bráðabirgðalaga? Það gerðum við nú í félagi, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Þá var forsrh. nýmyndaðrar ríkisstjórnar hæstv. núv. forsrh. og sjálfstæðismaðurinn, þáv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundsson var fjmrh. Hverjir ætli hafi staðið að þessum kjarasamningum sem þarna voru numdir úr gildi? Það gerði meðal annarra framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins sem þá var Þorsteinn Pálsson. Hverjir stóðu svo að áliti meiri hl. fjh. - og viðskn. hv. deildar sem staðfesti þessi bráðabirgðalög þá um veturinn? Að því stóðu, ef ég man rétt, auk mín hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson og hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson. Af þessu má sjá að menn geta skipt um skoðun þegar þeir verða ábyrgir stjórnmálamenn. Það er ráð mitt til hæstv. fjmrh. sem er nú mikill og slunginn stjórnmálamaður að reyna að koma því svo fyrir að Páll Halldórsson lendi í þingliði Alþb. þannig að honum auðnist að skipta um skoðun eins og Þorsteini Pálssyni á sínum tíma.