Virðisaukaskattur
Föstudaginn 14. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Það er að mörgu að hyggja í sambandi við það að ná öllum peningunum í ríkiskassann. Ég má til í sambandi við þetta mál að vekja athygli á því að okkur vantar líka að koma upp einhvers konar sjóðvél hjá hæstv. fjmrh.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér réttilega að grunur léki á undanbrögðum stundum þegar um væri að ræða rekstur fyrirtækja. Hann hélt hér heilmikla tölu um alla kynningarbæklingana, reglugerðirnar, blaðamannafundina og allt sem hann hefði verið að gera, sem er sjálfsagt allt saman gott. En þó hæstv. fjmrh. hafi ekki sjóðvél, þá hefur hann annað tæki og það er prentvél. Hann þarf ekki að standa skil á reglum sem eru í gildi. Hann prentar bara fyrir hallanum. Er ekki akkúrat málið það að það sem höfðingjarnir hafast að, hinir halda sér leyfist það? Það er ekki víst að virðing borgaranna fyrir fjármunum verði nægilega mikil þegar ríkisvaldið hagar sér eins og það gerir í sínum fjármálum.
    Ég benti hæstv. fjmrh. á það hér fyrir tveimur árum að framlag ríkisins til Verðjöfnunarsjóðs ætti að gjaldfærast í ríkisbókhaldið þá. Sá skilningur náðist ekki fram þá, náðist heldur ekki fram í fyrra. Nú loksins á þessu ári hefur Ríkisendurskoðun gefið það út að það eigi að gjaldfæra 1,5 milljarða. Samt sem áður hefur hæstv. fjmrh. ekki séð ástæðu til þess að færa þetta á fjárlög. Það stendur skýrum stöfum í ríkisbókhaldi að gjöld skuli færa á því ári sem afhending verðmæta fer fram. Svo einfalt er það.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að fyrirtæki eiga ekki að skjóta sér undan gildandi reglum. En hæstv. fjmrh. á heldur ekki að skjóta sér undan gildandi reglum og lögum. Ég vil í þessu sambandi taka undir flest af því sem hann sagði, en hann á líka að gera þessar kröfur til sjálfs sín, sérstaklega á tímum þjóðarsáttar.
    Hæstv. fjmrh. sagði að það væru mjög ströng ákvæði um það í lögum í Bandaríkjunum hvað væri gert við fyrirtæki sem stælu undan skatti. Það eru líka mjög ströng lög í Bandaríkjunum um það hvað væri gert við fjármálaráðherra sem mundi búa til peninga eins og hæstv. fjmrh. og viðskrh. gera fyrir fjárlagahallanum. Hann þyrfti að kynna sér það líka.
    Það var heilmikil umræða um það í fjölmiðlum í haust að verið væri að reka þjóðfélagið í Bandaríkjunum á bráðabirgðafjárlögum frá degi til dags. Það var ekki hægt að prenta þar. Þar varð að bjarga málunum og gekk nú ekkert allt of vel. En þetta er svo sem ágætis mál.
    En ég vil líka minna hæstv. fjmrh. á það að hægt er að búa til tekjur með öðru en skattahækkunum. Það eru flutt út 100 þús. tonn af óunnum fiski á þessu ári. Margfeldisáhrifin af veiði og vinnslu sjávarafurða er það sem íslenska velferðarkerfið hefur verið byggt upp á. Og nú þegar hráefnið streymir í vaxandi mæli úr landi eða út á sjó, þá minnka þessi margfeldisáhrif. Það hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir sveitarfélög og auðvitað ríkissjóð. Það væri hægt að auka tekjur

ríkisins og þjóðfélagsins með því að vinna meira af þessum afurðum
hér heima og lagfæra rekstrarstöðu íslenskra atvinnuvega þannig að þeir ættu betra með að keppa um þetta hráefni. Með því er hægt að búa til meiri pening. Það er ekki bara að hækka alltaf skatta.
    En það er alveg rétt líka að heilbrigður rekstur byggist á því að siðferðiskennd manna sé í lagi og ég ítreka það sem ég hef sagt hér að siðferðiskennd verður einmitt að byrja ofan frá. Á starfstímabili hæstv. fjmrh. í ráðherraembætti hefur hann rekið ríkissjóð með halla upp á 30 milljarða, það kom fram hér í fjárlagaumræðunni í gær, þrátt fyrir allar skattahækkanirnar. Þá sjáum við hvert stefnir. Hækka og hækka skatta, samt er gatið alltaf stærra og stærra. Þetta er því ekki eins fallegt og hæstv. fjmrh. vill vera láta. En allt gott sem hann gerir í þessum málum er þakkarvert. En ég ítreka það, hæstv. forseti, að menn eiga að byrja á því að gera kröfu til sjálfs sín.