Launamál
Mánudaginn 17. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Í umræðum um þessi mál nú fyrir skömmu hélt hæstv. fjmrh. því fram að hann stæði í samningaviðræðum við BHMR. Mér hefur borist bréf frá BHMR þar sem segir:
    1. Rangt er að viðræður í starfsnefndum vegna kjarasamninga félaganna frá 1989 gangi vel.
    2. Rangt er að nú standi yfir samningaviðræður milli fjmrh. og einstakra samflotsfélaga BHMR.
    3. Fjmrh. hefur lýst því yfir að hann sé að bjóða aðildarfélögum BHMR eitthvað í samningaviðræðum. Þetta er rangt.
    4. Fjmrh. hefur mælt sérstaklega með því að félögin hverfi frá samningi sínum og geri sérsamninga við fjmrh. Þetta eru rangfærslur sem koma fram í rökstuðningnum því að Dýralæknafélag Íslands gerði kjarasamning með öðrum samflotsfélögum BHMR.
    5. Fjmrh. gerir mikið úr starfi í samstarfsnefndum samflotsfélaganna. Sjaldan í sögu þessara ungu samtaka hafa mál verið meðhöndluð í þessari nefnd á jafnhægvirkan og jafnvel neikvæðan hátt og nú.
    6. Fjmrh. segir að forusta BHMR hafi kvartað við hann yfir fyrirrennurum hans í starfi. Þegar fulltrúar BHMR hittu hann fyrst að máli sem fjmrh. lögðu þeir til að nýr maður tæki við formennsku í samninganefnd ríkisins.
    7. Fullkominn trúnaðarbrestur ríkir á milli fjmrh. og stéttarfélaga innan BHMR.
    Þetta lýsir ástandi þessara mála. Það er m.a. af slíkum ástæðum sem hv. Ed. hlýtur að fara enn betur ofan í þetta mál og það er m.a. af slíkum ástæðum sem ég segi nei.