Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Ég get mætavel tekið undir þau orð sem hér voru mælt af forsetastóli, að eðlilegra væri að þessi ágreiningur væri leystur utan þingfundar.
    Þetta mál ber að þinginu með nokkuð óvenjulegum hætti. Það hefur að vísu oft verið svo í tengslum við afgreiðslu fjárlaga að fjáröflunarfrv. hafa komið á síðustu stundu. En ég hygg að það sé algert einsdæmi að fjmrh. komi með veigamikil skattafrv., sem auk heldur felur í sér verulega kerfisbreytingu varðandi skattlagningu og tengist ýmiss konar annarri löggjöf í landinu, og ætli Alþingi tvo daga til þess að afgreiða slíkt mál áður en fyrirhuguð afgreiðsla fjárlaga á að fara fram. Slíkt er algert einsdæmi og lýsir afar lítilli virðingu fyrir störfum Alþingis og lýsir kannski umfram allt því hve hæstv. ríkisstjórn hefur litla virðingu fyrir eigin vinnubrögðum.
    Hér hefur verið upplýst og staðfest af hæstv. ríkisstjórn að um þetta makalausa frv. er svo ekki eining í hæstv. ríkisstjórn. Staðfest hefur verið að hæstv. fjmrh. hafi lagt það fram með öðrum hætti en a.m.k. fulltrúar Framsfl. gerðu ráð fyrir að það ætti að vera. Eigi að síður eru hæstv. ráðherrar að ýja að því að eðlilegt sé að 1. umr. fari fram á þessum fundi. Auðvitað er það fráleitt að 1. umr. um þetta mál fari fram áður en hæstv. ríkisstjórn hefur komið sér saman um hvernig hún ætlar að haga þessari skattkerfisbreytingu. Umræðurnar um málið verða heldur ómarkvissar meðan ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar liggja ekki fyrir og afstaða einstakra þingmanna hlýtur að byggjast á því hverjar eru tillögur hæstv. ríkisstjórnar. En meðan hún hefur ekki komið sér saman er þegar af þeirri ástæðu erfitt fyrir þingmenn að taka með eðlilegum hætti þátt í slíkri umræðu. Frá mínum bæjardyrum séð liggur því í augum uppi að taka undir þau orð forseta deildarinnar að þetta mál verði fyrst útkljáð utan þingsalarins. Þar beinast spjótin eðlilega að hæstv. ríkisstjórn, að hún ljúki sinni heimavinnu og komi með þetta mál í þeim búningi sem hún á endanum kemur sér saman um. Þá getur 1. umr. farið fram. Ég tek því undir ósk forseta og legg til að málið verði tekið af dagskrá þessa fundar hér í dag meðan svo stendur.