Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er nú svo sem árviss viðburður að hér ríki öngþveiti á síðustu dögum fyrir jólafrí og reyndar á vorin líka. En sjaldgæft mun þó vera að til þess sé ætlast á þessum tíma að mál séu tekin fyrir í nefndum áður en þau eru lögð fram á þingi og enn þá sjaldgæfara mun vera að síðan komi í ljós að það sé ekki einu sinni eining innan stjórnarinnar um þetta sama mál. Sæmst hefði verið að stjórnarherrarnir kæmu sér saman áður en þeir færu að ætlast til forvinnu hjá nefndum.
    Það er í sjálfu sér ekki til fyrirmyndar að játa slíkum vinnubrögðum, þ.e. gangast undir það að taka mál til meðferðar áður en þau eru lögð fram í þingi, vegna þess að það ýtir undir þau vinnubrögð að ráðherrar geti treyst á það að þingmenn hlaupi undir bagga með þessum hætti og hjálpi þeim að bjarga í land áður en of seint er orðið.
    Ég minnist þess að á síðasta þingi var hafður þessi háttur á með gríðarlega stórt mál, þ.e. fiskveiðistefnu Íslendinga, að það var tekið fyrir í sjútvn. Nd. áður en málinu hafði verið vísað til nefndarinnar. Síðan þegar allt var komið í eindaga var reynt að semja um það á síðustu stundu að allir yrðu nú stuttorðir og sagt að þegar væri allt komið fram um málið í Ed. og óþarfi að tala mikið um það í Nd. Auk þess gætu þingmenn heldur ekki borið fyrir sig að þeir hefðu fengið lítinn tíma í nefnd til að fjalla um málið því nefndin hefði fengið það áður en málið kom til nefndarinnar. Ég held því að það sé ærið tvíeggjað að þingmenn undirgangist þessi vinnubrögð, ekki af óvild við mál heldur vegna þessa sem ég hef lýst, að því er þá gjarnan
beint gegn þeim aftur. Kæmi mér ekki á óvart þótt hér hljómaði á morgun eða hinn daginn að tíminn hefði verið nægur þar sem þegar hefði verið fjallað um málið tvisvar í nefnd áður en það var lagt fram, en þar sem hæstv. fjmrh. gengur nú í salinn vona ég að ekki komi til þess að slík rök verði notuð.
    Það er alveg greinilegt að það er ýmislegt sem fylgir, sem er skylt þessu frv. sem hefði þurft að liggja fyrir til að hægt væri að taka á málinu með sæmilegu móti og átta sig á því í heild. Það hefur auðvitað þegar verið nefnt hér, það kom fram í máli manna í fjh.- og viðskn. í morgun, að ýmsum þætti þetta þung byrði að bera þegar ekki væri búið að gera ráðstafanir í sambandi við aðstöðugjald sem til stóð, að mér skilst, að afnema einmitt í tengslum við þetta. Það mun nú vera einungis til umræðu í nefnd, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, þar sem sveitarfélögin vilja eðlilega taka þátt í því. Eins verða breytingar á réttindum manna í tryggingakerfi, hverjir eiga að njóta atvinnuleysisbóta og hvernig skal standa að því, svo eitthvað sé talið.
    Það er fróðlegt til samanburðar að líta hér aðeins í greinargerð þar sem mjög vel er tíunduð saga launaskattsins sem er eitt þeirra gjalda sem á að fella inn í þetta umrædda tryggingagjald. Því er lýst þar að launaskattur var tekinn upp árið 1965 og hvaða hlutverk honum var þá ætlað. Þá greiddu allar atvinnugreinar launaskatt nema landbúnaður. Árið 1973 var síðan gripið til þess ráðs að undanþiggja fiskveiðar. Árið 1982 skilar starfsskilyrðanefnd skýrslu þar sem kemur fram að engin rök séu fyrir þeim undanþágum frá launaskatti sem þá voru í gildi, þ.e. bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Svo kemur dálítið kúnstugur kafli þar sem sagt er að framhaldið hafi í sjálfu sér verið rökrétt afleiðing þessarar niðurstöðu þar sem ákveðið var að draga úr mismunun milli atvinnugreina. Þá var hins vegar farin sú leið að undanþiggja fleiri greinar. Árið 1982 eru líka tekin upp tvö þrep og árið 1986 er ákveðið að undanþiggja fiskvinnslu og iðnað alfarið.
    Þarna virðast meira og minna ráða ferðinni skilyrði á hverjum tíma, efnahagsleg skilyrði viðkomandi greina. Án þess að ég sé nú að mæla með því að gjörsamlega sé gengið fram hjá hag atvinnugreina þá sýnir þetta samt að þannig hefur verið að málum staðið að gripið er til aðgerða eða efnahagsráðstafana, eins og það heitir alltaf núna, mjög ómarkvisst. Það er gripið til þess tækis sem hendi er næst hverju sinni.
    Bara þessi saga, sem einhverjum hefur þótt ástæða til að tíunda í greinargerð, ætti að vera lexía sem hæstv. ríkisstjórn mætti læra af, þ.e. að ígrunda betur og ganga betur frá málum áður en gripið er til breytinga þannig að hún hafi erindi sem erfiði. Það er hætt við því ef þetta frv. þýtur í gegn núna að síðan verði tekið til við breytingar á aðstöðugjaldi, síðan verði tekið til við að skoða hvernig nýir hópar komi inn í atvinnuleysisbætur og fleira í þeim dúr, þá er hætt við því að aftur þurfi að fara í þetta frv. og breyta því. Nú skil ég vel þörf ríkissjóðs fyrir meiri tekjur, auknar tekjur. Þó efast ég reyndar um að þetta frv. nái í gegn fyrir áramót þannig að það komi að þeim notum sem til var ætlast. En það er spurning hvort það er þess virði í þessu tilfelli að þurfa svo að rjúka til aftur og breyta og samræma á nýjan leik. Þetta er það margslungið og tengist það mörgum þáttum að miklu heppilegra væri að það lægi allt fyrir í einu lagi.
    Eftir því sem ég hef haft tækifæri til að kynna mér þetta frv. leggst ég ekki gegn innihaldi þess. Þarna er verið að taka skref sem er til að afnema ákveðna mismunun sem verið hefur í gangi, bæði milli atvinnugreina og mismunandi félagsforma. Það er verið að koma upp staðgreiðslu, einungis launaskatturinn var innheimtur í staðgreiðslu áður, en nú bætast hin fjögur gjöldin sem undir þetta falla undir staðgreiðslu líka. Mér skilst að það gefi betri raun, þ.e. innheimta verði skilvirkari, eins og það heitir. Innheimtuhlutfall hefur verið tiltölulega lágt af þessum gjöldum, á bilinu 60 -- 70%, ef ég man rétt, en nú standa vonir til að innheimta verði áhrifaríkari. Þannig ættu bæði breikkun skattstofns og betri innheimta að færa ríkissjóði auknar tekjur. Það er að mínu viti líka til bóta að með þessu móti teljast til gjaldstofns hvers konar laun, þóknanir og hlunnindi af ýmsu tagi.
    Það er auðvitað gleðilegt að sjá þá einstöku tillitssemi sem lýsir sér í þessu frv., þ.e. að gefa þeim atvinnugreinum sem hafa verið undanþegnar þessum gjöldum aðlögunartíma og þrepa gjaldtökuna. Það fer ekki hjá því að það hvarfli að manni hvað það hefðu nú mörg heimili þegið sömu meðferð, að fá að þrepa sig í átt að aukinni skattheimtu. Eins verður manni oft hugsað til þess í störfum í fjh.- og viðskn. hverjir það eru sem hafa tækifæri til þess að koma þangað og láta í ljósi álit sitt á skattheimtu af ýmsu tagi. Ég er ekki að segja að alltaf sé tekið tillit til þeirra umkvartana því það er nú einu sinni svo að flestir vilja halda sínum hlut og láta ekki svo glatt það sem þeir hafa einu sinni fengið í hendur. En alltaf verður manni hugsað til þess hvernig hinn svokallaði almenningur, launafólk í þessu landi, heimilin, fjölskyldurnar eiga sér aldrei nokkurn málsvara þarna. Það er aldrei hægt að kalla í formann fjölskyldna á Íslandi, enda ekki til. Kannski er auðveldast að seilast ofan í vasa launþega vegna þess að þeir hafa ekki með sama hætti málsvara eins og t.d. atvinnuvegirnir hafa. Það gæti eflaust mörg húsmóðirin mætt til viðtals við fjh.- og viðskn. um þetta, mætt með sína búreikninga, lagt fram matarreikningana, dagvistargjöldin, útgjöldin fyrir skólafötin, bækurnar, og sýnt fram á það með gildum rökum að hún gæti bara ekki borgað þessa skatta. Það væri bara ekki svona mikið afgangs, en væri hugsanlega til viðtals um það að þrepa sig upp um tvö stig á næstu fimm árum. Það skyldi þó ekki vera að það sé margt í okkar þjóðfélagi sem snýr að fjölskyldum og heimilum með þeim hætti sem það er vegna þess að svona erfiðlega gengur að finna einhvern sem talar máli þessa hóps. Og það er kannski verðugt verkefni að reyna að koma því þannig fyrir og finna leiðir til þess að það sé hægt með einhverju móti. Þá gengi kannski ekki svona vel að sniðganga börnin okkar og búa oft og tíðum svona illa að þeim. Og það hefði ekki heldur gengið svona snurðulaust í fyrra og árið þar áður að renna í gegn skattahækkunum á heimilin. Það gengi heldur kannski ekki svona vel að lækka kaupmáttinn ef eitthvert beint samband væri þarna á milli. Þessi þögli hópur er alltaf í hlutverki þolandans þegar kemur að ríkisvaldinu hvað varðar skattheimtu, en vissulega oft í hlutverki njótenda líka, ekki ætla ég að draga úr því að ýmislegt sé nú aftur notað í þágu þessa hóps. En þegar maður situr og horfir yfir þennan karlahóp, þetta karlager sem sífellt streymir inn til viðtals við fjh.- og viðskn. þá hugleiðir maður oft hvernig sé hægt að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Við finnum mjög oft fyrir þessu jafnt og aðrir, þingkonur Kvennalistans, sem viljum gjarnan vera málsvarar heimila og fjölskyldna, að við höfum ekki aðgang að einhverjum svona löggildum fulltrúum þessara hópa sem hægt er að leita álits hjá og fá umsagnir um frv. og annað slíkt. Það mundi sjálfsagt hýrna yfir manni ef einstöku sinnum birtist þarna kvenmaður, það kemur fyrir, ég held það sé ein hjá tollinum sem er mikill sérfræðingur um tollamál og önnur kemur stundum frá fjmrn., hagfræðingur. Það eru nú yfirleitt einu konurnar sem birtast þarna. ( Fjmrh.: Þessi með tollamálin er líka frá fjmrn.) Já, já, ég er heldur ekkert að ræða um það hvort þarna

koma konur sem fulltrúar einhverra stofnana eða hópa þó vissulega þyki mér það notalegt, það dregur úr einmanakenndinni í þessari yfirþyrmandi karlaveröld sem fjármálaheimurinn er, heldur er ég einungis að velta fyrir mér orsakasamhenginu, muninum þarna á milli þeirrar aðstöðu sem launafólk, heimili og fjölskyldur eru í andspænis atvinnuvegunum.
    Þar fyrir er ég ekki að segja að það breytti miklu þótt þarna kæmu konur til viðtals fyrir þær stofnanir, fyrir þær atvinnugreinar sem kallað er í samkvæmt hefðbundnum hætti, því ég býst við að þær þyrftu í flestum tilfellum að hlíta þeim lögmálum sem gilda enn þá í þessum karlaheimi. En þetta var nú útúrdúr frá frv. sjálfu en ekki útúrdúr frá því fjármálaástandi sem við blasir líti maður á þá hópa sem ég hef gert að umtalsefni.
    En eins og ég sagði áðan, í sjálfu sér lýsi ég ekki andstöðu við innihald frv. sjálfs, heldur meðferð þess og hvet til þess að betur verði unnið að því og málum sem því tengjast áður en hinu háa Alþingi er ætlað að afgreiða það. En ég bendi þó á í leiðinni að í því eru líka faldar hættur sem hugsanlega gætu leitt til hækkunar verðlags ef ekki er gripið til annarra aðgerða um leið, t.d. héldu málsvarar landbúnaðar því fram að þetta mundi leiða til 2% hækkunar á landbúnaðarvörum. Eins og ástatt er nú er ekki víst að heimilin þoli það, en við skulum þá endilega sýna því tillitssemi líka og þrepa okkur þar varlega með sama hætti og hér er lagt til að gert verði við þær atvinnugreinar sem hingað til hafa verið undanskildar þessum gjöldum.