Lánsfjárlög 1991
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún J. Halldórsdóttir ):
    Hæstv. forseti. Er fjmrh. enn þá í húsinu? ( Forseti: Það var kallað á hæstv. fjmrh. í umræðu í Nd.) Ég ætlaði eiginlega að svara því sem hann sagði um góða stöðu ríkissjóðs og að við, ég og hv. 2. þm. Norðurl. e., værum að mála útlitið heldur svartara en það væri þar sem við héldum því fram og hefðum þær upplýsingar að það yrði a.m.k. 2 milljörðum kr. meiri halli en upphaflega var gert ráð fyrir þegar lánsfjárlög voru lögð fram. ( HBl: Fjmrh. er í símanum en ekki á fundi í Nd.) Jæja, ég ætla að halda áfram hvað sem öðru líður. ( GHG: Það á aldrei að gefa þeim eftir þessum mönnum. Hæstv. sjútvrh. kannast við það.) ( Sjútvrh.: Ég hlusta.)
    Hæstv. fjmrh., ég bið þig afsökunar á að ég skuli trufla þig í símhringingum þínum en þannig var að þú barst brigður á að það væri rétt hjá okkur, mér og hv. 2. þm. Norðurl. e., að skyndilega hefði komið í ljós að halli á ríkissjóði væri 2 milljörðum meiri en áætlanir voru í upphafi umræðna um lánsfjárlög. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan að lagt var fram frv. til laga um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1990. Þar eru ýmsar breytingar, en m.a. stendur þetta: ,,Í annan stað nam skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands vegna halla á ríkissjóði á árinu 1989 um tveim milljörðum kr. Fjármögnun þessarar skuldar var ekki inni í lántökuheimild ríkissjóðs á fjárlögum 1990. Samkvæmt lögum um Seðlabanka ber að greiða skuld ríkissjóðs við bankann í lok marsmánaðar.``
    Ég get ekki séð annað en þessum 2 milljörðum verði ríkissjóður að snara út.
    Svo bar það einnig til 17. des. sl. að inn í möppur okkar sem í fjh.- og viðskn. erum kom plagg frá fjmrn. Á það eru krotaðir stafirnir HÁ sem ég býst við að fjmrh. þekki. Þar eru brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991. Þar stendur við 1. gr. að hún breytist úr 11.875.000 þús. kr. í 14.060.000 þús. kr. Þetta finnst mér vera svona lauslega reiknað 2 milljarðar 185 millj. kr. Þar af leiðandi finnst mér að þetta bendi til að það sé tveggja milljarða króna meiri halli en upphaflega var talað um í umræðum þessum. Kannski kemur eitthvað annað á móti sem minnkar þennan halla, það er bara ekki komið í ljós, a.m.k. ekki fyrir mín eyru.