Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Út af þessari umræðu sem hefur orðið hér um Lánasjóð ísl. námsmanna vil ég segja hér nokkur orð. Ég held að mín afstaða hafi verið nokkuð skýr á fundi í fjh. - og viðskn. Ég skrifaði að sjálfsögðu undir þetta nál. vegna þess að sá liður, sem ég hafði mestar athugasemdir við á fundinum, er þegar gerður hlutur og eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni og reyndar hv. 2. þm. Norðurl. e. líka, þá varð að fresta útborgun lána vegna fjárskorts. Ég gerði hins vegar verulegar athugasemdir við þá uppbyggingu sem er orðin á Lánasjóði ísl. námsmanna. Sjálfvirkni þess sjóðs er orðin með slíkum eindæmum að ef við hefðum slíka sjálfvirkni í öðrum lánastofnunum hér á landi, þá væri margt komið hér í miklu meira óefni en það er.
    Ég vil taka það skýrt fram að ég vil standa við bakið á námsmönnum að öllu því leyti sem nauðsynlegt er að gera á hverjum tíma. En það á hins vegar ekki að vera alveg sjálfvirkt kerfi, að það sé nóg að skrá sig einhvers staðar í nám og það sé tryggt að þú hafir aðgang beint án nokkurrar endurskoðunar á þeim lánum sem þú telur þig sjálfan þurfa. Það er alveg ljóst í mínum huga. Á sama tíma er það líka ljóst að fjárveitingavaldið verður út af fyrir sig að gera raunhæfar áætlanir um það sem er á seyði.
    Skýringar sem við fáum á þessari auknu fjárþörf eru tvær. Annars vegar það að fjölgun nemenda hafi orðið mun meiri á seinni árshelmingnum heldur en reiknað var með og fjölskyldusamsetning námsmanna hafi verið allt önnur. En eftir sem áður stendur það í mínum huga að allir lánasjóðir, hverjir sem þeir eru, hafa ákveðið fjármagn til úthlutunar og verða að sníða sér stakk eftir vexti. Mig rennir svo grun í að ef Byggingarsjóður ríkisins eða Byggingarsjóður verkamanna væri jafnsjálfvirkur og þetta kerfi er, þá væru þau vandamál okkar ekki eins flókin að leysa fjárþörf byggingarsjóðanna á hverjum tíma eins og í dag heldur mundum við bara með einfaldri línu í lánsfjárlögum á hverju ári, viðbótarlánsfjárlögum, bæta við því fjármagni sem þyrfti.
    Ég vil svo ítreka það að ég styð það að Lánasjóður ísl. námsmanna sé gerður sjálfum sér nógur. Slíkir lánasjóðir eiga að verða nægilega sterkir með tímanum þannig að þeir geti staðið undir sér sjálfir og ávaxtað sitt fé þannig að þeir geti aðstoðað þá nemendur sem fjárþurfi eru, en þessi sjálfvirkni inn í ríkiskerfið gengur ekki til lengdar. Undirskrift mín undir þetta nál. og samþykkt mín við þessar brtt., einkum að því leyti sem snýr að Lánasjóði ísl. námsmanna, byggist á því að við fáum þetta á elleftu stundu. Árið er liðið og námsmennirnir eru þegar búnir að stóla á það að staðið sé við þá samninga sem gerðir voru við þá. En þeir samningar hafa ekki verið gerðir í samræmi við þær fjárveitingar sem stjórn Lánasjóðsins hafði fyrir hendi á þessum tíma.