Almannatryggingar
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, sem flutt er á þskj. 324. Hér er um að ræða eina litla leiðréttingu enn á almannatryggingalöggjöfinni. Það voru vonir mínar að hægt yrði að leggja hér fyrir þingið heildarendurskoðun á þessum mikilvæga lagabálki. Reyndar er þeirri endurskoðun lokið og frv. væntanlegt, vonandi fljótt eftir að þing kemur saman á ný eftir áramótin þó að það tækist ekki að koma því fram núna. En það hafði hins vegar verið lengi ósk Farmanna - og fiskimannasambandsins að gerð yrði leiðrétting á því misrétti sem í dag ríkir á milli sjómanna eftir því hvort þeir eru sjómenn á íslensku skipi eða þeir eru ráðnir og lögskráðir á skip sem gerð eru út af íslenskum aðilum þó þau skip séu ekki íslensk. Hér er því fyrst og fremst um að ræða leiðréttingu þannig að allir sjómenn sitji við sama borð hvað varðar lífeyrisréttindi eða töku ellilífeyris hjá almannatryggingum, jafnt þeir sem skráðir eru á íslensk skip eins og hinir sem skráðir eru á skip sem íslenskir aðilar gera út þótt þeir eigi þau ekki.
    Þetta er lítið mál, hefur farið nú þegar í gegnum Nd. og var um það fullkomið samkomulag þar þannig að hér er ekki um ágreiningsmál að ræða. Ég vænti þess að hv. Ed. afgreiði þetta mál nú fyrir jólahlé þó tíminn sé orðinn naumur og legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr. - og trn. deildarinnar sem ég vænti að taki málið skjótt til afgreiðslu.