Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að framlagning þessa frv. er árlegur viðburður. Ég finn það strax að hann er afar hreykinn af því að vera í allfjölmennum félagsskap um þetta fyrirbæri og hefur nafngreint hann allan. En þar sem ég finn það á hæstv. fjmrh. að hann telur þetta vera með allra vinsælustu skattlagningu sem hann hefur mælt fyrir í sinni fjármálaráðherratíð þá gæti hann reynt að auka enn vinsældir sínar með því að láta þetta frv. bara gilda í sex mánuði í senn svoleiðis að hann gæti slegið fyrirrennara sína alveg út af laginu og mælt fyrir þessu tvisvar á ári.
    Hins vegar var talið eðlilegt á sínum tíma, þegar mikil fjárfesting var í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, að setja á slíkan skatt til tiltölulega skamms tíma í einu. Nú eru miklir erfiðleikar í þessari atvinnugrein, um það deila menn ekki, hjá fjölmörgum. Því var það fyrir atbeina okkar sjálfstæðismanna að þessi skattlagning var minnkuð á tímabili. En í tíð núv. ríkisstjórnar hefur verið haldið uppi fullum dampi hvað þetta snertir.
    Hins vegar vil ég nú leyfa mér að minna á eitt og þó alveg sérstaklega af því að hæstv. viðskrh. er í salnum og ber nú svo vel í veiði að þrír ráðherrar eru staddir í fundarsal neðri deildar, sem er tiltölulega fátítt. Núv. hæstv. ríkisstjórn setti það í sinn málefnasamning að styrkja og efla mjög strjálbýlisverslun í landinu. Ég spurði í fyrra á þessu þingi hæstv. viðskrh. hvað liði þessu áformi ríkisstjórnarinnar um að rétta við hag strjálbýlisverslunar. Hann varð nú að viðurkenna það að lítið hafði farið fyrir þessu loforði en taldi að nú yrði gerð bragarbót á við afgreiðslu fjárlaga og lýsti þar yfir fullum stuðningi sínum við það að bæta þyrfti hag strjálbýlisverslunar. Nú vil ég benda hæstv. viðskrh. á að nú er lag og leggja ekki þennan skatt á þessa fáu aðila sem eftir eru. Þetta er að verulegu leyti að fara á hausinn. En það væri gaman fyrir ríkisstjórnina þegar hún er nú komin á elleftu eða tólftu stund að reyna að gera einhverja bragarbót á og framfylgja einhverju af sínum loforðum þó ekki sé nema í litlum stíl. Ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh., sem er maður örlátur eins og allir vita, fari að standa á móti því að slík breyting verði gerð ef samherji hans og vinur, viðskrh., leggur áherslu á það. Ég tala nú ekki um ef hæstv. forsrh. leggur málinu lið því allt er þetta loforð þessara sömu ágætismanna, sameiginlegt loforð. Og finnst mér nú kominn tími til að reyna að efna þó ekki sé nema örlítið af þessum loforðum, bara örlítið, og sýna að ekki sé ákveðið að svíkja allt sem lofað hefur verið. Það er ekki farið fram á mjög mikið við hæstv. ráðherra og það núna rétt fyrir jólin. Ég vildi bara með þessum orðum koma þessu á framfæri í fullri vinsemd.