Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um þetta mál. Það er ástæða til að taka undir það að málinu var flýtt í gegnum deildina. En ég vil nú samt segja það að mér finnst nokkuð langt gengið að geta þess á nál. að nefndin hafi verið tekin til þess að ræða þetta frv. áður en fyrir því var mælt í deildinni því það var að sjálfsögðu gert með samþykki allra nefndarmanna. Það kom fram hjá hv. 4. þm. Reykn. að hann hefði ekki vitað um tilvist þessa frv. fyrr en um það var rætt á nefndarfundi. Ég verð að segja að það samræmist ekki reglum í okkar þingflokki ef stjórnarfrv. eru lögð fram án samþykkis allra stjórnarþingflokkanna. Að því leyti kemur það mér á óvart ef hv. þm. hefur ekki vitað af þessu stjfrv.
    Það er talað um skerðingar og að hér sé verið að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég vil þá geta þess að miðað við það framlag sem er til sjóðsins á yfirstandandi ári, sem er undir 200 millj., er hér um að ræða upphæð skv. 1. tölul. 1. gr. frv. sem yrði hærri en sú upphæð. Auk þess verður þetta fjármagn þó áfram allt innan þessa málaflokks þó verið sé að útvíkka verkefnasviðið.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram og eins það sem ég gat um í minni framsögu að samþykkt þessa frv. er tengd því að skerðingarákvæði í lánsfjárlögum falli niður. Þó svo það hafi ekki komið fram hér í umræðu í hv. deild í gær er það nú svo, og það mun koma fram í síðari deild. Það var mjög óljóst í gær um framvindu þessa máls og þess vegna var ekkert um það rætt. En verði þetta frv. að lögum fellur skerðingarákvæðið niður.
    Eins vil ég ítreka það að í frv. kemur fram að heildarálagningin skilar sér til sjóðsins samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður. Þar er nú um einhverja milljónatugi að ræða, jafnvel gætu það verið 40 milljónir sem skiluðu sér til sjóðsins umfram það sem gerir samkvæmt núgildandi lögum. Það er því verulegt fjármagn.
    Ég vil að síðustu, hæstv. forseti, ítreka það sem ég sagði áðan að meiri hl. hv. heilbr.- og trn. mælir með að frv. verði samþykkt.