Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég á ekki sæti í hv. allshn. þessarar deildar en fékk leyfi hjá nefndinni til að taka þátt í afgreiðslu þessa máls og þakka ég fyrir það. Að vísu kom ég mjög seint að þessu máli og sat einungis á tveim fundum nefndarinnar þar sem hún fjallaði um þetta mál, því miður. En nógu mikið hef ég þó kynnt mér þetta mál til þess að ég hef myndað mér skoðun á því að ég tel mjög óeðlilega þá brtt. sem kemur fram í frv. eins og það kemur frá ríkisstjórninni og dómsmrh. mælti hér fyrir.
    Ég tel mjög eðlilega þá breytingu, sem er kannski aðalatriðið, að sá tími sem fangi er í einangrun leggist ekki við refsitímann. Ég tel sjálfsagt að fella það ákvæði niður úr lögum. Raunar kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis að það er ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins að svo skuli með fara, þannig að ég tel raunar, hvort sem þetta frv. verður samþykkt óbreytt eða ekki, að ekki ætti að leyfa að lengja refsitímann vegna einangrunar. Mér þykir það svo augljóst að ef lögin stríða gegn stjórnarskránni þá eigi ekki að heimila slíkt.
    Ég stend að brtt. sem hér hefur verið gerð grein fyrir um það að ef fangi kærir einangrun þá sé það gert til Fangelsismálastofnunar. Ég tel það mikið eðlilegri leið heldur en að skjóta málinu beint til dómsmrn.
    Það þarf ekkert að fjölyrða um það að Fangelsismálastofnun er miklu eðlilegri tengiliður fanganna við umhverfið heldur en dómsmrn. Fangelsismálastofnun hefur

möguleika á því að fara í öll fangelsin, kynna sér málefni fanganna, þekkja þeirra aðstæður og meta hversu raunhæfur sá dómur er sem legið hefur til grundvallar því að ákvörðun um einangrun hefur verið tekin.
    Eins og fram kemur í skýrslu Fangelsismálastofnunar fyrir árið 1989 hefur félagsmáladeild stofnunarinnar mikilvægu hlutverki að gegna og hvílir á hennar herðum höfuðþungi félagslegu þjónustunnar. Starfsmenn deildarinnar hafa samkvæmt þessari skýrslu haft samskipti við fjölda fanga og það þarf ekki að lesa lengi til að sjá að það er miklu eðlilegra að Fangelsismálastofnun sé þarna aðili að máli sem varðar kæru um einangrun. Mér finnst að með þessu sé nánast verið að lýsa því yfir að Fangelsismálastofnun sé nánast óþörf. Ég tel það mjög miður ef það er álit hæstv. dómsmrh. að Fangelsismálastofnun eigi ekki að koma nálægt föngum að því er þetta varðar. Ég vil lýsa miklum vonbrigðum með þessa afstöðu hæstv. dómsmrh. og vona að það sé á einhverjum misskilningi byggt og tek undir þá ósk sem kom hér fram frá hv. 2. þm. Reykn. að hv. allshn. deildarinnar taki þetta mál til frekari athugunar. Það ætti ekki að þurfa að verða til þess að lengja afplánun fanga að þeir hafa þurft að verða í einangrun, en það eru nokkrir fangar sem það gildir um. Ég tel auðvitað að það eigi ekki að heimila lengingu fangavistar. Ég lít á þá stífni sem virðist vera í því að breyta þessu frv. eins og það liggur nú fyrir sem mjög alvarlegt mál gagnvart þessum föngum sem nú hugsanlega þurfa að vera lengur í fangelsi heldur en ella.
    Ég vil því skora á hæstv. dómsmrh. að fallast á þá brtt. sem hér hefur verið lögð fram á þskj. 387 þar sem miðað er við að ákvörðun um einangrun sæti kæru til Fangelsismálastofnunar vegna þess að það hlýtur flestum að vera ljóst að það er miklu eðlilegri leið. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru miklu fleiri sem telja þá leið miklu eðlilegri og sú fullyrðing styðst við ummæli í samtölum mínum við fólk fullyrða flestir þeirra sem hafa kynnt sér málefni Fangelsismálastofnunar og hennar samskipta við fanga að þetta sé miklu eðlilegri leið. Þess vegna skora ég á hæstv. dómsmrh. að íhuga þetta mál mjög gaumgæfilega og nefndarmenn í hv. allshn. og hvort þeir fallist nú ekki á þessa breytingu þannig að við getum hraðað þessu máli eins og unnt er og að það geti orðið að lögum fyrr en seinna.