Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Ég hélt framan af að þetta yrði ákaflega hefðbundin 3. umr., að hv. þm. Pálmi Jónsson kæmi hér með útgáfu Jóns Þorlákssonar af 3. umr. Mér til nokkurrar furðu kom hik á Pálma Jónsson framan af ræðunni, langt hik, þangað til hann náði sér síðan á strik og mér fannst ég þekkja ræðuna, kannaðist þarna við gamlan kunningja og rann upp fyrir mér um síðir að þetta var ræðan hans Hreggviðs Jónssonar frá því hann talaði um kvótann. En það er nú annað mál.
    Hér er til umræðu frv. til fjárlaga og langar mig að stikla aðeins á stóru yfir það sem vel hefur verið gert í frv. Ég vil byrja á því að benda á að Kvikmyndasjóður hefur fengið aukið framlag. Gert hefur verið vel við Leikfélag Akureyrar, Íslensku óperuna, Skákskólann, Íþróttasamband fatlaðra, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabarnahjálparstofnunina, Lögregluskóla ríkisins, Umferðarráð. Hér hefur verið varið peningum til málefna fatlaðra, bæði í Reykjavík og víðar, sambýli fyrir geðsjúka fær sinn skenk, meðferðarheimili og sambýli einhverfra barna, peningar
eru veittir til atvinnumála einhverfra. Landlæknir fær væna fjárveitingu sem er ætlast er til að sé notuð til vistunar fyrir fíkniefnaneytendur. Framkvæmdasjóður fatlaðra fær hér pening, geðsjúkir fangar. Hér eru líka ákvæði um að bæta úr mjög brýnni þörf að kaupa húsnæði fyrir héraðsdómstóla í Reykjavík og víðar, kaupa húsnæði til uppbyggingar heilsugæslu í Reykjavík, kaupa húsnæði fyrir embætti borgarfógeta. Að ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands, sem er þjóðþrifaverk og snertir alla þjóðina, að kaupa húsnæði til að nota sem heimili fyrir geðsjúka afbrotamenn, að kaupa fiskveiðisamlíki fyrir Stýrimannaskóla Íslands, að kaupa eða leigja húsnæði fyrir Iðnskólann í Reykjavík, sem býr við skort á húsnæði. Hér renna peningar til Sjálfsbjargar á Akureyri og Sjálfsbjargar í Reykjavík og fleiri og fleiri góð mál sem eru í þessu frv. en ekki hefur verið getið, sem ekki hafa komist að fyrir því svartagallsrausi sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi í kvöld.
    Virðulegur forseti. Fyrst ég er kominn í pontuna langar mig að fara yfir fleira og því miður þarf oft að tala um fleira en gott þykir. Frá því frv. var lagt fram hefur það hækkað á bilinu 2 -- 3 milljarðar sem aðeins er þó lítið brot af þeim óskum sem hæstv. ráðherrar hafa borið fram. Þess vegna spyr ég, hæstv. forseti, hvers vegna leggja ráðherrarnir fram frv. til fjárlaga með miklu, miklu lægri fjárhæð en svo endanlega kemur við 3. umr.? Af hverju eru allir þeir liðir sem ráðherrarnir koma með frá því að frv. er lagt fram og þangað til 3. umr. lýkur ekki teknir inn í frv. strax á fyrsta degi?
    Þegar við lítum yfir þetta frv. eru óneitanlega ýmsir liðir sem stinga í augun. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því fyrr eða síðar hvert við viljum láta þjóðartekjurnar renna. Við erum með fleiri en eitt og fleiri en tvö hús sem kosta þjóðfélagið mikla peninga

að halda við, að laga, að endurbyggja og endurreisa. Fyrst skal nefna Þjóðleikhúsið sem kostar hundruð milljóna og er ekki séð fyrir endann á því. Virðist mér sem niðurstöðutalan úr fyrstu lotu verði svipuð og öll göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Það hlýtur að vera með ólíkindum að við getum eytt peningum á þennan hátt. Og þetta er aðeins eitt hús af mörgum. Þjóðminjasafnið er að hruni komið, það kostar sína peninga að endurreisa það. Þjóðskjalasafnið þarf sitt fé, Bessastaðir og Þjóðarbókhlaðan. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef mun vanta um 1,5 milljarða til að klára þá byggingu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því í eitt skipti fyrir öll. [Bankað í borð.] Ég býð hv. Halldór Blöndal hjartanlega velkominn og býð honum þegar í stað pláss við hliðina á mér í pontu, enda er þetta þriggja manna ponta. ( Forseti: Ég bið hv. ræðumann að halda áfram ræðu sinni.) Ég biðst afsökunar. Ég var ekki alveg viss um hvar ég var staddur, þ.e. ekki í ræðunni heldur í borginni.
    Það eru fleiri liðir í fjárlögunum sem vekja spurningar. Einn af þeim er Lánasjóður ísl. námsmanna. Fyrr eða síðar hljótum við að spyrja: Hversu mikið fé þolir þjóðin að lána í því sambandi? Verður allt þetta bókvit í askana látið, kemst það fyrir? Það eru um 7000 manns sem þiggja lán úr Lánasjóðnum í dag, á annað hundrað arkitektar, á fjórða hundrað manns er að læra listir. Svona má áfram telja og flokka þetta niður. Við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hversu lengi getum við haldið úti svona fullkomnu lánakerfi? Stendur þjóðfélagið undir þessu kerfi?
    Það er fleira. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef kostaði 1 millj. kr. að hanna skjaldarmerkið utan á Alþingishúsið hjá húsameistara ríkisins . Hef ég þær upplýsingar frá fyrstu hendi. Ein milljón nálgast að vera sex mánaða laun hjá alþingismanni. Hvort það geti í raunveruleikanum samrýmst einhverri gjaldskrá að það taki alþingismann sex mánuði að vinna þetta starf. ( Forseti: Má ég trufla hv. ræðumann andartak?) Alveg sjálfsagt. ( Forseti: Það er nú orðið mjög brýnt eins og lofað hafði verið að efna til deildafunda. Á hv. ræðumaður eftir langan tíma af ræðu sinni?) Hv. ræðumaður hafði vonast til að komast heim til sín seinni partinn á Þorláksmessu en það væri nú möguleiki að stytta það aðeins ef Halldóri Blöndal liggur á. ( HBl: Það er samkomulag um að deildafundir byrji kl. hálfellefu.) Samkomulag hverra? Það hefur aldrei verið gert samkomulag við mig. Hér er ræðutími ótakmarkaður. ( HBl: Já, já.) Og ég bauð að deila honum með þér. ( Forseti: Má ég biðja ræðumenn að stunda ekki samtöl hér í þingsal.) Virðulegi forseti. Senn nálgast Þorláksmessa. Hv. þm. Halldór Blöndal á langan veg fyrir höndum, hann er óþolinmóður að komast í jólasteikina, ég skil það vel. Ég læt máli mínu lokið þegar í stað. ( Forseti : Forseti vildi á engan hátt hindra það að hv. þingmaður lyki ræðu sinni og það stendur auðvitað opið að fresta fundinum svo hann fái lokið ræðu sinni.) Ræðu minni er í rauninni lokið. Ég er kominn að landbúnaði og mér verður hvort eð er bumbult af því að tala um landbúnaðinn.