Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal virða orð forseta og stytta mál mitt mjög þó að ástæða væri til að hafa nokkuð langt mál um það viðfangsefni sem hér er rætt.
    Hæstv. viðskrh. hefur upplýst hér í umræðunum að í skjölum sem fylgja þjóðarsáttinni sé sérstaklega tekin fram sú krafa að ávöxtun verðtryggðra og óverðtryggðra fjárskuldbindinga skuli vera sem jöfnust. Hvað þýðir það? Það þýðir að nafnvextir, vextir óverðtryggðra fjárskuldbindinga skuli hreyfast með verðbólgu. Það hlýtur öllum að vera ljóst, ella myndast misræmi í lánaflokkum. Það sem skeði og hefur valdið þeim umræðum sem hér hafa orðið um vaxtabreytingar í Búnaðarbankanum er nákvæmlega það, aðlögun milli lánaflokka vegna breytts verðbólgustigs. Ef menn gerðu það ekki mundi augljóslega stefna í skömmtun vegna þess að sumir útlánaflokkar yrðu mun hagstæðari en aðrir og einungis gæðingar fengju þau lán sem bæru lægri raunvexti. Það er óhjákvæmilegt í bankakerfinu að samræma útlánaflokka. Hér er þess vegna ekki um að ræða neina raunvaxtahækkun eða vaxtahækkun sem slíka heldur eingöngu um aðlögun að ræða. Og ég tel að ómaklega hafi verið vikist að formanni bankaráðs Búnaðarbankans, hv. 5. þm. Suðurl.
    Það má kannski segja að það hefði verið unnt að fara hina leiðina til samræmingar, þ.e. að lækka raunvexti. Það er auðvitað hin leiðin. Og forsrh. hefur bent á sem og viðskrh. að raunvextir séu háir um þessar mundir hjá okkur miðað við helstu viðskiptalönd okkar. Og þá segja menn kannski: Hvers vegna fór ekki hv. 5. þm. Suðurl. þá leið að lækka raunvextina til samræmingar? Það hygg ég að séu nokkuð miklar kröfur gerðar til þess hv. þm. Við skulum aðeins velta fyrir okkur, hvernig hefði ríkisstjórnin brugðist við í slíkum sporum? Miðað við það vaxtafrelsi sem hér ríkir ráðast raunvextir auðvitað verulega af framboði og eftirspurn. Það er ekki langt síðan ríkisstjórnin þurfti að örva sölu á húsbréfum. Henni virtust vextirnir vera of lágir á þeim miðað við almenna raunvexti á markaðnum. Hvernig brást hún við því? Í stað þess að leita almenns samkomulags um lækkun á raunvöxtum hækkaði ríkisstjórnin með ákvörðun raunvextina á húsbréfunum. Þar hefði kannski verið lag til að leita almenns samkomulags. Það sem er e.t.v. alvarlegast við hækkun vaxtanna á húsbréfunum, raunvaxtanna, er að þau eru til 25 ára og þau móta þess vegna vaxtastig mjög langt fram í tímann, miklu hærra en flestir sérfræðingar telja að það verði þegar fram í sækir og hærra en í okkar viðskiptalöndum. Ég hef ekki tíma til að fara nánar út í það.
    En það er alveg ljóst að vilji menn ná niður raunvöxtum þá verða menn að velta fyrir sér eftirspurnar - og framboðsáformum. Því miður er það svo að þar veldur ríkisstjórnin nokkuð aukinni eftirspurn. Það er rétt sem fram hefur komið hjá ráðherrum að raunvextir hafa lækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar, um það

snýst ekki málið. En menn vilja fá þá meira niður og þá verða menn að horfa til þess að hallinn á ríkissjóði mun á þessu ári og næsta auka lánsfjárþörfina sjálfsagt um 10 milljarða kr. Og þegar horft er á að húsbréfin voru seld fyrir 2,5 milljarða á þessu ári en áætlað er að selja þau fyrir 10 milljarða á því næsta þá verða menn að horfa á að eftirspurnaráhrifin hljóta að hafa veruleg áhrif á þróun raunvaxtanna.
    Samkeppni erlendis frá gæti auðvitað breytt þessu talsvert með auknu framboði, en þá er hætt við að jafnvægi það sem menn eru nú að tala um í efnahagslífinu mundi raskast. Það er mikilvægt að halda því jafnvægi og þau stjórntæki sem ríkisstjórnin hefur eru auðvitað ríkisfjármálin og peningamálin og þar eru vextirnir verulegur þáttur. Ég tel þess vegna að sú umræða sem hér hefur farið fram vegna hækkunar vaxta í Búnaðarbankanum snúist engan veginn um kjarna málsins. Hún fæst eingöngu við þá aðlögun sem reyndar er gert ráð fyrir í þjóðarsáttinni og óhjákvæmileg er milli útlánaflokka. Til þess að takast á við vandann, sjálfa raunvextina, þarf önnur ráð og allt aðrar umræður.