Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þarf líklega ekki að hafa mjög mörg orð um þessa till., sem er lögð fram af utanrmn., eftir allar þær umræður sem um þessi mál hafa orðið í dag í þinginu. Ég rifja aðeins upp í örstuttu máli aðdragandann að tillögugerðinni og aðild okkar að þeim hlutum sem hafa verið að gerast í Litáen allt frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði sínu, endurheimti sjálfstæði sitt 11. mars á sl. ári. Strax daginn eftir samþykktum við þáltill. hér í sameinuðu þingi þar sem sent var heillaóskaskeyti til litáíska þingsins og þessum áfanga þeirra í sjálfstæðisbaráttunni fagnað. Aftur 19. des. sl. ítrekuðum við stuðning við sjálfstæðisbaráttu þeirra og samþykktum aftur þáltill. sem send var til þeirra í kjölfar þess.
    Aðburðir síðustu daga í Litáen, sem lýst hefur verið mjög vel í dag og í fjölmiðlum síðustu daga, eru á því stigi að utanrmn. kom saman í morgun til langs fundar og ræddi þessi mál ítarlega í samráði við hæstv. utanrrh. sem gaf okkur nána skýrslu um þessi mál svo sem hann hefur og gert í sameinuðu þingi í dag.
    Utanrmn. samþykkti í morgun að leggja fram hér þáltill. út af þessum atburðum og hittist aftur síðari hluta dags í dag þar sem einróma náðist samkomulag um orðalag hennar og er till. flutt í framhaldi af því. Þennan fund í utanrmn. sátu sá sem hér stendur, Guðmundur G. Þórarinsson, Eiður Guðnason, Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Kristín Einarsdóttir og Hjörleifur Guttormsson, ásamt Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, sem er áheyrnarfulltrúi í utanrmn. Till. er svohljóðandi:
    ,,Till. til þál. um fordæmingu á ofbeldisaðgerðum sovésks herliðs í Litáen.
    Alþingi ályktar að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir sovésks herliðs gegn litáísku þjóðinni og lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn hennar. Alþingi skorar á stjórnvöld í Sovétríkjunum að hætta þegar í stað hvers konar beitingu hervalds í samskiptum við Eystrasaltsríkin og flytja herlið sitt brott þegar í stað. Aðgerðir Sovéthersins undanfarna daga eru brot á þeim grundvallarreglum í samskiptum ríkja sem felast í gagnkvæmum skuldbindingum Helsinki-lokasamþykktar aðildarríkja Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og í beinni andstöðu við Parísaryfirlýsingu aðildarríkjanna um nýja Evrópu frá nóvember 1990.
    Alþingi lýsir þeirri skoðun sinni að engin lausn sé viðunandi á málefnum Eystrasaltsríkjanna önnur en fullt og óskorað sjálfstæði þeirra.
    Alþingi skorar á þjóðir heims, og ríki Vesturlanda sérstaklega, að veita Eystrasaltsríkjunum þann stuðning sem þau þurfa til að endurheimta sjálfstæði sitt.
    Alþingi vekur athygli á þeim miklu vonum sem bundnar eru við varanlegan frið í Evrópu í kjölfar þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og varar við alvarlegum afleiðingum þess að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé fótum troðinn.``
    Þessu fylgir örstutt greinargerð.
    ,,Ofbeldisaðgerðir sovésks herliðs í Litáen síðustu

daga gefa tilefni til að Alþingi álykti enn á ný um málefni Eystrasaltsríkjanna.
    Á fundi utanrmn. í dag var einróma samþykkt að flytja þáltill. þessa.``
    Ég vil svo taka það fram að haldinn var í kvöld einnig fundur formanna þingflokkanna ásamt forsetum Alþingis o.fl., sem sátu þann fund, og mæli ég líka fyrir hönd þess hóps sem þar hittist þegar ég mæli hér með till. þessari. Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að henni verði vísað til síðari umræðu en það er ekki ástæða til að vísa henni til nefndar þar sem hún er flutt af utanrmn. allri.