Húsnæðislánastofnanir og húsbankar
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú ofmælt að sá þingmaður sem hér stendur hafi þá þekkingu á þessum málum sem hæstv. umhvrh. vildi halda fram, að hann gæti leyst úr þeim vandamálum sem hér eru til meðferðar sem eru húsnæðismál. Hins vegar get ég væntanlega eitthvað lagt til málanna varðandi það atriði sem hæstv. ráðherra kom inn á varðandi stöðu og þátttöku lífeyrissjóðanna í húsnæðismálakerfi þjóðarinnar.
    Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að lífeyrissjóðirnir koma mjög við sögu þessara mála og hafa gert í áratugi, m.a. vegna þeirrar miklu söfnunar á ráðstöfunarfé sem á sér stað í lífeyrissjóðum þjóðarinnar. Ástæðan er öllum hv. þm. kunn. Hún er sú að Íslendingar eru tiltölulega ung þjóð og hún hóf skipulega að safna fé í lífeyrissjóði 1970 og m.a. vegna þess að greiðsluskylda sjóðanna með tilliti til trygginga er ekki orðin mjög mikil, þá hafa safnast miklir fjármunir í lífeyrissjóðina.
Það hefur leitt til þess að lífeyrissjóðirnir hafa raunverulega verið sú uppspretta sem menn hafa litið til sérstaklega í sambandi við húsnæðismálin, eins og öllum hv. þm. er kunnugt um, og hafa menn leitað ýmissa ráða til þess að nýta þetta fé í sambandi við húsnæðismál.
    Eins og fram hefur komið í ræðum hér, bæði hjá frummælanda þessa frv. sem hér er til meðferðar og einnig hjá hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh., þá hafa menn leitast við að beina fjármagni lífeyrissjóðanna inn á þessar brautir og með þeim hætti að þetta fé kæmi sem best að notum. Að sjálfsögðu kemur margt til greina í þeim efnum og það æskilegasta væri, svo að ég svari nú strax þeirri fyrirspurn sem til mín var beint, það æskilegasta væri, alla vega að mínu mati, að þetta fé færi sem milliliðalausast frá lífeyrissjóðunum til þeirra sem þurfa að nota þessa peninga vegna íbúðarmála. Með því mundi það að sjálfsögðu sparast sem fer í kostnað til milliliða, sem og það, og hef ég sagt það hér fyrr í ræðum, að ef lífeyrissjóðirnir þyrftu að standa frammi fyrir því að ávaxta þetta fé á frjálsum markaði, þá er ég sannfærður um að það mikla fjármagn sem kæmi inn á markaðinn mundi hafa vaxtalækkandi áhrif þegar í fyrstu umferð. Þetta hef ég margsinnis sagt hér á hinu háa Alþingi en ætíð fyrir daufum eyrum, þ.e. hér er ekki meirihlutavilji til þess að skoða málið út frá því sjónarmiði.
    Hins vegar er það að sumu leyti skiljanlegt, þó að ég ætli ekki að fara að verja það sjónarmið, að menn hafi viljað beina þessu fé inn í opinbera kerfið með þeim hætti sem við þekkjum þegar það er haft hugfast að hið opinbera og þar með hið háa Alþingi hefur margsinnis á liðnum árum boðist til þess að koma til skjalanna í sambandi við lausn þessara mála með þeim hætti að aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki getað hafnað því að ganga til samninga við ríkisvaldið. Þar á ég m.a. við það að ríkið hefur með löggjöf í gegnum árin allt til síðustu ára skuldbundið sig til þess að leggja ákveðið fjármagn til húsnæðismála,

jafnframt því sem ríkið undirgekkst það á grundvelli laga sem samþykkt voru hér í byrjun árs 1986 að eiga viðskipti við lífeyrissjóðina á því sem ég mundi segja tiltölulega háum vaxtakjörum í sambandi við skuldabréf sem Húsnæðisstofnun seldi lífeyrissjóðunum, á sama tíma sem ríkið gekk í ábyrgð fyrir að sama fé yrði lánað út aftur á mun lægri vöxtum.
    Það er náttúrlega erfitt fyrir þá sem bera ábyrgð á þessum málum fyrir hönd lífeyrissjóðanna að hafna slíkum kostaboðum þó það liggi í augum uppi og lá raunverulega í augum uppi strax í upphafi að það gæti ekki enst nema mjög tímabundið. Því að það hefur náttúrlega komið í ljós sem vitað var að hvorki ríkið né hið háa Alþingi getur skuldbundið þjóðina fram í tímann sem nemur milljörðum í því að greiða niður vexti á húsnæðislánum.
    Ég verð nú að segja það, fyrst ég er byrjaður að tala um þetta, að það er margt sem þarf að íhuga og skoða í sambandi við húsnæðismálin áður en menn geta komið sér niður á hina endanlegu lausn. Í mínum huga er auðvitað hin endanlega lausn þessara mála svipuð því markmiði sem kemur fram í þessu frv., sem er sú að hér sé það sem við köllum frjáls markaður í sambandi við bæði lánastarfsemi til húsnæðismála og meðferð þessara mála almennt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að losa þetta allt meira og minna frá ríkisvaldinu og þá með þeim hætti að Húsnæðisstofnun verði lögð niður. Það gerist auðvitað ekki á einni nóttu. Það gerist í samningum og hlýtur því að krefjast ákveðins aðlögunartíma. Það er okkur öllum ljóst. Hins vegar hlýtur það að stefna í þá átt og vera krafa. Ég held að þetta muni koma af sjálfu sér.
    Hæstv. umhvrh. talaði um það að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki átt frumkvæði að þessu máli sem skyldi frá því að lögin frá 1986 komu til skjalanna og að þeir hefðu keypt sig undan skyldum sem hefði m.a. haft það í för með sér að frumkvæði í stefnumörkun í húsnæðismálum hefði ekki verið með þeim hætti sem æskilegt væri.
    Ég held að það sé rangt að halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi keypt sig undan skyldum. Þetta voru samningar ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins og við skulum hafa það í huga að lífeyrissjóðinir eru á samningssviði aðila vinnumarkaðarins þannig að lífeyrissjóðirnir sem slíkir gátu ekki haft það frumkvæði sem ég tel að þeir hefðu átt að hafa, m.a. vegna þessarar bindandi löggjafar frá 1986. Hins vegar hlýtur að vera skylda þeirra sem standa að lífeyrissjóðunum sem og annarra sem koma við sögu húsnæðismála, og á ég þar sérstaklega við verkalýðshreyfinguna, byggingaraðila og svo að sjálfsögðu einstaklinga, að eiga ákveðið frumkvæði í þessum efnum og m.a. í þá veru sem hæstv. umhvrh. kom inn á, að losa um þau höft og þá miðstýringu sem er í núverandi húsnæðismálakerfi.
    Ég er þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir eigi að koma inn í þetta eins og aðrir aðilar sem hafa yfir fjármagni að ráða, með þeim hætti að þeir eigi viðskipti á þessu sviði eftir því sem hentar, ég vil segja á hverjum stað á landinu, þannig að það á ekki að

vera nein algild formúla í þeim efnum. Fjármagnið á að fara til notandans, þ.e. íbúðarbyggjanda eða íbúðarkaupanda eða verktaka sem á frumkvæði í þessum málum eftir hinum eðlilegu lögmálum frjáls markaðar. Hins vegar vil ég undirstrika að það er óhjákvæmilegt að búa við ákveðið kerfi í sambandi við hinar svonefndu félagslegu íbúðir. Það er nú einu sinni þannig að það hafa ekki allir möguleika á því að eignast sitt eigið húsnæði og þar verður hið opinbera að koma til skjalanna. Það er því hugsanlegt að Húsnæðisstofnun muni í framtíðinni fyrst og fremst verða stofnun í þágu þeirra sem þurfa að leita lausnar hins opinbera á þessum málum. Það verði að gerast á félagslegum grundvelli í gegnum, ég vil segja hálfopinbert húsnæðismálakerfi. Hvað sá þáttur er stór í húsnæðismálakerfinu í heild vil ég ekki segja til um, enda er það afstætt. Það fer eftir því hvernig menn meta þörf fyrir félagslegar íbúðir á hverjum tíma og eftir aðstæðum í efnahagsmálum og einnig með tilliti til þess hvernig eigna - og tekjuskipting er á hverjum tíma. Þá hlýtur skattastefna að koma hér mjög sterkt til skjalanna í sambandi við það að gera mönnum kleift að standa á eigin fótum varðandi sjálfstæða íbúðareign.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um það. Ég vil undirstrika það einnig að gefnu tilefni þar sem hv. 5. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson talaði um það að Sjálfstfl. hefði ekki skýrt hver væri stefna hans í þessu máli. Ég þarf ekki að ítreka það í löngu máli. Það er stefna Sjálfstfl. að þetta sé sem frjálsast. Það er grundvallarstefna og þarf ekki að margendurtaka það, og það veit hv. þm. Við leggjum áherslu á það að viðhaldið sé ákveðnu félagslegu kerfi vegna þeirra sem hafa þörf fyrir það og geta ekki staðið á eigin fótum, eins og ég sagði hér áðan, en að öðru leyti leggjum við áherslu á frelsi á þessu sviði og að þau viðskipti geti þá farið fram hvort sem er í gegnum banka eða aðrar fjármálastofnanir sem eru í stakk búnar til þess að gera það með þeim hætti að tryggt sé að fjármunir nýtist sem best og allar viðeigandi tryggingar séu fyrir hendi.