Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og eins hæstv. ráðherra fyrir skýr svör hans. Ástæðan fyrir því að ég kem hér í pontu er sú að ég tel eðlilegt að taka undir orð hæstv. ráðherra varðandi upplýsingaskyldu banka og annarra þeirra sem stunda lánsviðskipti og þá ekki síður ríkissjóðs. Það mætti reyndar benda á að stundum hefur ríkissjóður verið sakaður um það að gefa jafnvel allt að því rangar upplýsingar, þótt ég vilji ekki að taka undir það, með því að gefa meira í skyn heldur en eðlilegt er í auglýsingum um spariskírteini ríkissjóðs.
    En vegna orða hæstv. ráðherra vil ég segja það að mér finnst vera full ástæða til þess fyrir bankaráð bankanna að beita sér fyrir því að slíkar upplýsingar liggi fyrir á hverjum stað og mun sjálfur vinna að því í því bankaráði sem ég á sæti í.