Störf frambjóðenda hjá ríkisfjölmiðlum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. Hún er á þskj. 464 og er svohljóðandi:
    ,,Hvaða reglur gilda um störf frambjóðenda í alþingiskosningum hjá Ríkisútvarpinu?``
    Þetta er stutt fsp. og skýrir sig væntanlega sjálf án langs formála en ég tel nauðsynlegt að það sé upplýst með hvaða hætti ríkisfjölmiðlarnir taka á þessum málum sem varða þátttöku frambjóðenda í alþingiskosningum og auðvitað í öðrum opinberum kosningum, þar sem er eðlilegt að reglur séu settar.
    Ástæðan fyrir því að ég lagði þessa fsp. inn fyrir jólahlé þingsins var sú að ég varð var við það að frambjóðendur voru að störfum hjá Ríkisútvarpinu, jafnvel þáttastjórar í viðkvæmum þáttum, þ.e. þáttum sem hægt var að útfæra eftir ákvörðun viðkomandi. Ég tel í rauninni óeðlilegt að heimild sé til slíks eftir að ákvarðanir liggja fyrir hjá flokkunum um þátttöku manna í þingkosningum. Spurningin er síðan einnig um það hvort slíkar reglur ættu að vera almenns eðlis og gilda almennt um fjölmiðla. Ég hef ekki velt því mikið fyrir mér en mér fyndist ekki óeðlilegt að það væru samræmdar reglur að þessu leyti og þá væri ekki óeðlilegt að litið væri til, eða athugað a.m.k., hvernig staðið er að þessum málum í nágrannalöndum okkar, annars staðar á Norðurlöndum. E.t.v. getur hæstv. menntmrh. frætt okkur um það þegar hann svarar þessari fsp.