Reglur um fréttaflutning
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil einnig þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég hef spurnir af því að þegar áhugaleikfélög hafa haft samband við fréttastofu Ríkisútvarpsins til þess að vekja athygli á sínu starfi, sem er mjög merkilegt í mörgum tilfellum, þá hafi svarið verið: Það er búið að taka ákvörðun um það að ekkert verði fjallað um störf áhugaleikfélaga. Mér þætti forvitnilegt að vita hvar sú ákvörðun er tekin. Reyndar kom það fram í máli ráðherrans varðandi Húsavík að nú á eitthvað að fjalla um sýningu sem þar verður sett upp þó svo að á Húsavík sé áhugaleikfélag. Þó svo að ég vilji Húsvíkingum allt hið besta þá langar mig til þess að hafa fregnir af því hvernig er hægt að gera þannig upp á milli að velja eitt áhugaleikfélag úr en öll hin eru höfð út undan.