Veiðiréttur smábáta
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 523 að koma fram með fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um krókaveiðirétt smærri báta. Fyrirspurnin er í tvennu lagi:
 ,,1. Hvers vegna er krókaveiði smábáta ekki frjáls að því marki sem sóknardagar heimila?
    2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breytt verði þeim hættulegu reglum sem nú gilda um hvernig veiðiheimild báta undir 6 tonnum, sem velja veiðar með línu og handfærum (krókaveiði), verður ákvörðuð á því veiðitímabili sem hefst 1. sept. 1994?``
    Eins og hæstv. ráðherra veit og hv. alþm., þá fer það eftir þeim afla sem þeir fá á þessu tímabili hvert aflamark þeirra verður ef farið verður eftir lögunum eins og er gefið í skyn en þó ekki fullyrt að verði. Þetta veldur því að menn sækja mjög fast til að reyna að ná þessum afla. Ég er ekki að segja að þau hörmulegu slys sem hafa orðið séu af þessum ástæðum en það gæti verið og það geta orðið slys af því að menn sækja þarna með miklu kappi til þess að geta fengið lífvænlegan veiðirétt.
    Það hafa borist hæstv. ráðherra og þingmönnum ýmis bréf og samþykktir í þessu máli. Það er ekki tími til að vitna í þau hér en þetta er mjög umhugsunarvert. Þetta er hættulegt og ég eiginlega skil ekki í því að þessi leið skuli hafa verið valin því þarna er ekki um umtalsvert aflamark að ræða.