Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Mér var boðið að vera á þessari þáltill. en fyrst og fremst af tveimur ástæðum gerði ég það nú ekki. Fyrri ástæðan var sú að í þessari þáltill. er eingöngu talað um að endurskoða fiskveiðistefnuna. Ég vildi setja þarna inn í einnig fiskvinnslustefnuna vegna þess að það var búið að heita því að hún yrði sett á þessu kjörtímabili, það er í samningi ríkisstjórnarflokkanna að okkar ósk, en það hefur ekki verið framkvæmt. Fiskvinnslustefna er ekkert lítið atriði fyrir byggðirnar og auðvitað á að setja samasem - merki um stjórnun fiskveiða og fiskvinnslu. Enn fremur segir í tillögugreininni að það skuli kjósa sjö alþingismenn í milliþinganefnd með hlutfallskosningu, þ.e. að þeir sem með mér t.d. standa mundu ekkert koma að þessu verki ef af yrði. Það réði töluvert miklu um. Í þriðja lagi finnst mér líka að tillagan sé að setja ákveðinn ramma hvernig stefna skuli að þessum málum sem ég held að þessi nefnd, ef sett væri, þyrfti að hafa nokkuð frjálsar hendur um að setja.
    En eitt er alveg víst, hæstv. sjútvrh., að þessi stefna með fiskveiðistefnuna og að setja ekki fiskvinnslustefnu er alvarlegt mál fyrir þjóðina og ekki síst fyrir byggðir þessa lands. Mér þykir ákaflega hart að þurfa að kyngja því að ráðherrann, sem var einn af þeim sem gekk frá þessum samningi stjórnarflokkanna og samþykkti það að taka upp fiskvinnslustefnu --- ég skal viðurkenna að það var með vissum dræmingi, en gerði það þó --- hann hefur ekki sýnt neina viðleitni til að verða við því.
    Ég held að það þurfi að athuga ýmislegt í þessu máli. Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri endurskoðunarákvæði í lögunum, að það ætti að endurskoða þau fyrir árslok 1992 og það er rétt. En það segir ekkert um það hvenær það skuli gert, það er hægt að endurskoða þau strax á morgun þrátt fyrir þetta. Það er verið að tryggja það að það verði í síðasta lagi þá. Þess vegna er ákvæðið. Hann hefur mikið á móti byggðakvóta sem er alveg grundvallaratriði. Og ef hann hefur ekki heyrt það í sínum ferðum um landið og hjá sínum kjósendum þá hefur hann bara ekki lengur samband. Ég vil ekki trúa því að eins vel gerður maður og hæstv. sjútvrh. er sé búinn að missa allt jarðsamband. Þá er illa komið.
    Hann sagði að þessi breyting sem flm. leggja til, að taka upp sóknarmarkið, muni leiða til þess að hætt sé við því að aflinn fari yfir þau ákveðnu mörk sem sett eru. Það er sjálfsagt rétt, en hvenær hefur það ekki verið, nema kannski eitt ár, eitt eða tvö ár sem það hefur ekki farið yfir? Ég veit ekki betur. Nei, það er ekki búandi við þetta svona.
    Eitt mesta mál byggðanna er að setja upp vinnslukvóta og stjórna svo fiskveiðunum samkvæmt því. Ég er ekki maður til þess að segja alveg hvernig það á að vera og ég ætla ekki að gera það, enda erum við að tala um að kjósa nefnd þingmanna og það er athygli vert að þarna er gengið fram hjá hagsmunaaðilunum, en það er nauðsynlegt. Það er bara nauðsynlegt að gera það eins og þessi mál hafa þróast og

standa. Undir það tek ég mjög ákveðið.
    Það er ýmislegt í þessu basli okkar með sjávarútveginn. Það er kastað kynstrum af úrgangi úr fiski og jafnvel lifur einnig í sjóinn. Fuglinum fjölgar óhemjumikið af þessum ástæðum og síðan eru þessir fuglar í seiðagöngunum eftir því sem þeir geta og ná til. Það má ekki veiða hrefnu sem hefur fjölgað mikið og eins er það með hvalinn. Þó að það séu kannski ekki margar tegundir sem eru með í þessum botnfiskafla, þá eru það sumar tegundir og sérstaklega hrefnan og selurinn.
    En ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að það verður ekkert undan því vikist að stokka þessi mál upp. Það verður ekki undan því vikist. Þjóðin mun heimta það, hvorki meira né minna. Byggðirnar sumar riða til falls af því ástandi sem er í þessum málum.