Staða fangelsismála
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér áður hafa verið sögð um þessa þáltill. og þörfina fyrir heildarúttekt á stöðu fangelsismála og úttekt á því hvernig framtíðarskipun verði. Það er ekki vansalaust fyrir þetta litla samfélag sem er eiginlega eins og ein fjölskylda að við skulum vera þó þannig að einn af hverjum 200 skuli þurfa að lenda á vegum fangelsanna. Þetta kemur auðvitað til af því að forvarnarstarfið hjá okkur er ekki nógu gott. Við þurfum að byrja forvarnarstarf og aðstoð við alla þá sem við sjáum að geta átt það á hættu að lenda úti á villigötum. Að vísu er það mín skoðun að allir geti lent í því að fremja eitthvað sem er refsivert. Þar er enginn undanskilinn. En mjög snemma á lífsleiðinni getum við séð að til óheilla horfir hjá mörgu ungmenninu. Þess vegna þarf að byrja forvarnarstarf mjög snemma og það tengist þessari úttekt.
    En það er ekki nóg með það að við þurfum forvarnarstarf sem byrjar snemma og er stóreflt eftir því sem lengra kemur fram á lífsskeið fólksins, þ.e. á unglingsárunum, en þá er mjög algengt að fólk fari út af því spori sem samfélagið ætlar því. Og það er ekki nóg að forvarnarstarfið sé eflt heldur þarf það varnarstarf sem fer fram inni í fangelsunum að vera miklu, miklu víðtækara og meira og breytast eftir tímans þörfum.
    Það er vitað mál að mjög margir af þeim sem koma inn í fangelsin hafa drýgt afbrot sín undir áhrifum annaðhvort áfengis eða eiturlyfja og þess vegna þyrfti sú starfsemi, sem færi fram innan fangelsanna við það að hjálpa fólkinu til þess að afvenjast áfenginu og eiturlyfjunum, að vera miklu, miklu sterkari og áhrifaríkari heldur en raunin er á. Ég hef horft upp á ýmsan ungan manninn, sem hefur komið út úr fangelsunum, og ætlað sér að ganga á þeim brautum sem samfélagið ætlar honum, á brautum afbrotaleysisins, detta í það eins og kallað er. Oft skeður það á hátíðum þegar aðrir eru að gleðjast saman í faðmi fjölskyldunnar, þá skeður það einmitt oft með margt af þessu fólki sem á kannski ekki að svo mörgum að halla sér að það missir fótanna, dettur í það, fær sér eiturlyf eða eitthvað og fremur afbrot. Þess vegna er þetta varnarstarf sem fram þarf að fara inni í fangelsunum alveg geysilega mikilvægt. Og ekki nóg með það. Eftiráaðstoðin þarf líka að stóraukast.
    Í sambandi við það varnarstarf og uppbyggingarstarf sem þarf að fara fram inni í fangelsunum langar mig að minnast á það að biskup Íslands fór fram á það við síðustu fjárlagagerð að fá að ráða í starf fangaprests til viðbótar þeim sem nú er því að þörfin er mikil núna, en þingheimur sá ekki ástæðu til þess núna að veita fé til þess. Þetta finnst mér mjög miður. Ég held að sá ungi maður, sem ætlað var það starf að vinna með æskulýðnum sem kominn er inn í fangelsin, hefði getað unnið mjög gott starf og mér finnst jafnvel að þeir sem um fjármálin halda hér í þinginu ættu að endurskoða nú þegar afstöðu sína og veita fjárveitingu fyrir annarri stöðu fangaprests hér á

Reykjavíkursvæðinu.
    En þegar fólk er komið út úr fangelsinu blasir við hinn harði veruleiki. Það er erfitt að fá vinnu, það er erfitt að fá nýja félaga, félaga sem ekki draga það út í sukkið og afbrotin aftur, því að þeir bíða margir meira en fúsir til að taka þátt í leiknum með þeim sem út kemur, sem oft á líka dálítið af peningum af því að hann hefur unnið sér fyrir þeim inni í fangelsinu. Því er það að ég álít að þessu þingi, stjórnvöldum þessa lands beri skylda til að efla mjög einmitt þessa þætti.
    Við verðum að gæta þess að það eru ekki nema nokkur ár síðan við ákváðum það í hinu háa Alþingi að leyfa sölu bjórs á Íslandi. Við ákváðum að opna fyrir flóðgáttirnar. Nú eru tugir kráa á götuhornunum hér í Reykjavík og það þarf enginn að ímynda sér annað heldur en að einmitt tilurð þessara kráa valdi því að afbrotum fjölgar meðal æskufólks á Íslandi. Það er ekki nóg með það að afbrotum fjölgi meðal æskufólks á Íslandi við tilkomu þessara kráa heldur hefur bjórinn valdið því að æskufólki á aldrinum 12 -- 18 ára er miklu hættara við að lenda í klóm áfengisins. Það hafa kannanir sýnt að neysla áfengra drykkja hefur stóraukist á þessu aldursskeiði jafnvel þó að svo hafi nú ekki verið hjá þeim sem eldri eru. Bjórinn hefur ekki haft eins mikil áhrif á þá sem eldri og þroskaðri eru og á hina.
    Forvarnarstarfið, áður en fólkið verður fyrir þeirri ógæfu að drýgja afbrotið, varnarstarfið inni í fangelsinu og uppbyggingarstarfið þarf að stóraukast og það starf sem unnið er í samvinnu í fangelsismálum þarf líka að stóraukast.
    Þetta þýðir sem sagt að fangelsismálin þurfa öll að endurskoðast og starfsemi Fangelsismálastofnunar þarf að stóreflast. Ég vil bara benda á að það er óralangt síðan orðið betrunarhús var búið til og notað um þessar stofnanir. Það heyrist ekki lengur vegna þess að við vitum þó það að þau standa ekki undir því nafni eins og ástandið er í dag.