Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki í dag eða í gær sem við erum að komast að því að þessi möstur voru að falli komin. Við erum búin að vita það í tvo áratugi. Ríkisútvarpið hefur æ ofan í æ sent beiðni um það til hins háa Alþingis að fé það sem áætlað er í 22. og 23. gr. útvarpslaga berist þeim, en við höfum séð okkur sóma í því að neita þeim um það.
    Mér finnst engin ástæða til að vera að tíunda það hvaða maður hafi verið fjmrh. í þann tíð sem þessi leikur hófst. Við höfum leikið hann æ ofan í æ síðan og berum öll sömu skömmina af því.
    Það er ekki bara að skip á hafi úti lendi í hættu við svona aðstæður heldur hver einasta byggð landsins. Mér er kunnugt um það að margir úti um landsbyggðina voru útvarps - og sjónvarpslausir núna þessa helgi af því að langbylgjustöðin virkaði ekki. Því verðum við að grípa til allra þeirra ráða sem möguleg eru til þess að endurreisa möstrin sem fyrst og endurnýja annað það í kerfunum uppi á Vatnsenda sem er orðið svo úrelt að það er eiginlega orðið að hálfgerðri antík en ekki nothæfri vöru.