Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir það að vekja athygli á þessu máli hér utan dagskrár í dag. Það var í tíð hv. 1. þm. Suðurl. þegar hann var fjmrh. sem þetta gjald var látið ganga til Ríkisútvarpsins árið 1986, en í því stjórnarsamstarfi sem þá átti sér stað undir forustu núv. forsrh. var það lagt af árið eftir og hefur ekki verið gert síðan. Þetta segi ég vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v.
    Það er allt góðra gjalda vert sem kemur hér fram hjá hæstv. menntmrh. og ágætur kafli sem hann las úr sinni eigin ræðu sem hann flutti hér á fimmtudaginn í síðustu viku. En það er annar kafli í þeirri ræðu sem hann sleppti að lesa og hann fjallar um tekjutap vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki afnotagjald fyrir gamalt fólk og það munu vera um 120 millj. kr. sem Ríkisútvarpið tapar þannig af tekjum sínum. En í ræðu sinni sl. fimmtudag sagði hæstv. ráðherra eitthvað á þann veg að hann hefði tekið það mál upp í ríkisstjórninni og það var á honum að skilja þá, ég hef þessa ræðu hér, ég kann ekki við að vitna í hana orðrétt, að hann mundi beita sér fyrir því að Ríkisútvarpið fengi með þeim hætti um það bil 120 millj. kr. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það gengið eftir sem hann fjallaði um í sinni ræðu sl. fimmtudag?
    Að allra síðustu, virðulegi forseti, og ég skal ekki misnota minn tíma hér, þá bendi ég á að þessi sjónarmið sem hér hafa verið rædd í dag koma öll fram mjög skýrlega í bréfi til hæstv. menntmrh., dags. 7. des. sl., en meiri hl. í hv. Ed. kaus að fara ekki að þeim ráðum sem allir virðast vera sammála um að nú eigi að gera, þ.e. að endurvekja þann sið sem áður var að útvarpið fái sinn skerf vegna aðflutningsgjalda af viðtækjum.