Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Virðulegi forseti. Það atriði sem hv. 4. þm. Suðurl. spurðist fyrir um hefur auðvitað verið mjög ítarlega skoðað og rætt í tengslum við þetta mál, þ.e. með hvaða hætti mætti hvetja til þess að bændur sem væru tilbúnir til að draga saman eða láta af hefðbundnum búskap, fyrst og fremst sauðfjárbúskap, gætu haft forgang að þessu verkefni. Niðurstaða hefur orðið sú að það væri ekki gerlegt og ekki skynsamlegt að binda þetta tvennt með beinum hætti og algerlega saman. Það yrði mjög erfitt í framkvæmd. Til að mynda ef hefði átt að tengja aðgengi manna að skógræktarátakinu framleiðslurétti þeirra í hefðbundnum búskap, hefði það orðið erfitt í framkvæmd og hætt við að það hefði til frambúðar mismunað mönnum mjög sem þátttakendum í þessu verkefni út frá þeim tímabundna fullvirðisrétti sem þeir höfðu á einni tíð.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að menn átti sig á því að fullvirðisréttur til hefðbundins búskapar er í raun ekkert annað en hlutdeild í tímabundnum samningi ríkisvalds og bænda. Kæmi til þess að slíkur samningur yrði ekki gerður eða ekki endurnýjaður fellur fullvirðisréttarhugtakið og þar með reiknieiningin í framleiðslustjórnuninni niður. Þar með væri brostin sú forsenda sem áður lá til grundvallar þátttöku manna í þessu verkefni. Niðurstaða þessa máls varð því sú sem lesa má um í 6. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ábúendur jarða sem teknar eru til skógræktar skv. samningi við Héraðsskóga skulu hafa forgang að vinnu á vegum verkefnisins á þeim jörðum er þeir sitja. Forgang að annarri vinnu á vegum Héraðsskóga skulu þeir bændur hafa sem láta af sauðfjárrækt samhliða aðild sinni að Héraðsskógum. Að þeim frágengnum hafa aðrir bændur sem aðild eiga að Héraðsskógum forgang að vinnu við verkefnið.``
    Þá segir enn fremur í 3. mgr.:
    ,,Þá skulu þær jarðir, þar sem sauðfjárbúskapur dregst verulega saman eða er lagður niður, hafa forgang að verkefninu umfram aðrar jarðir.`` Því er ljóst að þó svo menn hafi ekki treyst sér til að binda þetta beint saman, þá eru inni í lögunum heimildir til þess að veita þeim jörðum og þeim bændum sem dregið hafa saman hefðbundinn búskap, sauðfjárrækt, forgang að verkefninu með ýmsum hætti, bæði jörðunum hvað snertir forgang að plöntum og fjármagni á hverju ári og bændunum hvað snertir forgang að vinnu. Lengra treystu menn sér ekki til að ganga eða fundu ekki forsendur til að ganga. Ég vona að með því að beita þessum heimildarákvæðum, þá verki þetta í raun og veru á sambærilegan hátt eða a.m.k. hvetji til þess og opni möguleika á því að þeir bændur sem draga saman hinn hefðbundna búskap hafi þarna forgang.
    Varðandi bætur vegna samninga við Sauðfjárveikivarnir um niðurskurð vegna riðu er því til að svara að í þessu tilviki, eins og mörgum öðrum, reka menn sig á þau ákvæði samninganna sem Sauðfjárveikivarnir gera við bændur. Þar er beinlínis tekið fram að þeirra

hlut megi ekki skerða umfram aðra bændur að framleiðsluréttinum sem leigður er. Það hefur frá upphafi verið grundvöllur aðgerðanna til útrýmingar riðu að ekki sé gengið á hlut þeirra bænda, sem jafnvel lögþvingað eru skyldaðir til að skera niður bústofn sinn í þágu þessara sjúkdómsvarna, umfram aðra starfandi bændur á sama tíma. Þetta er mikilvægt grundvallaratriði sem gerir það að verkum að engar réttar forsendur eru til þess að skerða með neinum beinum hætti bætur eða stöðu þeirra bænda sem lent hafa í niðurskurðaraðgerðum. Ég hygg því að á þetta atriði mundu menn reka sig mjög fljótt í þessu tilviki, eins og öðrum, ef ætti að taka tillit til þessa sérstaklega.
    Hv. fyrirspyrjandi á væntanlega við þá staðreynd, sem auðvitað er ljós, að þessir bændur geta sem þátttakendur í Héraðsskógaverkefninu og vegna riðuniðurskurðarins fengið greiddar bætur frá hinu opinbera úr tveimur mismunandi áttum á sama tíma. Til þess getur komið. En þar eru á ferðinni metnar eða umsamdar bætur fyrir beint tjón sem riðuniðurskurðurinn hefur valdið mönnum. Þeir fá þar fyrst og fremst greiddan annars vegar bústofninn sem skorinn var og í öðru lagi launalið þess búskapar sem þeir héldu uppi. Það er rétt að menn átti sig á því að niðurskurðarbæturnar taka ekki til endurgjalds eða ávöxtunar á þeim fastafjármunum sem viðkomandi bændur eiga í ræktun og húsakosti á sínum jörðum. Þann tíma sem niðurskurðartímabilið stendur eru þeir fjármunir bænda bundnir án endurgjalds, án þess að vinna fyrir sér. Ég hygg því að ekki sé hægt með sanngirni að halda því fram að þeir séu í raun ofhaldnir af þeim bótum sem þeir þannig fá, til að mynda af þessum ástæðum, sem ég hef nefnt, að þeirra fastafjármunir og fastur kostnaður við búreksturinn er ekki reiknaður inn í bæturnar á nokkurn hátt. Það tjón sem það bakar þeim að geta ekki nýtt framleiðsluaðstöðu sína það 3 -- 5 ára tímabil sem fjárleysið varir er þeim ekki bætt. Og af þeim réttarregluástæðum sem ég hef rætt, þá held ég að sé ákaflega erfitt að greina þá frá öðrum aðilum í þessu tilviki.
    Ég get upplýst, án þess að kunna nákvæmlega tölur, það sem hv. 4. þm. Suðurl. spurði um, að ríkið hefur lagt fram fé til styrktar uppbyggingu hlutafélagsins Barra hf. Ríkið er minnihlutaeignaraðili að því félagi gegnum þau framlög sem það hefur reitt af hendi sem hafa fyrst og fremst verið framlög til uppbyggingarinnar þannig að plöntuframleiðsla fyrir skógræktarverkefni gæti hafist. Það var niðurstaða skógarbændanna sjálfra og ósk þeirra að standa svona að málum, að stofna hlutafélag sem sæi um plöntuuppeldið og þá fyrst og fremst fræplönturnar. Varðandi græðlingaframleiðslu er enn til athugunar að bændur geti leyst það að einhverju leyti heima á sínum býlum. En prósentutölur um einstaka eignarhlutdeild þarna kann ég ekki. Ég veit að fyrirtækið er að miklum meiri hluta í eigu heimaaðila og skógarbændur sjálfir eru þar langstærstu hluthafarnir í gegnum það fé sem þeir hafa sjálfir lagt fram og í gegnum það fé sem þeir hafa með stuðningi Framleiðnisjóðs landbúnaðarins lagt af mörkum. Þetta er orðið fjölmennasta

hlutafélag sem stofnað hefur verið á Austurlandi með þátttöku á annað hundrað aðila heima í héraði og á Austurlandi. Held ég nú að þátttaka heimamanna í því sýni betur en margt annað góðan hug og mikinn vilja þeirra til þess að standa á bak við þetta verkefni. Mér er varla kunnugt um að einn einasti aðili sem til hefur verið leitað á Fljótsdalshéraði eða Austurlandi hafi skorist úr leik þegar leitað hefur verið til manna um þátttöku í verkefninu.
    Ég get ekki gefið hér á staðnum og stundinni því miður nákvæmar tölur um byggingarkostnað, en ég veit að aðalframkvæmdin, þ.e. húsið sjálft, var boðið út í opnu útboði. Það bárust nokkur mismunandi tilboð og lægsta tilboðinu var tekið sem var frá límtrésverksmiðjunni á Flúðum í kjördæmi hv. fyrirspyrjanda. Vænti ég þess að það gleðji hagsmunagæslumenn Sunnlendinga að verkefnið kom í hlut þess fyrirtækis, enda stóð það sig best þegar útboð fór fram á opnum markaði. Verkefni þessa fyrirtækis er að framleiða plöntur í skógræktarátakið. Það var eftir vandlega og ítarlega skoðun mat, bæði skógarbænda sjálfra og þeirra sérfróðu aðila sem að þessu komu og skoðuðu með þeim, að álitlegasti kosturinn væri þessi, að standa svona að málum. Með hagkvæmni stærðarinnar í einni stórri gróðrarstöð ætti að nást lægstur framleiðslukostnaður. Það var ljóst að eitt af fyrstu og brýnustu verkefnum í þessu átaki var að sjá með tryggum hætti fyrir framleiðslu á nægjanlegu magni plantna á viðráðanlegu verði.
    Ég vona að þetta hafi svarað með fullnægjandi hætti spurningum hv. þm.