Sala hlutabréfa í Gutenberg hf.
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Hæstv. forseti. Ég hef á þskj. 507 leyft mér að bera fram fyrirspurn til fjmrh. um sölu hlutabréfa í Gutenberg hf. sem áður var Ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Þessi prentsmiðja heyrir að vísu undir iðnrn. en í fjárlögum er fjmrh. fengin heimild til þess að selja þessi bréf eins og ákvæði eru um í lögunum um Gutenberg hf., þar er kveðið á um að heimild Alþingis þurfi til að hlutabréfum þessum sé ráðstafað til sölu. Hins vegar bar það við þegar fjárlög voru hér afgreidd að ekki var af hálfu fjvn. eða ríkisstjórnarinnar gerð nein grein fyrir því með hvaða hætti ætlunin væri að nýta þessa heimild. Ég tel eðlilegt að Alþingi fái vitneskju um það með hvaða hætti ætlunin er að fara með þá heimild sem fjmrh. er fengin með lið 4.48 í 6. gr. fjárlaga.
    Ég vil taka það fram að ég er ekki að spyrjast fyrir um þetta vegna þess að ég sé andvígur þessum áformum heldur þvert á móti. Ég tel engu að síður eðlilegt að Alþingi fái vitneskju um það hvernig ætlunin er að standa að þessu máli. Það er að vísu tilviljun að þessi fyrirspurn skuli koma hér upp í kjölfar viðureignar hæstv. fjmrh. við Ríkisendurskoðun en kannski væri einmitt í ljósi þeirra atburða ástæða til að það lægi skýrt fyrir með hvaða hætti ætlunin er að standa að þessu máli.