Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Með flutningi þessarar þáltill. um friðlýsingu Hvítár, Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum er hreyft mjög merku máli, gamalli hugmynd í nýjum búningi þar sem gert er ráð fyrir að umhvrh. verði falið að undirbúa lagasetningu um friðlýsingu þessara tveggja vatnsfalla frá upptökum til ósa.
    Ég tek undir það með flm. þessarar þáltill. að það er rík ástæða til þess að velja úr og friðlýsa valin vatnsföll á Íslandi til þess að við njótum þeirra og eigum þau eins og náttúran gengur frá þeim hverju sinni og hefur mótað þau og með þeim breytingum sem náttúran sjálf stendur fyrir. Út frá þessari hugsun hefur hér á Alþingi verið fjallað um þessi efni fyrr á árum. Eins og fram kemur í grg. með þáltill. samþykkti Alþingi 24. apríl 1989 sérstaka þál. um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða. Ég vil aðeins rifja upp hér þessa ályktun, sem gerð er að umtalsefni í grg., en hún er svofelld, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.``
    Með þessari ályktun sem gerð var samhljóða hér á Alþingi fékkst að mínu mati mjög mikilsverð fótfesta fyrir þau sjónarmið, sem koma fram í ályktuninni og þau sjónarmið sem verið er að mæla fyrir með flutningi þessarar þáltill., að gengið verði skipulega til verks af hálfu náttúruverndaryfirvalda að gera heildarúttekt á verndargildi íslenskra vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera, eins og það er einnig orðað í samþykkt Alþingis. Náttúruverndarráði er falið frumkvæði í þessu máli. Ég held að yfirvöld náttúruverndarmála geti ekki óskað sér betri viðspyrnu en felst í þessari samþykkt þingsins. Nú er í rauninni komið fram yfir þau tímamörk sem Alþingi setti í þessari samþykkt þar sem beðið var um kynningu á stöðu málsins, þessarar úttektar, í þinginu fyrir árslok 1990. Sú úttekt er því miður ekki komin til kynningar hér enn þá, en við skulum vona að á vegum Náttúruverndarráðs í samvinnu við yfirvöld orkumála sé nú unnið að því að verða við þessu ákalli Alþingis.
    Ég treysti því og efast ekkert um það að hv. 1. flm. till., sem er varamaður í Náttúruverndarráði og með áhrif inn í Náttúruverndarráð frá síðasta þingi, beiti áhrifum sínum í þá veru að þessari samþykkt Alþingis verði fylgt eftir. Því að það er í rauninni slík úttekt sem ég tel að kallað verði eftir af hálfu þingsins og allra þeirra sem fjalla um einstaka þætti áður en menn fari að stíga þau skref að velja úr einstakar ár og lögfesta friðlýsingu þeirra.
    Nú er það svo að ég hefði sannarlega ekki á móti því og væri reiðubúinn að standa að lagasetningu um bæði þessi vatnsföll, sem ég tel að hv. flm. hafi valið úr mjög réttilega, sem vatnsföll sem eru þess virði að friðlýsa þau og varðveita með þeim hætti sem þar er lagt til.

    Ég hef raunar fyrir löngu bent á þörf þess að friðlýsa þessi vatnsföll, alveg sérstaklega Hvítá og Ölfusá. Í grein sem ég ritaði, ég má segja í svari við fyrirspurn, í tímaritinu Samvinnunni á áttunda áratugnum, þá benti ég á að ástæða væri til þess að ganga formlega frá friðlýsingu Hvítár og Gullfoss þar með, Hvítárness og alls sem tengist Hvítá frá upptökum til ósa. Það er í rauninni alveg sama hugsun og kemur fram í þessari till.
    Ég vil benda á þessu máli til stuðnings, sem hér er mælt fyrir, að lögfesta friðlýsingu einstakra vatnsfalla, að í Bandaríkjum Norður-Ameríku er sérstök löggjöf sem samþykkt var árið 1968 og heitir ,,Wild and scenic river act``. Hún gerir ráð fyrir að vernda ómenguð og lítt menguð fljót og læki ásamt næsta umhverfi og þannig að ekki verði hróflað við farvegi þeirra með stíflugerð eða á annan hátt. Þannig að Bandaríkjamenn, sem standa mjög framarlega á vissum sviðum náttúruverndarmála, ekki á öllum sviðum því miður, mengunin er þeirra vandi og þeir hafa ekki náð saman um það pólitískt að bregðast þar við, t.d. í sambandi við að draga úr mengun koltvísýrings og útblæstri þar að lútandi frá iðnaði, en á mörgum sviðum, þar á meðal í sambandi við friðlýsingar og verndun lands og náttúrufyrirbæra, standa þeir mjög framarlega og samkvæmt þessum lögum frá 1968 hafa allnokkrar ár og vatnsföll í Bandaríkjunum verið lögvernduð, friðlýst með lögum.
    Ég má segja að þeir taka að því leyti öðruvísi á friðlýsingarmálum heldur en við hér, ef ég man það rétt, að setja lög um einstakar friðlýsingar en við erum hér með almenna heimild í náttúruverndarlögum til friðlýsingar.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt frá því sem orðið er. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þá hugsun sem fram kemur í þessari till. Ég minni á þá samþykkt sem Alþingi hefur gert. Ég heiti á Náttúruverndarráð og yfirstjórn náttúruverndarmála að nota þá fótfestu sem þau hafa með samþykkt Alþingis frá 1989. Ég tel að í rauninni hafi þrátt fyrir allt þau sjónarmið, sem hér er verið að mæla fyrir, fengið kannski betri fótfestu en mátti þó skilja úr máli hv. 1. flm. þáltill. Við megum ekki ganga of beygð sem teljum okkur vera talsmenn náttúruverndarsjónarmiða sem stjórnmálamenn, og ég vænti að hv. 1. flm. líti á sig sem stjórnmálamann en hólfi ekki í sundur náttúruverndarmenn og stjórnmálamenn. Skoðanirnar eru hins vegar skiptar þegar kemur til stjórnmálanna á þessu sviði sem öðrum.
    Ég vænti þess að mál þetta fái eðlilega meðferð hér í þinginu og þá athugun sem það verðskuldar.