Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar fjmrh. hafði gert samning um sölu meiri hluta hlutabréfa í Þormóði ramma --- fyrirtækið var að meiri hluta komið í eign heimamanna --- óskuðu fjórir hv. alþm. eftir því að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka skýrslu um þessa sölu. Ríkisendurskoðun skilaði síðan skýrslu þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að velja eina ákveðna tölu og segja: Þetta er virði hlutabréfanna í Þormóði ramma. Ein ákveðin tala. Og sumir þeirra þingmanna sem báðu um þessa skýrslu höfðu síðan í framhaldi af henni mjög stór orð um sölu fjmrh. á meiri hluta hlutabréfa í Þormóði ramma. Ég skrifaði þess vegna forsetum þingsins bréf þar sem ég vakti athygli á ýmsu sérkennilegu sem fram kemur í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar og óskaði eftir því að forsetar þingsins skoðuðu málið nánar. Ríkisendurskoðun skilaði þá annarri skýrslu sem svari við bréfi fjmrh. Báðum þessum skýrslum og bréfi fjmrh., ásamt fylgiskjölum, hefur verið dreift til þingmanna.
    Sú breyting var gerð fyrir nokkrum árum síðan að Ríkisendurskoðun var flutt frá framkvæmdarvaldinu og yfir til þingsins. Þar með er Alþingi orðið ábyrgur stjórnandi þessarar stofnunar og bera forsetar þingsins og þingið endanlega ábyrgð á verkum hennar. Ég vil taka það fram strax í upphafi að ég var eindreginn stuðningsmaður þess að Ríkisendurskoðun væri flutt frá framkvæmdarvaldinu og yfir til löggjafarvaldsins. Ég var þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að í okkar stjórnkerfi þurfi að starfa öflug og sjálfstæð og faglega sterk Ríkisendurskoðun sem allur þingheimur og þjóðin í heild geti borið fyllsta traust til. Hennar niðurstöður verða að vera unnar af slíkri faglegri hæfni að hinir færustu fræðimenn í endurskoðun og reikningshaldi viðurkenni þær forsendur, þær aðferðir og þær niðurstöður sem Ríkisendurskoðun fær.
    Ríkisendurskoðun sem lendir í því að sumir af færustu endurskoðendum landsins og sérfræðingar á hlutabréfamarkaði og í verðbréfaviðskiptum draga forsendur, reikningsaðferðir og framsetningu stofnunarinnar alvarlega í efa, slík Ríkisendurskoðun er komin á hættulega braut. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt fyrir Alþingi að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, ekki bara vegna þess að einstakir þingmenn kunni að hafa ýmsar skoðanir á því hvort hafi átt að selja hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma, hvort Þormóður rammi eigi að vera ríkisfyrirtæki eða einkafyrirtæki, eða hvort einstakir þingmenn kunni að vilja dæma þann fjmrh. sem hér er pólitískt með ýmsum hætti. Það er satt að segja minni háttar mál í samanburði við það að nauðsynlegt er að tryggja að Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi og er æðsti umfjöllunaraðili um reikningsskil ríkisfjármálanna, beiti í hvívetna traustustu faglegu vinnubrögðum sem völ er á og hún njóti slíks álits í sínu faglega og fræðilega umhverfi að enginn málsmetandi fræðimaður eða fagmaður á hennar sviði dragi hennar framsetningu eða niðurstöðu í efa.

    Ég kippi mér ekki upp við það þótt einstakir þingmenn sendi mér hér í þingsölum eða utan þings meira og minna marklaus en stóryrt pólitísk skeyti. Það er nú eitt af því sem við verðum að búa við. En þetta mál er þannig vaxið að það er alveg nauðsynlegt að fjmrh. geri Alþingi grein fyrir skoðunum ráðherrans, ráðuneytisins og þeirra faglegu aðila sem hann hefur fengið til umfjöllunar um málið á þeim athugasemdum og þeirri gagnrýni sem fram kemur við mat Ríkisendurskoðunar, sérstaklega vegna þess að ýmsir hv. þm., sérstaklega þeir sem báðu um skýrsluna, hafa kosið að nota niðurstöðurnar í fyrri skýrslunni sem algildan sannleika og tilefni til pólitískra árása.
    Það er líka nauðsynlegt að ræða þetta mál vegna þess að í okkar þjóðfélagi er mikil umræða uppi um nauðsyn þess að draga úr umsvifum ríkisins í atvinnulífinu. Þess vegna kaus ég m.a. að færa Þormóð ramma úr hendi fjmrh. og ráðuneytisins yfir til heimamanna, vegna þess að ég aðhyllist þá skoðun að atvinnulífið sé betur komið í höndum heimamanna sem til þekkja á vettvangi atvinnulífsins heldur en í ráðuneytunum. Sumir hafa hins vegar látið þá skoðun í ljósi að Þormóður rammi hafi áfram átt að vera rekinn úr stól fjmrh. Ég er ósammála þeirri skoðun.
    Ég vil þó segja í upphafi að ég tel að sú löggjöf, sem í gildi er í landinu um heimildir fjmrh. eða annarra ráðherra til þess að selja hlutabréf í eigu ríkisins, sé mjög ófullkomin. Satt að segja er hún þannig í dag að fjmrh. hefði fulla lagalega heimild til þess að selja hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma, eða öðrum hlutafélögum sem ríkið á hlutabréf í, með hverjum þeim hætti sem ráðherrann kýs, á hvaða verði sem hann kýs og með hvaða skilmálum sem hann kýs. Þess vegna hefði fjmrh. getað selt hlutabréfin í Þormóði ramma og þar með kvótann frá Siglufirði til útgerðarfélags í Reykjavík eða á Akureyri eða annars staðar á landinu og þar með lagt atvinnulífið á Siglufirði í rúst. Það var ekkert í gildandi lögum sem hindraði slíkt. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að Alþingi búi þannig um hnútana og löggjöfinni sé breytt á þann veg að slíkir möguleikar séu ekki fyrir hendi, að sala á hutabréfum og öðrum eignum ríkisins þurfi að fara um hendur lögggjafans. Þetta vil ég segja strax í upphafi míns máls til þess að ítreka það að á sama hátt og ég var fylgjandi því á sínum tíma að Ríkisendurskoðun væri flutt yfir til Alþingis, þá er ég einnig fylgjandi því að lögum um sölu á eignum ríkisins verði breytt á þann veg að taka upp fastari reglur og betri stjórnskipunaraðferðir við þær sölur en gilt hafa til þessa.
    Ég tel t.d. að sú víðtæka sala á hlutabréfum sem þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson efndi til --- án þess að spyrja Alþingi að nokkru, án þess að ræða það að nokkru við þingmenn og gat kosið hvert það verð í raun og veru sem honum bauðst til þess að selja þessar eignir --- hafi ekki verið réttur háttur þó Ríkisendurskoðun telji í sinni skýrslu, sem nýlega kom um söluna á Þormóði ramma, að sá háttur hafi verið til fyrirmyndar.
    Ég mun í ræðu minni, virðulegi forseti, rekja hér

sérstaklega faglegar athugasemdir við forsendur, reikningsaðferðir og framsetningu Ríkisendurskoðunar. Sú framsetning mun leiða það í ljós:
    Í fyrsta lagi að Ríkisendurskoðun ruglar saman grundvallarhugtökum í reikningsskilum og mati á slíkum eignum. Slíkur grundvallarhugtakaruglingur er auðvitað mjög alvarlegt mál. En ég mun gera nánari grein fyrir því síðar.
    Í öðru lagi að Ríkisendurskoðun valdi forsendur með þeim hætti að hún fékk bara út eina tölu þar sem annað val á forsendum sem að mörgu leyti hefði verið eðlilegra, t.d. það að miða við meðaltalsframlegð sl. þriggja ára en ekki bara eins árs hjá Þormóði ramma, hefði gjörbreytt niðurstöðunum á þann hátt að í stað þess að Ríkisendurskoðun hefði fengið útkomu yfir söluverðinu hefði útkoman verið undir söluverðinu. Og þingmenn geta velt því fyrir sér: Hefði verið eðlilegra að miða við framlegð sl. þriggja ára heldur en bara framlegð eins árs?
    Ég mun í þriðja lagi leiða það í ljós að þær arðsemiskröfur sem Ríkisendurskoðun gerir í þessu mati eru í engu samræmi við það sem fræðimenn erlendis og hérlendis telja rétt. Vil ég í því sambandi vekja athygli á nýlegri grein í tímaritinu Vísbendingu og þeirri arðsemi sem er á ríkistryggðum og fasteignaveðtryggðum skuldabréfum. Ef sú arðsemi sem þar er talin eðlileg hefði verið látin ráða í matinu og meðaltalsframlegð Þormóðs ramma sl. þrjú ár lögð til grundvallar, þá var verðmæti fyrirtækisins komið langt undir söluverðið.
    Virðulegi forseti. Þegar þingmenn kjósa í pólitísku stríði sínu við ráðherra að biðja Ríkisendurskoðun um að leggja faglegt og fræðilegt mat á ákveðna sölu, þá er mjög mikilvægt að það faglega og fræðilega mat standist, eins og ég hef áður sagt, þær ýtrustu og afdráttarlausustu kröfur sem fagmenn og fræðimenn á þessu sviði gera. Ég vil einnig minna á að hér er verið að selja hlutabréf og ég vil spyrja: Hvor er æðri dómari við slíka sölu á markaðsbréfum, markaðurinn eða ríkisstofnunin? Samkvæmt öllum almennum mælikvörðum er það markaðurinn sem er æðsti dómarinn á verðgildi slíkrar markaðssölu. Það var þess vegna sem fjmrh. ákvað í sumar að biðja framkvæmdastjóra eins virtasta markaðsfyrirtækis á landinu, Sigurð B. Stefánsson, framkvæmdastjóra verðbréfaþings Íslandsbanka, að meta hlutabréfin í Þormóði ramma, hvort þau væru tæk á verðbréfamarkað Íslandsbanka. Svarið í því mati var afdráttarlaust og skýrt: Hlutabréfin væru það lítils virði að verðbréfamarkaður Íslandsbanka, að áliti Sigurðar B. Stefánssonar, mundi ekki taka þau á markaðinn.
    Ríkisendurskoðun sendi fjmrn. bréf fyrir nokkru síðan, milli þess sem fyrri skýrslan og seinni skýrslan var gerð, og óskaði eftir því að fjmrh. tilgreindi hver hefði látið þetta markaðsmat í té. Það var gert. Fjmrn. sendi Ríkisendurskoðun bréf þar sem tilgreint var að Sigurður B. Stefánsson --- og ég veit að ég þarf ekki að lýsa fyrir þingmönnum þeirri stöðu sem hann hefur og hvers álits hann nýtur á íslenskum verðbréfamarkaði --- hefði látið þetta mat í té og það

sem meira væri, hann væri reiðubúinn að ræða við Ríkisendurskoðun um matið og gera Ríkisendurskoðun grein fyrir matinu.
    Í seinni skýrslu sinni víkur Ríkisendurskoðun að þessu með þeim hætti að gera lítið úr þessu svari fjmrh. en dregur fjöður yfir þá staðreynd að Ríkisendurskoðun óskaði aldrei eftir þessum viðræðum við Sigurð B. Stefánsson. Hún óskaði aldrei eftir því að kynna sér þetta mat og fá fram þau gögn í málinu.
    Fjmrn. fékk óháðan sérfræðing, Ólaf Nilsson, til þess að vera faglegur ráðgjafi fjmrn. við þessa sölu og það var það verðmæti sem Ólafur Nilsson, löggiltur endurskoðandi, lagði á hlutabréfin í Þormóði ramma og lagði á eignir þeirra tveggja fyrirtækja sem runnu saman í Þormóð ramma sem lagt var til grundvallar. Hver er Ólafur Nilsson? Hann rekur eitt öflugasta endurskoðendafyrirtæki á Íslandi og hann var skattrannsóknarstjóri íslenska ríkisins 1967 -- 1976, byggði upp embætti skattrannsóknarstjóra við góðan orðstír. Ég vil aðeins segja um það, en kem nánar að því síðar, að menn einfaldlega yppa ekki öxlum yfir faglegu mati sem maður eins og Ólafur Nilsson leggur formlega fram í sérstakri skýrslu miðað við þá hæfni sem hann hefur, miðað við starfsferil hans og það álit sem hann nýtur í röðum endurskoðenda í landinu.
    Ríkisendurskoðun hefur hvorki svarað mjög ítarlega þeim athugasemdum sem Ólafur Nilsson hefur sett fram né heldur hefur hún kosið að ræða við Sigurð B. Stefánsson um hans mat. Í máli af þessu tagi er þó nauðsynlegt að hafa þau vinnubrögð að menn leiti af sér allan grun og ræði við alla þá faglegu aðila sem að málinu koma.
    Virðulegi forseti. Þetta voru nokkur almenn atriði sem ég vildi nefna hér í upphafi til þess að gera Alþingi grein fyrir því hvers vegna ég kýs að óska eftir þessari umræðu hér. Ég vil áður en ég kem nánar að skýrslum Ríkisendurskoðunar gera aðeins grein fyrir sögu Þormóðs ramma og meðferð sölunnar svo að allir þeir þættir málsins komi hér fram.
    Siglufjörður hefur löngum átt við mikla erfiðleika að etja í atvinnulífi og það þarf ekki að rekja þá erfiðleika hér. Þegar síldin hvarf þá brást ein meginforsendan undir blómlegu atvinnulífi Siglufjarðar. Síðan hefur það verið erfitt viðfangsefni í rúma tvo áratugi að tryggja atvinnulíf á Siglufirði. Fjölmargar ríkisstjórnir, fjölmargir ráðherrar og þingmenn hafa komið að því verki og fyrir tæpum 20 árum síðan var ákveðið að fara þá leið að ríkið gerðist umsvifamikill aðili í atvinnurekstri á Siglufirði. Fyrirtækið Þormóður rammi var stofnað, Síldarverksmiðjur ríkisins voru tengdar inn í það fyrirtæki og í upphafi var ætlunin að um blandaða eignaraðild væri að ræða. Því miður hefur rekstur þessa fyrirtækis í gegnum tíðina verið slíkum erfiðleikum háður að fyrir rúmu ári síðan var svo komið að ríkið hafði eignast 98% í Þormóði ramma. Fyrirtæki sem upphaflega átti að vera í blandaðri eignaraðild heimamanna og ríkisins var vegna margháttaðra erfiðleika og skuldasöfnunar í rekstri orðið nær 100% ríkisfyrirtæki. Það var líka ljóst að ef tryggja átti áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins varð að grípa til sérstakra aðgerða og Alþingi veitti fyrir rúmu ári síðan heimild til þess að settir væru sérstakir fjármunir inn í fyrirtækið til að tryggja áframhaldandi rekstur þess.
    Þormóður rammi var því á árinu 1988 mjög illa á sig kominn. Fyrirtækið var orðið mjög skuldugt. Gengisþróun hafði reynst því mjög óhagstæð. Þróun í sjávarútvegi hafði einnig reynst því mjög óhagstæð og það blasti við ef ekkert væri að gert að rekstur fyrirtækisins mundi stöðvast. Þess vegna var nýtt heimild í ársbyrjun 1990 til að skuldbreyta stórum hluta þeirra skulda fyrirtækisins við ríkissjóð, um það bil 380 millj. kr. Erfiðleikar fyrirtækisins voru líka sérstakir vegna þess að togarar þess voru orðnir mjög gamlir og á næstu árum var ljóst að ef rekstur fyrirtækisins átti að vera tryggður yrði að endurnýja skipastól fyrirtækisins með einum eða öðrum hætti.
    Stjórn fyrirtækisins fór á fyrri hluta árs 1990 vandlega yfir stöðu fyrirtækisins og gerði fjmrh. grein fyrir því að vandi fyrirtækisins væri mikill í framtíðinni og nauðsynlegt væri að huga sérstaklega að því hvernig ætti að tryggja rekstur fyrirtækisins á Siglufirði, m.a. vegna þess að það væri lykilaðili í atvinnulífinu á staðnum.
    Leiðir sjávarútvegsfyrirtækja til að auka eigið fé eru ekki mjög margar og við vitum að sjávarútvegurinn á Íslandi hefur á undanförnum árum í heild sinni verið of skuldsettur og þess vegna mikið vandamál að taka á því. Hafa stjórnvöld á undanförnum tveimur til þremur árum gripið til margvíslegra aðgerða í þeim efnum.
    Það var í kjölfarið á þessari umfjöllun stjórnar fyrirtækisins sem Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri verðbréfaþings Íslandsbanka, var beðinn að meta verðmæti eignar ríkisins í þessu fyrirtæki eftir þeim sömu mælikvörðum og verðmæti þekktra útgerðarfyrirtækja, sem hér eru á hlutabréfamarkaði, eins og Granda, eins og Útgerðarfélags Akureyringa, eins og Skagstrendings og ýmissa annarra útgerðarfyrirtækja á almennum markaði, eru metin. Könnun hans leiddi í ljós, eins og ég hef áður greint, að það var hans álit að fyrirtækið væri ekki tækt á verðbréfamarkað, rekstur fyrirtækisins mundi ekki standa undir skuldum, það væri ekki gjaldgengt og hlutabréfin af þeim sökum verðlaus á markaðnum. Til þess að fyrirtækið yrði tækt á almennan hlutafjármarkað yrði að minnka skuldir og auka eigið fé.
    Í framhaldi af þessu mati átti ég fund 4. sept. á Siglufirði með bæjarstjórn Siglufjarðar. Á þeim fundi var einnig formaður verkalýðsfélagsins. Á þessum fundi var farið yfir stöðu Þormóðs ramma. Það var bent á hve erfiðlega hefði á undanförnum árum gengið að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækisins, að ólíklegt væri að Alþingi væri reiðubúið á ný að dæla hundruðum milljóna kr. af almannafé inn í fyrirtækið og þar að auki væri löggjöfin í landinu með þeim hætti að fjmrh., hver svo sem hann væri, gæti kosið að selja hlutabréfin á almennum markaði og þar með talið kvótann burt úr bænum og leggja atvinnulíf Siglufjarðar í rúst. Á þessum fundi var ákveðið að

það yrði kannað á næstu vikum og mánuðum hvort grundvöllur væri fyrir því að breyta eignarhaldi í fyrirtækinu í því skyni að treysta undirstöður atvinnulífsins á Siglufirði.
    Þann 17. nóv. átti ég annan fund með bæjarstjórn Siglufjarðar og á þeim fundi kom fram skýr vilji allra þeirra bæjarfulltrúa sem tjáðu sig um málið, sem voru bæjarfulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, að nauðsynlegt væri að kanna breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins en þó þannig að það væri algjörlega bundið við fyrirtæki og einstaklinga á Siglufirði hverjir gætu orðið eigendur að hlutabréfunum í fyrirtækinu. Þar með yrði tryggt að fyrirtækið færi ekki burt úr bænum og komið á þeirri skipan líkt og í flestum öðrum bæjarfélögum að atvinnulífið væri í höndum heimamanna. Það er rétt að vekja athygli þingheims á því að í kjölfarið á þessum fundi, sameiginlegum fundi fjmrh. og bæjarstjórnar á Siglufirði, var gefin út sameiginleg fréttatilkynning bæjarstjórnar og fjmrh. á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Fjármálaráðherra átti í dag fund með bæjarstjórn Siglufjarðar. Fundinn sátu einnig aðstoðarmaður ráðherra og stjórnarformaður Þormóðs ramma. Fjmrh. kynnti hugmyndir um að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum á Siglufirði að kaupa hlutabréf ríkissjóðs í Þormóði ramma að einhverju eða öllu leyti. Grundvöllur slíkra viðræðna um eignarform fyrirtækisins væri að tryggja framtíð atvinnulífs á Siglufirði.
    Á fundinum fóru fram ítarlegar og gagnlegar umræður um þessar hugmyndir. Stjórnarformaður Þormóðs ramma hf. og aðstoðarmaður fjmrh. munu á næstu vikum annast viðræður við fyrirtæki og einstaklinga á Siglufirði um þessi mál.``
    Tveimur dögum síðar eða 19. nóv. setti ég fram þá ósk við 1. þm. kjördæmisins, hv. þm. Pál Pétursson, að ég vildi þá strax fá fund með þingmönnum kjördæmisins til að kynna þeim þessi áform. Á fyrsta virka degi eftir þennan sameiginlega fund bæjarstjórnar og fjmrh. var sett fram formleg ósk við 1. þm. kjördæmisins. Ég harma það að hann kom því ekki í verk að efna til þess fundar þegar eftir honum var óskað og kom því reyndar ekki í verk að efna til þess fundar fyrr en í byrjun desember þegar ég hafði beðið í hálfan mánuð eftir þessum fundi. Þá loksins þegar aðstoðarmaður fjmrh. hafði gengið á fund 1. þm. kjördæmisins til þess að gera honum grein fyrir þróun mála og ítreka enn á ný óskina um það að eiga fund með þingmönnum kjördæmisins um málið.
    Það er sérkennilegt að þessi ágæti þingmaður, sem hefur haft mjög stór orð um verk fjmrh. í þessu máli, hefur kosið að þegja algjörlega um það að hann dró það í hálfan mánuð að verða við ósk fjmrh. um að hann gæti rætt við alla þingmenn kjördæmisins um málið og það var þá fyrst þegar aðstoðarmaður minn hafði enn á ný ítrekað þessa beiðni sem af slíkum fundi varð.
    Það var þess vegna alveg ljóst að það var eindregin ætlun mín að láta þingmenn kjördæmisins fylgjast með þessu máli frá upphafi eins og ég lét bæjarstjórn Siglufjarðar fylgjast með þessu máli frá upphafi. Og

ég bið menn að bera þau vinnubrögð saman við þau vinnubrögð þegar hæstv. þáv. fjmrh., Albert Guðmundsson, bauð til sölu fjölmörg hlutabréf ríkisins, m.a. í Þormóði ramma, án þess að ræða við bæjarstjórnina nokkru sinni, án þess að ræða við þingmenn kjördæmisins nokkru sinni. En það er auðvitað lykilatriði þegar ráðherra óskar eftir því að eiga fund með þingmönnum kjördæmisins að fyrsti þingmaðurinn, sem ber ábyrgð á því að kalla fund saman, komi því í verk að hann sé haldinn, sérstaklega þegar sá hinn sami þingmaður kýs svo að hafa stór orð um meðferð málsins að því loknu.
    Hinn 19. nóvember komu forsvarsmenn Drafnars og Egilssíldar til stjórnarformanns fyrirtækisins Þormóðs ramma og kynntu hugmynd sína um að kaupa allan hlut ríkisins á tilteknu verði. Þeim var síðan í vikunni á eftir tilkynnt að fjmrh. hefði tekið ákvörðun um að selja ekki allan hlut ríkisins, m.a. vegna þess að af hálfu heimamanna var það talið mikilvægt að ríkið væri áfram minnihlutaaðili í fyrirtækinu til þess að vera ákveðin trygging þegar fyrirtækið væri að færast alfarið frá ríkinu yfir í hendur heimamanna. Þann 4. desember tókst loks að koma á þeim fundi sem ég hafði óskað eftir 19. nóvember með þingmönnum kjördæmisins. Þar gerði ég þeim almenna grein fyrir málinu og jafnframt þeim sjónarmiðum mínum að það væri lykilatriði að það væru eingöngu Siglfirðingar sem hefðu aðgang að þessum kaupum. Á fundinum komu fram hugmyndir, m.a. frá þingmönnum, um að nauðsynlegt væri að þáttur í sölunni gæti verið almennt hlutafjárútboð þannig að þeir á Siglufirði sem vildu gætu gerst eigendur í fyrirtækinu. Jafnframt var rætt um nauðsyn þess að tryggja kannski í leiðinni hagræðingu í sjávarútvegi á Siglufirði til þess að tryggja rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna í bænum.
    Næstu daga voru síðan haldnir fundir með forráðamönnum Drafnars og Egilssíldar. Tóku þátt í þeim fundum auk formanns stjórnar fyrirtækisins Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri, Hallgrímur Þorsteinsson endurskoðandi og Jóhann Antonsson, fulltrúi fjmrh. í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, sem á sínum tíma hafði haft kunnáttu á mati Atvinnutryggingarsjóðs á Þormóði ramma og ég mun koma að nánar á eftir. 8. des. átti ráðuneytisstjóri fjmrn. einnig fund með Ólafi Nilssyni til þess að fara rækilega yfir þær hugmyndir sem forráðamenn Drafnars og Egilssíldar höfðu sett fram og Ólafur Nilsson var beðinn um sérstaka skýrslu um málið. 11. des. skilar Ólafur Nilsson greinargerð þar sem hann metur verðmæti Þormóðs ramma og þau tvö fyrirtæki sem höfðu lagt fram tilboð og kynnt hugmyndir um sameiningu þessara þriggja fyrirtækja. 12. des. var gengið frá sérstöku minnisblaði til að kynna þingmönnum á fundi sem haldinn var 14. des. Þetta minnisblað var formlega lagt fram á fundinum 14. des. með þingmönnum kjördæmisins og þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. hefur nú ákveðið að ganga til viðræðna um sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma. Í væntanlegum viðræðum verður miðað við:

    1. Kaupendur gefi bindandi yfirlýsingu um að þeim sé óheimilt að stuðla að því með sölu á skipum eða kvóta að minni afli verði verkaður hjá Þormóði ramma hf. heldur en á undanförnum árum.
    2. Að farið verði blönduð leið, sem saman stendur af sölu hlutabréfa ríkissjóðs, almennu hlutafjárútboði og sameiningu fyrirtækja, sem leiði til aukinnar hagræðingar. Niðurstaðan verði dreifð eignaraðild að fyrirtækinu.``
    Í þessari greinargerð kom einnig fram að leitað hefði verið eftir sérfræðilegu mati hjá Hallgrími Þorsteinssyni, hjá Endurskoðunarmiðstöðinni N. Manscher, og hjá Ólafi Nilssyni. Í þessu minnisblaði kom einnig fram að gengið yrði til viðræðna við Drafnar og Egilssíld þar sem markmiðið væri að ríkissjóður seldi meiri hluta hlutabréfa sinna, að fyrirtækin þrjú yrðu sameinuð og eitt fyrirtæki, Þormóður rammi, stæði eftir og að lokinni sameiningunni yrði boðið út nýtt hlutafé sem allir einstaklingar og fyrirtæki á Siglufirði hefðu aðgang að að kaupa.
    Það er athyglisvert að á þessum fundi þingmannanna kom ekki fram ein einasta athugasemd við þessa verklýsingu. Á fundinum 14. des. var þingmönnum kjördæmisins kynnt það að hafnar væru formlegar viðræður við Drafnar og Egilssíld um þessa sölu á grundvelli þessara skilmála og enginn þingmanna kjördæmisins gerði athugasemdir við að í þær viðræður væri farið. (Gripið fram í.) Þetta er ekki ósannindablaður, hv. þm. Pálmi Jónsson, heldur eru þetta staðreyndir málsins. Það getur vel verið að ýmsum þingmönnum kjördæmisins finnist erfitt að hlusta á staðreyndir málsins raktar hér vegna þess að þingmenn kjördæmisins höfðu heilan mánuð frá því að fyrst var óskað eftir fundi til að ræða við þá um málið til þess að koma að því þar til salan var gerð. Og hefðu þingmenn kjördæmisins undir forustu Páls Péturssonar verið sérstakir áhugamenn um að koma að málinu þá hefðu þeir ekki látið það dragast með þessum hætti.
    Síðar þennan sama dag, 14. des., barst í ráðuneytið boð um viðræður í nafni bókhaldsskrifstofu Axels Axelssonar. Þótt formlega væru hafnar viðræður við aðra aðila var engu að síður ákveðið að efna til viðræðna við bókhaldsskrifstofu Axels Axelssonar til þess að kanna rækilega hvað þeir hefðu fram að færa. Þeim var gefinn kostur á því, þrátt fyrir það að viðræður væru hafnar við annan aðila, að koma með tilboð. Því miður var það þannig að á bak við þær tölur sem þeir komu með voru meira góð áform heldur en fjármálalegar tryggingar eða föst framlög inn í reksturinn. Satt að segja var haldið áfram dagana á eftir að láta á það reyna hvort þessi nýi aðili gæti reitt fram frekari hugmyndir um fjármögnun á kaupunum, tryggingarverð og annað. Því miður varð það ekki þannig. Það var því ljóst að það tilboð sem Drafnar og Egilssíld settu fram fólu í sér betri tryggingar, hærri upphæðir og öruggari viðskipti fyrir ríkissjóð heldur en hitt tilboðið.
    Í sjálfu sér ætla ég ekki hér að gera að umtalsefni samninginn sjálfan. Hann liggur fyrir í þeim gögnum sem þingmenn hafa undir höndum. Það er ljóst að um

ákveðna greiðslu í upphafi var strax að ræða. Það er ljóst að dótturfyrirtæki Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna gengst í ábyrgð fyrir verulegan hluta eftirstöðvanna og það er líka ljóst að eigendur Drafnars og Egilssíldar voru að leggja vel stæð fyrirtæki sín inn í nýtt fyrirtæki með Þormóði ramma, sem um áraraðir hafði verið erfitt í rekstri og safnað miklum skuldum. Og það er athyglisvert, sem sumir hafa sagt, að í raun og veru væri merkilegt að eigendur Drafnars og Egilssíldar, þessara einkafyrirtækja, væru reiðubúnir að taka áhættu sem í því felst að leggja fyrirtæki með langa sögu og trausta rekstrarstöðu inn í þennan áhætturekstur. Og það er sérstaklega merkilegt þegar ýmsir talsmenn einkaframtaksins hér í salnum eru að gagnrýna slíkt.
    Hv. þm. Páll Pétursson hefur sérstaklega fundið það út af Derrick-hæfni sinni að þeir sem hafi keypt þetta fyrirtæki, eigendur Egilssíldar og Drafnars, séu flokksmenn mínir og ég hafi verið að selja pólitískum gæðingum mínum, og gott ef hann nefndi ekki einhvers staðar einhverjum Birtingarmönnum, þetta fyrirtæki. Því miður er það þannig að engir af eigendum Drafnars og Egilssíldar eru flokksbundnir alþýðubandalagsmenn og hef ég þó skoðað flokksskrána nokkuð mörg ár aftur í tímann. Ég veit ekki hvers konar pólitísk rannsókn hefur farið fram á Siglufirði en mér er sagt af kunnugum að obbinn af þeim sem fyrirtækið keyptu séu góðir og gegnir sjálfstæðismenn og kratar í bænum. Enginn þeirra hefur verið í forustusveit Alþb. á Siglufirði, ekki nokkur. Það er að vísu rétt að tveir eða þrír úr þessum hópi áttu aðild að blönduðum lista sem Alþb. studdi í bæjarstjórnarkosningum á Siglufirði sl. vor. Það voru ýmsir sem stóðu að þeim lista, alþýðuflokksmenn, óflokksbundnir menn, eins og gerist í bæjarstjórnarkosningum fram og aftur um landið, vítt og breitt. En að fara að búa til úr því þá sagnfræði að ég hafi verið að selja flokksgæðingum mínum Þormóð ramma á Siglufirði er bara fullkomlega út í hött, hv. þm. Páll Pétursson. Og vondur er nú málstaðurinn ef þarf að grípa til þessara raka. Þá er orðið fátt um góð rök í búinu á Höllustöðum þegar rógurinn úr Húnavatnssýslu er það eina sem menn hafa fram að færa.
    Staðreyndin er sú að þeir tveir höfðingsmenn sem hafa byggt upp þessi fyrirtæki, Drafnar og Egilssíld, voru mér svo ókunnir að ég þekkti þá ekki í sjón þegar ég hitti þá sama daginn og undir samninginn var skrifað og hafði aldrei hitt þá fyrr á ævinni. Þess vegna skulið þið nú bara gleyma þessum kafla í málinu sem eru dylgjur hv. þm. Páls Péturssonar um að það hafi verið einhver flokkspólitísk sjónarmið í þessari sölu. Málið er satt að segja af allt öðru tagi en að það eigi að fara að draga það inn á það plan.
    Þegar ákveðið hafði verið að selja meiri hluta hlutabréfanna með þeim hætti sem ég hef lýst, þá óskuðu fjórir þingmenn eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að þingmenn óski eftir slíkum skýrslum. En hitt er ljóst að Ríkisendurskoðun er sérstakur vandi á höndum þegar þeir þingmenn sem óskað hafa eftir skýrslunni hafa

dæmt málið fyrir fram. Því það var auðvitað alveg ljóst að hv. þm. Pálmi Jónsson og Páll Pétursson voru búnir að dæma málið fyrir fram í fjölmiðlum. Þeir voru búnir að komast að þeirri niðurstöðu að fjmrh. hefði gefið fyrirtækið. Og Ríkisendurskoðun var þess vegna sett í þá stöðu að annaðhvort úrskurðaði hún þannig að þingmennirnir tveir gætu sagt: Við höfum lög að mæla, eða hún úrskurðaði þannig að það sem þingmennirnir höfðu sagt væri ekki rétt.
    Hvað gerir Ríkisendurskoðun í sinni skýrslu? Hún skilar einni tölu. Hún segir: Þormóður rammi er virði 250 -- 300 millj. kr., klippt og skorið, ákveðið ein tala. Ekkert annað mat kemur til greina, engin önnur röð af forsendum, engar aðrar flækjur, engin markaðsviðmiðun, engin greinargerð fyrir því að ef þessi forsenda er valin þá er niðurstaðan svona og ef önnur forsenda er valin þá er niðurstaðan hinsegin. Ef valin er 15% arðsemi er allt önnur niðurstaða. Ef valin er 12% arðsemi er allt önnur niðurstaða. Nei, það er bara valin 10% arðsemi. Er rökstutt af hverju er valin 10% arðsemi? Nei. Síðan er valin framlegðin 14,2 úr meðaltalsskýrslu Þjóðhagsstofnunar. Er gefin framlegð sl. þriggja ára hjá þessu fyrirtæki sem verið er að selja? Nei. Það var ekki verið að selja eitthvert meðalfyrirtæki. Það var verið að selja tiltekið fyrirtæki, Þormóð ramma. Og það liggur alveg fyrir hver var meðalframlegð þess fyrirtækis sl. þrjú ár. Og bara 1% breyting á framlegðinni með allar aðrar tölur Ríkisendurskoðunar eins gerir það að verkum að fyrirtækið var metið í sölunni á hærra virði en síkt mat hefði leitt af sér. Hvað þá heldur ef arðsemistölunni er svo breytt líka. Ef arðsemistölunni er breytt miðað við það sem margir sérfræðingar telja, og ég mun koma að hér á eftir, var fyrirtækið við söluna selt á margfeldi af því sem er raunvirði fyrirtækisins. Eða með öðrum orðum, það eru skýr efnisleg og fagleg rök fyrir því að Þormóður rammi hafi í reynd verið seldur á yfirverði miðað við eðlilegar forsendur í matinu, bæði framlegðarforsendur og arðsemisforsendur.
    Ég hef óskað eftir því, virðulegur forseti, að hér sé dreift á borð þingmanna kafla úr ræðu minni. ( Forseti: Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að ræðupartinum verður dreift þegar hæstv. ráðherra hefur lokið máli sínu.) Ég þakka fyrir það. Ég hefði að vísu kosið að hv. þm. gætu betur fylgt mér og tölunum með því að hafa textann fyrir framan sig, sérstaklega vegna þess að í þessari dreifingu fylgir með sérblað þar sem mismuninum á þessum þáttum er lýst mjög greinilega. Þar fylgir einnig ljósrit úr tímaritinu Vísbendingu þar sem arðsemi hlutafélaga af þessu tagi er metin. En látum það vera þó því sé dreift á eftir.
    Ég mun nú fara nokkuð í gegnum þessar tölulegu forsendur og þetta mat Ríkisendurskoðunar. Eins og ég gat um áðan þá leggur Ríkisendurskoðun það mat á fyrirtækið, klippt og skorið, að verðmæti þess sé á bilinu 250 -- 300 millj. kr. Mat á hlutabréfum í félögum sem ætlað er að starfa áfram er mjög flókið atriði, sérstaklega þegar fyrirtækin hyggjast auka hlutafé sitt með þátttöku almennings.
Slíkt mat er afar sérhæft verkefni og hefur sérþekking til slíkra viðfangsefna verið að myndast hér á landi á allra síðustu árum, sérstaklega með tilkomu hlutabréfamarkaða. Það er ósköp eðlilegt að varpað sé fram þeirri spurningu: Var Ríkisendurskoðun þannig mönnuð, vegna þess að henni var í upphafi og er samkvæmt lögum ætlað allt annað hlutverk, að innan hennar vébanda séu starfsmenn með faglega hæfni til þess að annast þetta sérhæfða mat? Ég varpa fram þeirri spurningu því það er nauðsynlegt að forsetar þingsins og þingið gangi úr skugga um það þegar stofnunin tekur að sér verkefni af þessu tagi.
    Margar viðurkenndar aðferðir eru til við mat á hlutabréfum félaga í áframhaldandi rekstri. Flestar þessara aðferða fela í sér fræðilega umfjöllun þess hvernig nálgast má líklegt söluverð hlutabréfa. Það er þess vegna mikill misskilningur sem Ríkisendurskoðun gefur til kynna í sinni skýrslu að það sé í raun og veru bara ein og klár aðferð sem skilar afdráttarlausri tölu sem kemur til greina við slíkt mat.
    Flestar aðferðirnar byggja á því að vega saman nokkra þætti í rekstri og fjárhagsstöðu fyrirtækja, bæði vegna liðins tíma og áætlunar um framtíð. Þetta samspil liðins tíma og framtíðar er mjög flókið atriði í slíku mati en aðferðirnar sem beitt er eru þekktar víða um lönd og hafa einnig verið notaðar hér á landi. Þær leiða oft til mismunandi niðurstöðu og ekki er fræðilega hægt að halda því fram að ein niðurstaðan sé rétt en aðrar rangar vegna þess að aðferðirnar, sem allar eru fræðilega jafngildar, eru mismunandi. Það er auðvitað mjög vafasamt fyrir Ríkisendurskoðun að dylja þessa fræðilegu óvissu og þennan flókna, faglega veruleika í sinni skýrslu með því að nánast á einni blaðsíðu er bara náð fram einni tölu og látið eins og ekkert annað komi til álita. Fyrir svo utan það að kjarni allra slíkra viðskipta með hlutabréf er auðvitað sá að það mat sem reynist næst því verði sem kaupandi og seljandi semja um sín á milli er auðvitað það mat sem næst er raunveruleikanum.
    Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að verðmætin séu 300 millj. kr. Ef enginn á Siglufirði hefði verið reiðubúinn til þess að gefa 300 millj. kr. fyrir fyrirtækið, eða með öðrum orðum að markaðurinn mat það ekki á 300 millj., ætlar Alþingi að hafa þá afstöðu að 300 millj. kr. sé hið rétta mat en markaðurinn hafi rangt fyrir sér og þar af leiðandi eigi fyrirtækið að vera áfram í eign ríkisins vegna þess að embættismennirnir hjá Ríkisendurskoðun hafi réttara mat á markaðsgildi hlutabréfanna en markaðurinn sjálfur? Hvert eru menn þá komnir í afstöðu sinni ef viðhorfin eru byggð upp með þeim hætti?
    Mat Ríkisendurskoðunar er að áliti þeirra sérfræðinga sem við höfum leitað til allt of einhæft og bundið við ótraustar forsendur til þess að geta talist faglega unnið. Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að það eru stór orð. En ég mun leitast við að rökstyðja þau nánar hér á eftir og bið forseta og þingheim forláts ef það tekur nokkurn tíma. En það er nauðsynlegt vegna þess að málið er mikilvægt og þetta er í fyrsta sinn sem slíkt kemur til umfjöllunar hér á Alþingi.

    Í upphafi er gert grein fyrir helstu eignum félagsins í skýrslunni sem taldar eru vera þrír togarar með aflakvóta 3050 þorskígildi, frystihús, áhöld, tæki og fleira. Síðan eru eignirnar metnar á markaðsverði. Aflakvóti skipanna er metinn á 609 millj. kr. Skipin eru metin á 157 millj. kr., markaðsverð frystihúsa og annarra eigna er áætlað 200 millj. kr. Nettóvirði eigna er talið 575 millj. kr. Þá er þess getið að félagið eigi ónýttan skattalegan tapfrádrátt að fjárhæð 1106,2 millj. kr. miðað við árslok 1989. Sumir telja eflaust að unnt hefði verið að selja hið skattalega tap félagsins sem safnast hefur upp á mörgum árum vegna stöðugs tapreksturs. Það hefði hins vegar jafnast að verulegu leyti með miklum söluhagnaði eigna ef eignirnar hefðu verið seldar á því verði sem hér hefur verið áætlað af Ríkisendurskoðun. Menn geta ekki gert hvort tveggja, haldið því fram að hægt hefði verið að selja tapið og ætla sér að meta eignirnar með þessum hætti, en í það er látið skína í skýrslunni til þess að gefa til kynna með óljósum og almennum hætti að þarna hafi verið tapfrádráttur sem hefði mátt selja vegna skattaástæðna, þarna væri frystihús, þarna væru skip og þarna væri kvóti. Það vekur hins vegar þá spurningu hver er tilgangurinn með þessu mati því það hefur bókstaflega ekkert með söluverð fyrirtækisins að gera.
    Í seinni skýrslunni svarar Ríkisendurskoðun því að þetta hafi verið gert til fróðleiks. Það vantar bara að segja að þetta hafi verið gert til gamans. En það er auðvitað gert til þess að varpa fram í umræðunni tölum sem ýmsir grípa í fljótræði, eins og hv. þm. Pálmi Jónsson þegar hann í sjónvarpsviðtali gerði allt úr því hvað kvótinn væri mikils virði og þarna hefði verið eign sem hefði verið hægt að selja, þó allir viti að skilyrðið var að fyrirtækið væri áfram á Siglufirði. Og ef kvótinn hefði verið seldur burt frá Siglufirði væru skipin verðlaus, frystihúsið verðlaust því hver kaupir 20 ára gamla togara sem hafa engan kvóta og hver kaupir frystihús sem ekki hefur neinn kvóta eða nein skip? Það er auðvitað ekki hægt að reikna allt upp í topp, skipin, frystihúsið, kvótann og tapfrádráttinn í sköttunum. Þetta vekur auðvitað upp spurningar. Hvers vegna er í skýrslu Ríkisendurskoðunar verið að leiða slíkt fram? Hver er tilgangurinn? Og þegar fjmrn. gerir athugasemdir við það í bréfi til forseta þingsins, þá kemur svarið: Það er gert til fróðleiks.
    Sú matsaðferð sem Ríkisendurskoðun miðar niðurstöður sínar við er í skýrslunni nefnd tekjuvirðismat. Og hefst frásögnin á því að segja: ,,Við mat á tekjuvirði þarf að gefa sér ýmsar forsendur um reksturinn í framtíðinni.`` Hins vegar er engin umræða í skýrslunni um það hvort það eigi frekar að gefa sér þessar forsendur eða hinar forsendurnar, engin umræða í skýrslunni um hvaða forsendur koma til greina og hvers vegna Ríkisendurskoðun velur svo þær sem hún á endanum valdi og eru grundvöllur þess að fá út 300 millj. kr., sérstaklega þegar bara 1% munur í forsendum gerir gæfumuninn. Ekkert slíkt. Heldur er dæmið sett upp á tæpri síðu, heildartekjur 1 milljarður 20 millj. kr., framlegð 14,2%, meðaltal 145 millj. kr., afskriftir 62 millj. kr., vextir langtímalána 44 millj. kr.,

vextir afurðalána 9 millj. kr., nettóframlegð 30 millj. kr. Miðað við að fyrirtækið væri selt fyrir 300 millj. kr. gæfi það eigendum samkvæmt framansögðu 10% arð af söluverðmæti. Ekki orð meir um þær faglegu forsendur sem liggja þarna á bak við. En við skulum aðeins fara yfir þær. Þær eru kjarni málsins. Þær varpa skýru ljósi á það hvernig hér er unnið.
    Ríkisendurskoðun gerir ráð fyrir því að hagnaður verði á fyrirtækinu um alla ókomna framtíð. Ríkisendurskoðun gefur sér það að áhættan við að standa í því að reka útgerðarfyrirtækið Þormóð ramma og fiskverkunarfyrirtækið Þormóð ramma sé ekki meiri en svo að ekki sé ástæða til að reikna með hærri arðsemiskröfu en 10% eða, og ég bið hv. þm. að athuga þetta vel, eða lægri ávöxtun en unnt er að fá með kaupum á fasteignatryggðum skuldabréfum. Og ég spyr: Hvaða heilvita manni í sjávarútvegi á Íslandi dettur í hug að reikna með lægri ávöxtun í áhættusömum sjávarútvegsfyrirtækjum en hægt er að fá með því að kaupa fasteignatryggð skuldabréf á almennum markaði?
    Það eru fleiri þættir sem orka tvímælis í þessari framsetningu. Við skulum víkja aðeins að framlegðinni. Framlegðin er í þessu sambandi í skýrslu Ríkisendurskoðunar sú fjárhæð sem slíkur rekstur skilar til afskrifta af rekstrarfjármunum og til vaxta af fjármagni. Það eru heildartekjur að frádregnum öllum rekstrargjöldum öðrum en afskriftum og vöxtum. Ríkisendurskoðun hefur áætlað framlegðarhlutfallið um 14,2% af heildartekjum og segir: ,,Við ákvörðun á því hvað leggja skyldi til grundvallar mati á framlegð var litið til reynslu fyrirtækisins á undanförnum árum, áætlaðrar rekstrarniðurstöðu á árinu 1990 auk þess sem tekið var tillit til þeirra breytinga á rekstri fyrirtækisins sem fyrirsjáanlegar eru, svo og á almennum rekstrarskilyrðum fyrirtækis í þessari atvinnugrein.`` Þetta er rökstuðningurinn, eini rökstuðningurinn í skýrslunni. Og hann er því miður ekki byggður á traustum grunni. Reynsla Þormóðs ramma er sú að á síðustu fjórum árum hefur það aðeins einu sinni náð þeirri framlegð sem reiknað er með hjá Ríkisendurskoðun og það var á árinu 1986. Meðaltal síðustu þriggja ára var 12,6%. Áætlun um rekstrarniðurstöðu ársins 1990 liggur ekki fyrir. Hins vegar er ljóst að fiskverð hefur hækkað meira á erlendum mörkuðum á síðasta ári en dæmi eru til um um áraraðir eins og hv. þm. er kunnugt. Ljóst er að slík verðhækkun getur varla haldið áfram og því óvarlegt að reikna með ástandinu 1990 sem dæmigerðu um alla framtíð. En það er það sem Ríkisendurskoðun gerir í sinni skýrslu.
    Framlegðin í þessu eina dæmi, sem Ríkisendurskoðun byggir mat sitt á, ræður úrslitum, eins og ég hef sagt, um niðurstöðu matsins. Matið yrði 140 millj. kr. en ekki 300 millj. kr. að verðmæti eftir nákvæmlega sömu aðferð og Ríkisendurskoðun notar um aðra þætti ef miðað er við meðaltalsframlegð síðustu þriggja ára í staðinn fyrir þennan eina punkt sem Ríkisendurskoðun setur fram í sinni skýrslu. Og ég spyr hv. þm.: Hefði ekki verið faglegra að setja upp í skýrslunni a.m.k. tvo dálka og segja: Í þessum dálki

er framlegðin á einum tímapunkti 14,2%, í þessum dálki er meðaltalsframlegð sl. þriggja ára hjá fyrirtækinu og kannski þriðja dálkinum framlegð sl. tíu ára eða fimm ára svo að menn sæju mismunandi forsendur? Það er ekki gert. Mönnum er ekki gefinn kostur á því að sjá matið út frá raunverulegum forsendum í fortíðinni, heldur bara tekinn einn tímapunktur og sagt: Öll framtíðin verður eins og þessi eini tímapunktur. Hvers konar fagleg vinnubrögð eru það eiginlega í flóknu mati af þessu tagi? Það þarf ekki mikla kunnáttu í endurskoðunarfræðum til að átta sig á því að ef á að gefa sér forsendur af þessu tagi koma margar til greina. Það er hægt að velja einn tímapunkt. Síðan er hægt að taka sögulegt meðaltal yfir eitthvert árabil o.s.frv.
    Áætlun um framtíðina hlýtur þar að auki að taka mið af reynslu fortíðarinnar, ekki bara á einum tímapunkti heldur a.m.k. nokkur ár aftur í tímann. Ég hefði talið eðlilegt að Ríkisendurskoðun hefði í sínu mati gefið nokkra valkosti eftir því hvaða tímaforsendur eru valdar varðandi framleiðslu. Það var ekki gert, kannski vegna þess að ef raunveruleg framlegð Þormóðs ramma sl. þrjú ár hefði verið lögð til grundvallar hefði komið í ljós að fyrirtækið var selt á of háu verði, hærra en matið gaf til kynna.
    Þá skulum við koma að ávöxtunarkröfunni. Sá þáttur er mjög fróðlegur. Þegar rætt er um arðsemi við mat á afkomu fyrirtækja á grundvelli upplýsinga sem koma fram í ársreikningum þeirra er oft reiknað út frá hlutfalli sem nefnist ,,arðsemi eigin fjár`` og hv. þm. er kunnugt. Hlutfallstalan er fundin með því að deila eigin fé í ársbyrjun í hagnað ársins eftir að fjárhæðir hafa verið færðar til sambærilegs verðlags. Við rökstuðning þess að velja 10% ávöxtunarkröfu við mat sitt á verðmæti eignarhlutar ríkisins í Þormóði ramma hf. vísar Ríkisendurskoðun eingöngu til þess að kannanir á arðsemi fyrirtækja hérlendis sýni að hún sé að meðaltali langt fyrir neðan 10%. Þessi rökstuðningur er byggður á misskilningi. Það eru ekki bara mín orð fyrir því heldur eru rök þeirra sérfróðu endurskoðenda og fagmanna á þessu sviði sem ég hef leitað til fyrir þessum grundvallarmisskilningi á hugtökum af hálfu Ríkisendurskoðunar eftirfarandi:
    Þegar fjárfestir hyggur á fjárfestingu í fyrirtæki þarf hann að meta hvort telja megi að fjárfestingin verði ábatasöm miðað við aðra valkosti sem honum bjóðast til fjárfestingar. Hann verður að meta þá áhættu sem fjárfestingu í atvinnurekstri fylgir umfram fjárfestingu í tryggðum verðbréfum en mat á henni endurspeglast síðan í þeirri ávöxtunarkröfu sem hann gerir. Hlutfallsleg arðsemi eigin fjár hjá fyrirtækjum getur því samkvæmt framansögðu ekki verið haldbær rökstuðningur um val á ákveðinni ávöxtunarkröfu. Þar er verið að blanda saman tveimur ólíkum stærðum. Raunávöxtun spariskírteina ríkissjóðs og fasteignatryggðra skuldabréfa er á bilinu 6 -- 12%. Áhrif áhættu á ávöxtunarkröfu verðbréfa sést ágætlega á því að raunávöxtun fasteignatryggðra skuldabréfa fyrirtækja er nú --- og ég bið menn að taka eftir því --- 10 -- 12% og nokkru hærri þegar um einstaklinga er að ræða.

Ávöxtunarkrafa við fjárfestingu í fyrirtæki þar sem áhætta er talin vera fremur lítil, þar sem fasteignaveð liggja að baki alls staðar, getur ekki verið undir 12%, samanber ávöxtunarkröfu fasteignatryggðra skuldabréfa fyrirtækis. Í fyrirtækjum með ætlaðri meðaláhættu getur ávöxtunarkrafan ekki verið undir 15% og í fyrirtækjum þar sem áhættan telst vera mikil getur hún ekki verið undir 20%. Og ég spyr hv. þm.: Eru sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi fyrirtæki þar sem áhætta er mikil, lítil eða nánast engin? Ríkisendurskoðun hefur gefið sér ávöxtunarforsendur þar sem miðað er við að arðsemisáhættan sé minni en í fasteignaverðtryggðum skuldabréfum.
    Víða erlendis er ávöxtunarkrafan við mat á hlutabréfum 15 -- 20% við fjárfestingar þar sem áhættan er talin undir meðallagi. Og menn geta velt því fyrir sér, af því að mikið er haft á orði að við eigum að samræma okkur alþjóðlegum aðferðum á fjármagnsmarkaði, hvort áhættan í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sé undir meðaltali eða ekki. Á erlendum mörkuðum er arðsemiskrafan sem á að gera þegar áhættan er yfir meðaltali talin 20 -- 25%.
    Ég vil í þessu sambandi vekja athygli hv. alþm. á grein í Vísbendingu eftir Stefán Halldórsson um ávöxtun hlutabréfa. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Áhætta hlutafélags ræðst m.a. af fjárhag þess, samkeppnisstöðu, hæfni stjórnenda og framtíðarhorfum í þeim greinum sem það stundar viðskipti í. Mat fjárfestis á áhættunni
á að speglast í ávöxtunarkröfunni sem hann gerir. Á þróuðum erlendum hlutabréfamörkuðum hefur ávöxtunarkrafan`` --- ég bið menn að hlusta vel eftir þessu --- ,,gjarnan verið um 8% meiri en sú ávöxtun sem traustustu verðbréf gefa (ríkisskuldabréf og ríkisvíxlar). Ef þetta sama á við hér á landi, ætti meðalávöxtunarkrafa til hlutabréfa nú að vera um 15%. Ætla má að fyrir þau hlutafélög sem eru á íslenska markaðnum geti ávöxtunarkrafa því sveiflast frá 11 -- 12% upp fyrir 20%.``
    Það er því niðurstaða þeirra sérfræðinga sem meta ávöxtunarkröfuna í samræmi við alþjóðlega mælikvarða, í samræmi við reynsluna af íslenskum fyrirtækjum, í samræmi við áhættumatið sem eðlilegt er, að í reynd hefði frekar átt að gera arðsemiskröfuna frá 12% og upp í yfir 20% en 10%. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því hvernig matið breytist. Ef menn gefa sér framlegð Þormóðs ramma sl. þrjú ár og 15% arðsemiskröfu, sem er þó í lægra lagi miðað við það sem þessir sérfræðingar telja að hefði mátt gera, jafnvel yfir 20%, hver er þá niðurstaðan? Ef miðað er við framlegðina 12,6% í staðinn fyrir 14,2% og 15% arðsemiskröfu er verðmætið 93 millj. kr. en ekki 300 millj. kr. en salan grundvallaðist á 150 millj. kr. verðmæti. Ef framlegðin er 11,7% og arðsemiskrafan 15% er verðmætið 27 millj. kr. eða innan við 1 / 10 af því sem Ríkisendurskoðun segir að sé hið ,,absalúta`` verð fyrirtækisins. Og hvert er verðmætið miðað við þá sömu arðsemiskröfu og Ríkisendurskoðun gerir, 10% arðsemiskröfuna, ef framlegðin er í átt við meðaltalsframlegð Þormóðs ramma, fyrirtækisins sjálfs? Ef miðað er við 12,6% framlegð og 10% arðsemiskröfu er verðmætið 140 millj. kr. en ekki 300 millj. kr., innan við helmingur. Og ef miðað er við 11,7% framlegð er verðmætið, jafnvel miðað við 10% arðsemiskröfuna, 40 millj. kr. en ekki 300 millj. kr. eða rétt rúmlega 10% af því sem Ríkisendurskoðun kemst að raun um.
    Þetta ætti vonandi að sýna hv. þm. hve fáránlegt það er, fræðilega og faglega, að gefa út skýrslu með einni tölu um matið á Þormóði ramma án þess að tengja það við fræðilegt mat á eðlilegum arðsemiskröfum, án þess að tengja það við sögulegar staðreyndir um framlegð þessa tiltekna fyrirtækis og án þess að gefa þá valkosti sem hér eru nefndir. Eða með öðrum orðum, ef miðað er við framlegð Þormóðs ramma sjálfs sl. þrjú ár og jafnvel ef miðað er við arðsemiskröfuna sem Ríkisendurskoðun gerir, hvað þá heldur ef miðað er við arðsemiskröfuna sem Vísbending telur eðlilega og þeir sérfræðingar í endurskoðun fyrirtækja sem fjmrn. hefur leitað til telja eðlilega og ég rakti rökin fyrir því hér áðan, þá var fyrirtækið selt á margfeldi þess sem virði þess er samkvæmt þeim mælikvörðum. ( Gripið fram í: Hvað má selja kvótann á?) Hv. þm. spyr að því hvað mætti selja kvótann á. Eins og ég gat um hér áðan var það grundvallarforsenda þess að í þessa sölu var farið eftir samkomulagi fjmrh. og bæjarstjórnar Siglufjarðar að frumskilyrðið væri það að kvótinn væri áfram í byggðarlaginu.
    En það eru til fleiri mælikvarðar, hv. þm., sem líka varpa ljósi á þetta mat Ríkisendurskoðunar með því að bera sölugengi hlutabréfa Þormóðs ramma saman við sölugengi hlutabréfa hjá Granda hf., Skagstrendingi hf. og Útgerðarfélagi Akureyringa hf. En áður en ég kem að því vil ég ítreka að það sem ég lýsti hér áðan sem mati fræðimanna á meðhöndlun Ríkisendurskoðunar á ávöxtunarkröfunni og framlegðinni felur í sér það, eins og segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Rökstuðningur Ríkisendurskoðunar fyrir þeirri arðsemiskröfu sem stofnunin notar er byggður á grundvallarmisskilningi á hugtökum.`` --- Grundvallarmisskilningi á hugtökum. Ruglað er saman hugtökum um innri arðsemi fyrirtækja, ávöxtunarkröfu fjárfesta í öruggum skuldabréfum eða öðrum verðmætum til tiltekins tíma og arðsemiskröfu við mat á fjárfestingu í hlutabréfum þar sem áhættuþátturinn skiptir verulegu máli. Áhættuþátturinn vegur misjafnlega mikið eftir því hve áhættusamur reksturinn er talinn vera þegar tekið er mið af fjárhagsstöðu félags, rekstrarumhverfi og fleiri þáttum. Tilvitnunin í reiknivexti Þjóðhagsstofnunar, sem er eina tilvitnunin í skýrslunni, þar sem notað er ákveðið innra vaxtahlutfall við afkomumælingar, á ekkert skylt við ávöxtunarkröfu sem almennt er gerð við mat á verðgildi hlutabréfa eins og hér hefur verið rakið. Þá er enn ótrúlegra að stofnunin skuli líkja ávöxtunarkröfu við kaup á hlutabréfum í áhætturekstri við ávöxtun á spariskírteinum ríkissjóðs. Það staðfestir aðeins að Ríkisendurskoðun er annaðhvort ekki með á nótunum eða hún hefur allt aðrar hugmyndir um áhættuna annars vegar í því að kaupa spariskírteini

ríkissjóðs og hins vegar að reka sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi sem hafa skilað bullandi tapi á undanförnum árum.
    Ríkisendurskoðun gerði í hvorugri skýrslunni neina tilraun til þess að líta á verðmæti hlutabréfanna í Þormóði ramma í samanburði við fyrirtæki sem eru á hlutabréfamarkaðinum, sem þó hefði verið eðlilegt vegna þess að þar hefur markaðurinn búið til sjálfstæðan mælikvarða um það hvers virði hlutabréfin í sjávarútvegsfyrirtækjunum eru. Og ætlum við ekki að búa í þjóðfélagi þar sem markaðssalan á hlutabréfunum er æðri dómur en einhverjir kontóristar? Ætlum við ekki að búa í frjálsu hagkerfi þar sem sala á hlutabréfum býr til markaðsverðið eða ætlum við að búa í hagkerfi þar sem ríkisstofnun segir: Markaðurinn hefur bara vitlaust fyrir sér? Er ekki slíkt hagkerfi að brotna niður í Sovétríkjunum? Ætlum við að fara að endurreisa það hér á Íslandi í nafni Ríkisendurskoðunar með því að hafa ríkisstimplað verðmæti á hlutabréfum sem er ekki í neinum takt við það sem markaðurinn segir að sé verðmæti hlutabréfanna? Ég hélt að menn ætluðu að vera hér á braut yfir í alþjóðlegt og eðlilegt, opið markaðskerfi þar sem sala á hlutabréfum í fyrirtækjum ræðst af markaðinum sjálfum og þar sem engir embættismenn, hvort sem þeir eru í fjmrn. eða Ríkisendurskoðun, setja sig í þann sess að vera æðri dómarar en markaðurinn sjálfur og markaðurinn hefur dæmt. Markaðurinn hefur nefnilega dæmt. ( Gripið fram í: Markaðurinn á Siglufirði hefur dæmt.) Já, það er akkúrat hárrétt, hv. þm., markaðurinn á Siglufirði hefur dæmt, það er alveg hárrétt. Markaðurinn á Siglufirði dæmdi þannig að það komu engin tilboð frá Siglufirði um hærra verð. En markaðurinn almennt hefur nefnilega líka dæmt, hv. þm., og það er það sem ég ætla að gera grein fyrir. ( Gripið fram í: Af hverju auglýstirðu ekki bréfin?) Þau voru auglýst með þeim hætti sem ég taldi eðlilegt og ég skal koma að hér á eftir, bæði með þeim hætti að bæjarstjórnin á Siglufirði og fjmrn. gáfu út opinberar tilkynningar um að hlutabréfin væru til sölu og það var hverju einasta mannsbarni á Siglufirði ljóst að hlutabréfin voru til sölu. Málið var rætt hér í þingsölum þar sem það kom skýrt fram. Og ef menn halda að einhver auglýsing í Morgunblaðinu eða öðrum slíkum fjölmiðli hefði komið þeirri vitneskju skýrar til Siglfirðinga en þegar var ljóst eftir sameiginlega tilkynningu bæjarstjórnar og fjmrn. þá er það mikill misskilningur.
    Hvernig er matið á hlutabréfunum í Þormóði ramma samanborið við Granda, Skagstrending og Útgerðarfélag Akureyringa? Hlutabréf í þessum félögum, og þetta eru öflug félög í sjávarútvegi, eru skráð á hlutabréfamarkaði. Skagstrendingur, Grandi og Útgerðarfélag Akureyringa. Tvö þau síðastnefndu, Grandi og Útgerðarfélag Akureyringa, hafa með höndum blandaðan rekstur í útgerð og vinnslu eins og Þormóður rammi. Skagstrendingur rekur útgerð. Við skulum skoða nokkrar stærðir um sölugengi og fjárhagsstöðu þessara félaga í samanburði við söluverð hlutabréfanna í Þormóði ramma og fjárhagsstöðu þess félags. Hlutfallið milli sölugengis og innra virðis hjá Granda er 1,41, hjá Skagstrendingi er það 0,78, hjá Útgerðarfélagi Akureyringa 1,18 og hjá Þormóði ramma 1,09. Þetta er mjög svipað hlutfall eins og markaðsverð þessara traustu útgerðarfyrirtækja var. Með öðrum orðum, fjmrh. tókst að selja hlutabréfin í Þormóði ramma með þeim hætti að matið sem á þau var lagt stenst helst samanburð við mat hins frjálsa markaðar á hlutabréfunum í þremur af sterkustu útgerðarfyrirtækjunum á landinu.
    Með sölugengi á móti innra virði er átt við hlutfallið milli sölugengis allra hlutabréfa í viðkomandi félagi deilt með bókfærðu eigin fé. Sölugengi hlutabréfanna í Útgerðarfélagi Akureyringa er þannig 18% yfir bókfærðu eigin fé en söluverð hlutabréfa í Þormóði ramma var 9% yfir bókfærðu eigin fé.
    Varðandi fyrst nefndu þrjú félögin eru upplýsingarnar um sölugengi og innra virði teknar úr Fréttabréfi Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, útgefnu í des. sl., en eiginfjárhlutfall er byggt á ársreikningum félaganna fyrir árið 1989. Þótt hlutfallið milli söluverðs hlutabréfa og innra virðis sé ekki algildur mælikvarði frekar en aðrir á eðlilegt söluverð, þá gefur þetta hlutfall ákveðnar vísbendingar. Það verður ekki annað séð, virðulegi forseti, en að þetta hlutfall hjá Þormóði ramma, reiknað miðað við söluverð hlutabréfanna, falli vel að sölugengi hlutabréfa annarra sambærilegra félaga þrátt fyrir, og ég legg áherslu á það, þrátt fyrir mun veikari eiginfjárstöðu.
    En hvað er Ríkisendurskoðun þá að segja þegar hún segir að það hefði átt að vera tvisvar sinnum hærra hlutfall en hjá Granda, Útgerðarfélagi Akureyringa og Skagstrendingi? Annaðhvort er Ríkisendurskoðun að segja að Þormóður rammi, með alla sína sögu, allt sitt tap, alla sína veiku eiginfjárstöðu, sé miklu traustara fyrirtæki en Útgerðarfélag Akureyringa, Grandi eða Skagstrendingur, og ég veit að hv. þm. vita það allir að það er fáránlegt að halda slíku fram, eða þá að Ríkisendurskoðun er að halda því fram að markaðsverðið sem hefur verið búið til á frjálsum hlutabréfamarkaði á hlutabréfunum í Granda, í Útgerðarfélagi Akureyringa og Skagstrendingi, sé kolvitlaust eða markaðskerfið á Íslandi sé kolvitlaust og Ríkisendurskoðun hafi höndlað stærri sannleika á verðgildi markaðsbréfa fyrirtækja í sjávarútvegi en markaðurinn sjálfur. Og svo standa hér upp hugmyndafræðilegir aðdáendur markaðskerfisins og segja: Það er Ríkisendurskoðun sem hefur rétt fyrir sér, markaðurinn er vitlaus. Það er satt að segja alveg stórkostlegur málflutningur.
    Þeir sem segja að það hafi átt að meta Þormóð ramma á 300 millj. kr. en ekki 150 millj. kr. eru að segja að það eignamat sem kaupendur og seljendur hlutabréfa í traustustu útgerðarfyrirtækjunum á Íslandi hafa lagt á þau hlutabréf á frjálsum markaði sé kolvitlaust og allt of lágt, eða með öðrum orðum að það sé verið að gefa hlutabréfin í Granda á almenna markaðinum, það sé verið að gefa hlutabréfin í Útgerðarfélagi Akureyringa og gefa hlutabréf í Skagstrendingi og þeir sem eru að selja þau viti ekki hvað þeir eru

að gera og guð fyrirgefi þeim því þeir séu að tapa, þeir hafa ekki leitað til Ríkisendurskoðunar til þess að fá rétt verð.
    Auðvitað er þetta ekki hægt. Auðvitað búum við í markaðskerfi þar sem markaðsverðið á hlutabréfunum er það eina rétta. Eða á að fara að búa til markaðskerfi þar sem þingmenn geta leitað til Ríkisendurskoðunar til að fá að vita hvert er verðmætið? Og ef markaðurinn hefur vitlaust fyrir sér þá á bara ekki að selja. En það er í Sovétríkjunum sem kerfið er að hrynja, þar sem ríkismatsmennirnir eru taldir hafa rétt fyrir sér en markaðurinn rangt.
    Það er einmitt þess vegna, hv. þm. Geir Haarde, sem ég lagði fram í umræðunum þetta mat á Útgerðarfélagi Akureyringa, á Granda og á Skagstrendingi, vegna þess að salan á Þormóði ramma þolir nefnilega samanburð við sölu hlutabréfa á frjálsa markaðinum í traustustu útgerðarfélögum landsins þótt Þormóður rammi sé miklu veikara fyrirtæki. Fjmrh. tókst með öðrum orðum að fá jafngott verð fyrir hlutabréfin í Þormóði ramma og hann hefði verið að selja hlutabréf í hinum traustustu útgerðarfyrirtækjum í landinu.
    Í mati Ríkisendurskoðunar virðist ekkert tillit vera tekið til þess að Þormóður rammi er með veika eiginfjárstöðu og það er ekkert tillit tekið til þess hvaða áhætta kann að fylgja þessum rekstri um langa framtíð. Þvert á móti segir í síðari skýrslunni á bls. 10, með leyfi forseta: ,,Ekkert bendir sérstaklega til þess að áhættan sem fylgir rekstri eins og um er að ræða hjá Þormóði ramma hf. sé meiri en almennt gerist í rekstri hérlendis.``
    Hér mætti lýsa skuldum fyrirtækisins. Skuldirnar voru 800 -- 900 millj. kr. um mitt sl. ár. Það mætti lýsa sögu fyrirtækisins á sl. árum sem hefur leitt til þess að ríkissjóður neyddist til að eignast 98% í fyrirtækinu. Og svo er sagt að áhættan sé ekkert meiri en gengur og gerist. Ég bara spyr hv. þm.: Hefur ríkissjóður þurft að standa í því að dæla þannig peningum inn í fyrirtæki holt og bolt? Nei. Hann hefur gert það í veik sjávarútvegsfyrirtæki en ekki eins og gengur og gerist í rekstri hérlendis.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar koma einnig fram órökstuddar fullyrðingar um það að sömu aðferðum hafi ekki verið beitt við matið á Drafnari hf. og Egilssíld og á Þormóði ramma. Þetta er mjög alvarleg fullyrðing í garð Ólafs Nilssonar sem vann þetta mat. Er þessi fullyrðing rökstudd í skýrslunni? Nei. Það eru engin rök í skýrslunni um að það hefði verið annað mat, það er bara gefið til kynna að ekki hafi verið beitt sömu aðferðum. Staðreyndin er hins vegar sú að það var beitt sömu aðferðum enda engin rök í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir þeirri fullyrðingu að svo hafi ekki verið gert.
    Virðulegi forseti. Í bréfi sem ég skrifaði forsetum þingsins kemur fram að Ríkisendurskoðun mat Þormóð ramma þegar verið var að gera skýrslu um Atvinnutryggingarsjóð. Þá voru metin fjölmörg fyrirtæki. Þormóður rammi var eitt af þeim. Það mat skilaði satt að segja þeirri niðurstöðu að fyrirtækið væri ekki tækt til meðferðar í Atvinnutryggingarsjóði, það væri svo

illa á vegi statt. Það er eina matið sem lá fyrir í opinberum gögnum hjá Atvinnutryggingarsjóði.
    Þegar á það er bent í bréfi fjmrh. að Ríkisendurskoðun hafi framkvæmt annað mat á Þormóði ramma fyrr á árinu sem hafi leitt til allt annarrar niðurstöðu segir Ríkisendurskoðun í fyrsta sinn: Það voru bara drög. Við breyttum svo matinu seinna og gáfum okkur aðrar forsendur og fengum þá aðra niðurstöðu.
    Þá er allt í einu hægt að færa forsendur til og frá og fá út aðra niðurstöðu, sjálfsagt að vera með nokkuð margar. En í upphaflegu skýrslunni er ekki um neitt slíkt að ræða og þá segja menn að það sé bara ein forsenda sem er gild. Hún er hin rétta.
    En þegar bent er á það að í trúnaðargögnum Atvinnutryggingarsjóðs liggi fyrir annað mat á Þormóði ramma með allt aðra niðurstöðu, sagt að það sé bullandi tapfyrirtæki, þá er komið fram og sagt: Jú, það er að vísu rétt en það voru drög og við breyttum því svo seinna. --- En var Atvinnutryggingarsjóði sagt frá þeirri breytingu? Nei. Var fjmrn. sagt frá þeirri breytingu? Nei. Lá hún einhvers staðar annars staðar fyrir heldur en í Ríkisendurskoðun? Nei. Og svo leyfir Ríkisendurskoðun sér í skýrslunni að fara að ávíta fulltrúa fjmrh. í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs fyrir að hann hafi brotið trúnað með því að gera fjmrh. grein fyrir því hvernig Ríkisendurskoðun mat það fyrirtæki sem fjmrh. fór með 98% af eignarhlutanum í. Ég vil segja að það var þveröfugt. Ef fulltrúi fjmrh. í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs hefði leynt fjmrh. því hvernig Ríkisendurskoðun mat Þormóð ramma á sínum tíma sem vonlaust fyrirtæki þá hefði það verið brestur á trúnaði. En Ríkisendurskoðun kemst að þeirri furðulegu niðurstöðu að þegar fulltrúi fjmrh., skipaður samkvæmt lögum í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, lætur fjmrh. fá gögnin um það að Ríkisendurskoðun hafi metið þetta fyrirtæki ríkisins minna en einskis virði, þá hafi það verið trúnaðarbrot og beri að ávíta manninn fyrir það. Ég spyr nú bara: Hvað eiga fulltrúar fjmrh. í stjórnum og sjóðum að gera ef þeirra verkefni er ekki að gera fjmrh. grein fyrir því hvaða gögn koma þar fram varðandi þau mál sem fjmrh. fer með?
    Virðulegi forseti. Það væri hægt að segja ýmislegt fleira um misjafna merkingu þeirra hugtaka og kannski rugling þeirra hugtaka sem Ríkisendurskoðun beitir í þessu mati, en það er vissulega mjög alvarlegt mál þegar Ríkisendurskoðun beitir hugtakaruglingi af því tagi sem fram hefur komið í þessari lýsingu.
    Stofnunin fjallar nokkuð um hugtökin ,,framlegð`` annars vegar og ,,verg hlutdeild fjármagns`` hins vegar. Fyrra hugtakið er gjarnan notað af endurskoðendum yfir mismun rekstrartekna og gjalda, þ.e. hverju reksturinn skilar til að greiða vexti af lánum, afskriftum og eigin hagnaði. Seinna hugtakið er notað af Þjóðhagsstofnun til að mæla nákvæmlega sama fyrirbæri. Hins vegar kemur fram munur í mælingum þessara stærða þar sem rekstrartekjur og gjöld eru venjulega ekki leiðrétt fyrir verðbólgu með því að lækka tekjur sem nemur gengishagnaði af birgðum og með því að meta birgðir í upphafi og lok árs á sama verðlagi þegar framlegð er mæld. Það gerir Þjóðhagsstofnun hins vegar þegar hún mælir verga hlutdeild fjármagns. Hagfræðilega séð er aðferð Þjóðhagsstofnunar mun réttari aðferð til að mæla framlegðina til fjármagnskostnaðar og hagnaðar, þar sem verðbólgugróði af birgðum er ekkert annað en pappírshagnaður sem stafar af verðbólgu. Þegar meta á raunverulegan hagnað fyrirtækja til lengri tíma er því nær að miða við framlegðina eða verga hlutdeild fjármagnsins eins og Þjóðhagsstofnun mælir hana.
    Gagnrýni Ríkisendurskoðunar á þetta atriði í bréfi mínu er þess vegna ekki vel grunduð. Þetta hefði Ríkisendurskoðun átt að vera ljóst því í bréfi Þjóðhagsstofnunar til Ríkisendurskoðunar segir orðrétt um þetta atriði, með leyfi forseta:
    ,,Hugtakið hagnaður fyrir vexti, verðbreytingarfærslur og afskriftir á verðbólgutímum er því afar varasamt. Þjóðhagsstofnun birtir efni um hag sjávarútvegsfyrirtækja, bæði samkvæmt ársreikningum fyrirtækjanna og eins að teknu tilliti til endurmats birgða en leggur jafnframt megináherslu á seinni aðferðina.``
    Í þessu sambandi er auðvitað vert að muna eftir því að því lægri sem verðbólgan er og stöðugleikinn meiri í gengismálunum er munurinn á mælingu hagnaðar fyrir vexti og afskriftir eftir þessum tveimur aðferðum minni.
    Virðulegi forseti. Ég hef varið hér nokkuð löngu máli til þess að fara ítarlega í gegnum aðdragandann að sölu hlutabréfa Þormóðs ramma, um sögu málsins, en þó kannski fyrst og fremst um þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur hér gert.
    Siglufjörður þarf að eiga örugga framtíð. Siglufjörður þarf að geta treyst því að atvinnulífið sé í öruggum höndum heimamanna. Ég tel mig hafa lagt grundvöll að því að svo verði. Siglufjörður er í dag miklu sjálfstæðari sem byggðarlag en hann var við lok síðasta árs. Hann er ekki eins háður ríkinu og duttlungum fjmrh. eins og hann var áður. Frumkvæðið, framtakið hjá heimamönnum, hefur verið hafið til vegs. Við skulum vona að það fylgi gæfa þeim sem hafa hætt sínum eignum og sínum fyrirtækjum með því að leggja þau inn í Þormóð ramma og Siglufjörður geti áfram búið við traust atvinnulíf. Það er vissulega skylda þjóðþingsins og stjórnvalda að tryggja að svo sé. Við getum deilt um það hvort fjmrh. sem hér stendur hefði átt að haga sölunni eitthvað öðruvísi. Hvort auglýsing í Morgunblaðinu hefði verið það sem skipti sköpum þegar gefin hafði verið út sameiginleg fréttatilkynning til allra fjölmiðla, sjónvarps, útvarps og blaða frá bæjarstjórninni og frá fjmrh. Og þegar búið var að ræða málið hér á Alþingi þá sé það hins vegar gagnrýni vert af því að ekki var auglýst í Morgunblaðinu. En slíkt er aukaatriði.
    Hitt er alvarlegra mál, virðulegi forseti, að ég tel mig í þessari ræðu hafa reitt fram mjög ítarleg og efnismikil rök fyrir því að þær aðferðir, það mat og sú niðurstaða sem Ríkisendurskoðun komst að sé með kurteislegu orðalagi sagt mjög hæpin, beinlínis villandi. Ég ætla ekki að taka dýpra í árinni að svo stöddu. En þegar Ríkisendurskoðun blandast inn í

pólitískt karp þingmanna einstakra kjördæma og ráðherra, sem alltaf verður til staðar, þá er höfuðnauðsyn ef Ríkisendurskoðun á ekki að glata sess sínum og Alþingi ekki að glata virðingu sinni að það mat sé svo ítarlega faglega unnið að fræðimenn á þessu sviði, bestu kunnáttumenn, ljúki nær allir upp einum rómi um að hér sé vel að verki staðið.
    Ég hef leitt hér fram ítarleg rök fyrir því, byggð á samræðum við sérfræðinga, endurskoðendur og bókhaldsmenn, byggð á greinargerðum sem ég hef fengið í hendur frá þeim, að Ríkisendurskoðun ruglar saman grundvallarhugtökum. Ríkisendurskoðun gefur sér forsendur sem eru ekki í takt við veruleikann. Ríkisendurskoðun leggur til grundvallar tölur um arðsemi og framlegð sem ekki samrýmast, hvorki sögulegri reynslu né almennum markaðsmælikvarða í þessum efnum.
    Alþingi axlaði mikla ábyrgð þegar það tók að sér að veita Ríkisendurskoðun forstöðu. Við þurfum að búa í þjóðfélagi þar sem þingið allt, þjóðin öll, treystir og virðir það sem frá Ríkisendurskoðun kemur til þess að þeir sem í þessum sal eru og eðlilega eru alltaf í pólitísku stríði, eðlilega eru í því að koma höggi hver á annan, freistist ekki til þess að biðja þannig um gögn frá Ríkisendurskoðun að hún glati sess sínum, faglegu áliti og virðingu. Það er hægt að misnota þau stjórntæki sem menn fá í hendur. Það er hægt að ætla sér um of. Það er hægt að gæta ekki nægilega að þeim fræðilegu og faglegu kröfum.
    Kjarni málsins er sá að ég hef lagt hér fram ítarleg fagleg og fræðileg rök sem ég hef sótt í smiðju þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstöðum á þessum vettvangi um áraraðir og njóta víðtæks álits í okkar þjóðfélagi. Þingmenn geta valið um tvennt og það verður fróðlegt að sjá það í umræðunni hér á eftir hvora leiðina þeir velja. Þeir geta valið þá leið að fara í pólitískt skak við fjmrh. í stíl við þau ummæli sem höfð voru áður en Ríkisendurskoðun var beðin um skýrsluna. Það er út af fyrir sig allt í lagi, en það er ekki kjarni málsins. Fjármálaráðherrar koma og fara en Ríkisendurskoðun verður áfram undir Alþingi. Þess vegna er það seinni leiðin sem skiptir miklu meira máli, þ.e. að hrekja lið fyrir lið þær fræðilegu og faglegu athugasemdir sem hér hafa verið settar fram við þessa skýrslu og þessi vinnubrögð. Ef þær verða ekki hraktar lið fyrir lið, þátt fyrir þátt, þá blasir sú staðreynd við að það þarf að grípa til ráðstafana til að treysta fagleg vinnubrögð og trúverðugleika þeirrar stofnunar, Ríkisendurskoðunar, sem Alþingi tók að sér að stýra fyrir nokkrum árum síðan.