Málefni Litáens
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. spurði mig margra spurninga. Ég spurði hæstv. utanrrh. einnig spurninga. Þær voru að vísu aðeins örfáar. Munurinn aftur á móti er sá að yfirleitt er það ráðherrann sem er upplýsingagefandi en ekki að hinir almennu þingmenn taki sig til og veiti ráðherrum upplýsingar um málefni sem heyrir undir þeirra sérsvið.
    Ég spurði hæstv. ráðherra beint: Viðurkenna Norðmenn fullveldi Litáa? Hann hefur haft tímann frá 23. janúar til að fá svör. Viðurkenna Danir fullveldi Litáa? Ekkert svar. Viðurkenna Finnar fullveldi Litáa? Ekkert svar. Viðurkenna Svíar fullveldi Litáa? Ekkert svar. Viðurkenna Frakkar fullveldi Litáa? Ekkert svar. Viðurkenna Bretar fullveldi Litáa? Ekkert svar. Hins vegar upplýsti hann hér af sínum fróðleik að Bandaríkjamenn lögðu ekki niður konsúlsembættin í Bandaríkjunum. Hann tók það sem sönnun fyrir því að þeir viðurkenndu fullveldi þessara þjóða. En Íslendingar lögðu niður konsúlsembættin. Var það þá gagnstæð sönnun fyrir því að Íslendingar viðurkenndu ekki fullveldi þessara þjóða? Ég minnist þess að fyrrverandi forseti sameinaðs þings sagði að menn hefðu rétt til að gagnálykta. Og ég geri það hér með.
    Það vill nú svo til að þó að ég hafi flutt hér mjög ákveðna yfirlýsingu um ágæti Abrahams Lincolns, þá taldi hæstv. utanrrh. að ég hefði verið óheppinn með að nefna hann. Ég sæmdi Gorbatsjov ekki friðarverðlaunum Nóbels. Ég er alsaklaus af því, ræddi ekki við nokkurn mann til að hvetja hann til að hafa áhrif. Engu að síður var það gert. Og það er nú sennilega mesta viðurkenning sem nokkur þjóðhöfðingi getur fengið. Og fyrir hvað fékk hann þessa viðurkenningu? Fyrir að afnema þrælahald, miklu stærra þrælahald en Abraham Lincoln komst nokkurn tímann yfir. Skipulagt kerfi til að kúga yfir 300 milljóna samfélag. Ég veit ekki hvort það var hægt að finna betri samlíkingu.
    Hins vegar er sú saga fræg af músinni og kettinum, þegar músin komst í bjórinn og klifraði svo upp á tunnubarminn og sagði: Komið þið nú með helvítis köttinn.
    Hvar var þessi frelsishugsjón Íslendinga þegar Stalín sat við völd? Hvar var þá krafturinn í Íslendingum til þess að heimta rétt handa þessum þjóðum? Hvar var hann þegar Brésnév sat við völd eða Krústjoff? Nei. Þegar loksins þeir hlutir gerast að fulltrúi Sovétríkjanna, forustumaður þeirra, hefur verið sæmdur friðarverðlaunum Nóbels, þá rísa Íslendingar upp á afturlappirnar og segja: Komið þið nú með helvítis köttinn. Þá er kjarkurinn til staðar.
    Svo er sagt að þessum 52 þjóðum sé ekkert að vanbúnaði að samþykkja fullveldi Litáa. Hæstv. utanrrh. skuldar þessu þingi skýringar á því hvaða upplýsingar hann hefur fengið í viðræðum við forustumenn þessara þjóða. Hann skuldar þinginu skýringar. Hverjar eru þær? Hver eru svörin? Það þarf enginn mér að segja að hæstv. utanrrh. viti ekki hver svörin eru. Það þarf enginn mér að segja að hann hafi ekki spurt. Og

það þarf enginn mér að segja að jafngreindur maður geri sér ekki grein fyrir því hvaða annmarkar eru á því að verða við þessari beiðni, enda hefur hann beðið um að sínar hendur yrðu ekki bundnar. Hvað á hann við? Er hann að biðja okkur um að koma ekki í veg fyrir það að hann geti veitt Litáum fullveldi með því að biðja um að hendurnar séu ekki bundnar? Nei, hann er að biðja um það að honum verði ekki skipað að framkvæma það áður en hann getur það. Það er það sem hann er að biðja um. Og ég skil hæstv. ráðherra vel. Hann vill ekki bera ábyrgð á því eins og staða mála er í dag að leggja þetta til og sýnir einfaldlega að þrátt fyrir þá miklu spennu sem myndast hefur, hefur hann haldið viti og ró og gert sér grein fyrir því að þetta er ekki hægt eins og hlutirnir eru í dag.
    Ég rakti það hér hvaða stefnu mér sýndist þessi mál gætu tekið ef menn hefðu biðlund. Ég fékk frammíkall um það að vorið væri búið, það væri farið að hausta. Ég hef aftur á móti ekki skipt um skoðun. Ég tel að þegar búið er að ganga frá þeirri ákvörðun, hvernig
verði staðið að framtíðarskipulagi mála í Sovétríkjunum, þá skapist grundvöllur til þess að setjast niður og taka þessi mál upp. En hitt, að nú skuli þjóðaréttur einn ráða landamærum í Evrópu og engin landamæri virt sem tekin hafa verið með vopnavaldi. Haldið þið virkilega að þetta muni gerast? Má búast við því að írska þjóðin verði eitt sjálfstætt ríki á morgun? Það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um allt Írland, atkvæðin talin og niðurstaðan verði sú að meiri hluti Íra vilji að þeir séu eitt ríki og þeir verði sjálfstætt ríki á morgun? Er það þetta vor sem menn sjá fyrir sér í Evrópu? Má búast við því að Balkanlöndin verði nú ásátt um það hvernig eigi að skipa landamærum? Þjóðarétturinn segi til. Nei, þetta vor er ekki í augsýn því miður.
    Flestöll landamæri Evrópu hafa verið ákveðin með vopnavaldi. Það þarf aðeins að fara misjafnlega langt aftur til þess að finna það út hvenær það vopnavald ákvað landamæri á þessum eða hinum staðnum. Þannig standa málin. Ég hygg að ég hafi skilið hæstv. ráðherra rétt þá hann vakti á því athygli að hann teldi það stuðning við sig ef ákvörðun ríkisstjórnarinnar fengi viðurkenningu. Ég hef ekki lýst andstöðu gegn því að viðræðurnar ættu sér stað. Orð eru til alls fyrst. Viðræður eiga sér stað og þegar viðræður hafa átt sér stað, þá taka menn ákvarðanir í ljósi þeirrar niðurstöðu sem þar hefur komið í ljós. Ég tel aftur á móti að nú blasi það við að þróunin sé á þann veginn að þó að í dag sjái ekki fyrir endann á þessum málum, þá eigi að halda viðræðunum áfram. Og ég tel það af hinu góða að utanrrh. Íslands leiti eftir því að fá að ræða við Sovétríkin um þessi mál.
    En ég geri skýran greinarmun á því hvort viðræðurnar halda áfram ef við samþykkjum hér texta sem ekki verður skilinn á annan veg en þann að viðræðurnar hafi hafist 23. jan. og nú sé komið að því að taka upp stjórnmálasamband við Litáa svo fljótt sem verða má, eftir því sem póstþjónustan eða flugsamgöngurnar leyfa, gæti staðið þarna á eftir. Þetta er að vekja falskar væntingar að mínu viti. Þar skilur kannski á milli í mínum skilningi á þessum texta og annarra. Ég vil ekki standa að því að þrýsta svo á hæstv. utanrrh. í þessu máli að hann líti svo á að hann sé nánast með fyrirskipun um að framkvæma þetta hér og nú.
    Mér er ljóst að trúlega er þingheimur með nokkuð mótaða afstöðu þannig að skoðanir manna breytast lítið þó ræður séu fluttar. En ég taldi, miðað við mikilvægi þessa máls, að mér bæri að gera grein fyrir mínum skoðunum, koma þeim á framfæri í þeirri stöðu sem þetta mál er, því að nú eru menn að tefla þessu máli til sundrungar meðal íslenskrar þjóðar. Menn eru að tefla því til sundrungar á íslenskri þjóð. Því geta menn áttað sig á ef þeir tala við menn á götum úti í Reykjavík, ef þeir tala við menn úti á landi. Íslenska þjóðin var ekki andvíg því að utanrrh. Íslands leitaði eftir viðræðum og reyndi að fá niðurstöðu. En íslenska þjóðin er raunsæ. Hún er raunsæ og gerir sér grein fyrir því hver raunveruleg staða þessara mála er.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að þreyta þingheim á lengri ræðu um þessi mál.