Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 14. þm. Reykv. innti mig eftir skoðun minni á því ákvæði þessa frv. þar sem kveðið er á um rétt til þess að beita dagsektum ef út af er brugðið um nafngiftir eða ef þær eru ekki framkvæmdar tímanlega. Ég hef ekki mjög mótaða skoðun í þessu efni en get þó ekki varist þeirri hugsun að svipuð ákvæði munu vera í lögum um það þegar út af er brugðið um framkvæmd umgengnisréttar í barnalögum, en eftir því sem ég veit best þá er þar um að ræða í raun nánast dauðan lagabókstaf sem ekki er framkvæmdur og það segir sína sögu. Ég get því vissulega tekið undir það sem fram kom í máli hv. ræðumanns og raunar fyrr í þessari umræðu í máli hæstv. menntmrh. Þetta er eitt af atriðum sem sannarlega mætti athuga nánar í hv. menntmn.