Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Það hefur náttúrlega komið hér fram í umræðum að þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði eru breytingar sem samkomulag náðist um. Jafnvel þeir sem flytja þetta mál hefðu viljað hafa sumt á annan veg og koma fleiru hér inn. En þar sem samkomulag var um aðeins þetta þá varð þetta nú niðurstaðan.
    Ég gat þess við 1. umr. að ég óskaði eftir því að sú hv. nefnd sem hafði þetta mál til meðferðar kannaði það þar sem ég taldi að það væri samkomulag um þær breytingar á stjórnarskipunarlögum sem umboðsmaður Alþingis hefði ritað forsetum Alþingis fyrir tveimur árum, hvort nefndin mundi a.m.k. ekki ræða það. Ég reyndi í þessari nefnd að koma því að en þeim fannst að það ætti að bíða eftir endanlegri skoðun á stjórnarskránni, hvort sem það tekst nú á þessari öld eða þeirri næstu. En ég spurði um þetta fyrst og fremst vegna þess að ég stend í þeirri trú, þó að ekki væri tekið undir þetta af formönnum þingflokkanna, að það væri í sjálfu sér samkomulag um þessi málefni og því ekkert að kanna. Ég lít svo á í sambandi við útgáfu bráðabirgðalaganna að það sé búið að hindra það og sé ekki nema í algjörum undantekningartilvikum sem slíkt sé leyfilegt að gera miðað við það að alltaf er hægt að kalla saman þingið ef þessar brtt. verða samþykktar og engin afsökun nema eitthvað sérstakt gerist.
    Ég vil bara benda á það, sem kannski sumum finnst ólíklegt, t.d. ef það færi að gjósa hérna á Reykjanesi eða eitthvað þess háttar. Í öðrum tilvikum, það yrði að vera svo mikil ástæða að það væri hægt að segja að það væri ekki hægt að kalla þingið saman, það yrði að bregðast við áður.
    Þetta ræddi ég í þessari nefnd sem um þetta fjallar og þetta flytur og ég held að sumir af þeim mönnum hafi verið mér sammála í þessu máli.
    Eitt er svo aftur undarlegt sem ég lýsti minni skoðun á, og raunar kemur ekki beint fram í þessu frv., og það er kosningadagurinn. Það er alveg furðulegt að það skyldi verða sett upp sú staða að annaðhvort yrði kosið 11. maí eða 20. apríl. Það var eins og það bæri búið að týna 27. alveg út úr dagatalinu. Ég tel enga afsökun fyrir því að hæstv. forsrh. velji þennan dag. Ég viðurkenni hins vegar að það er á hans valdi. En ég fyrir mitt leyti mótmæli þessari gerð hér og nú. Það er engin ástæða til þess og ég vil taka undir það sem hefur komið hér fram, m.a. hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að eftir því sem fyrr er kosið að vorinu er tekin áhætta um veður í mörgum kjördæmum. Það eru engin rök fyrir því að færa þetta til 20. apríl. Það eru rök fyrir því að kjósa ekki 11. maí miðað við það að þá eru þarna sextán dagar sem þingmenn hafa ekki sitt umboð.
    Ég ætla að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að stytta mál mitt en ég vil að þetta komi hér fram og vil endurtaka mína spurningu: Var þetta athugað, var samstaða um þetta? Það er sérstaklega það sem ég vil vita vegna þess að ég mun reyna með einhverjum hætti á næsta þingi að taka upp þennan kafla þó það sé ansi önugt að gera það vegna þess að það þarf að kjósa á milli að slíkt komi til greina, en ég hef nú flutt aðra brtt. við stjórnarskrána sem mundi þá ekki koma til, þá yrði þjóðaratkvæðagreiðsla við næstu kosningar um breytinguna.