Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að fáir gleymi að sinni sunnudeginum 3. febr. sl. þar sem allt lifandi í þessu
landi var í beinni lífshættu. Þjóðin sat í myrkri og fylgdist með fréttum af óveðrinu og ein var sú frétt sem vakti óneitanlega athygli, en hún var sú að 70 unglingar væru á leiðinni til Reykjavíkur með ferjunni Akraborg. Skýringarnar sem gefnar voru voru þær að ekki hefði verið hægt að hemja skipið við bryggju á Akranesi og þess vegna hefði orðið að sigla því til Reykjavíkur en í leiðinni voru teknir 70 strákar, eins og hér segir í Morgunblaðinu 5. febr., ,,í 4. flokki Víkings, Breiðabliks, Vals, HK og Reynis í Sandgerði.``
    Nú fór þetta allt saman vel. Skipið var að vísu hátt á þriðja tíma á leiðinni og í viðtali í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. febr. segir skipstjórinn: ,,Kókvél flaug yfir matsalinn og stólar horna á milli. Þetta er mesta hvassviðri sem ég hef lent í á Akraborginni, en ég er búinn að vera með skipið í 17 ár.``
    Ég veit ekki hvort mitt móðurhjarta er eitthvað viðkvæmara en annarra, en mér hefur sjaldan létt meira en þegar ég heyrði að þetta skip væri komið til hafnar. Nú eru þetta eflaust hæfir menn sem stjórna skipinu og skal ekki á þá ráðist, en þetta hlýtur að leiða hugann að því: Hver er ábyrgur fyrir slíkum farþegaflutningi? Það má hugsa sér að illa hefði farið og þá vaknar sú spurning: Hvern er hægt að kalla til ábyrgðar fyrir slíkt?
    Það er haft eftir umsjónarmanni íþróttahússins við Vesturgötu á Akranesi að ekkert hefði verið í veginum fyrir því að drengirnir hefðu gist og beðið af sér veðrið. Og illa trúi ég að foreldrum þessara barna hafi verið rótt á meðan á þessari siglingu stóð. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. --- þetta virðist reyndar ekki vera einsdæmi því að í viðtali við strákana er sagt að ,,það hafi verið verra á Herjólfi þegar við fórum með honum til Vestmannaeyja, segja þeir, fyrir tveimur árum``. Og því spyr ég: Hvaða reglur eru um það hvenær talið sé eðlilegt að flytja farþega og hver sé kallaður til ábyrgðar? Það mætti líka spyrja: Hefði nú eitthvert óhapp orðið, sem vel hefði getað verið, slys eða eitthvað þó ekki hefði nú komið til dauðsfalla, eru þessi börn tryggð? Hver er ábyrgur fyrir þessum ósköpum?
    Ég hef leyft mér að bera fram fsp. þessa efnis á þskj. 582 til hæstv. samgrh. vegna þess að ég held að hér þurfi menn að hugsa sig aðeins um, þegar börn og unglingar eru annars vegar, þegar lagt er út í svona svaðilfarir.