Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ekki þykir mér það nú alveg nægjanlegt. Hér er verið að tala um farþegaflutning í einu versta veðri á öldinni og þarf ekki að fjölyrða um það. Hér í Reykjavík var beinlínis útgöngubann og margbúið að biðja fólk að vera ekki á ferð að óþörfu þannig að það eitt sér er nú dálítið þvert á þessa ákvörðun skipstjórans.
    En það sem ég hjó eftir í máli hæstv. ráðherra er að engar reglur séu til í raun og veru um hvenær ástæða sé til þess að fella niður farþegaflutning. Ég vil því fara þess á leit við hæstv. ráðherra að slíkar reglur verði settar. Ég efast ekkert um hæfni áhafnarinnar á Akraborginni. En ég held að allir þeir sem eitthvað þekkja til skipa séu sammála mér um það að ferjur séu almennt ekki meðal bestu sjóskipa. Ég get ekki neitað því að ég tek hjartanlega undir með móður eins drengjanna sem undraðist stórlega í viðtali í Morgunblaðinu yfir þessari ákvörðun. Það má gera sér í hugarlund hvernig þessu fólki leið þegar börnin voru að berjast þetta í þrjá klukkutíma.
    Ég held að eins og veður eru nú oft í kringum okkar góða land, þá sé full ástæða til þess að setja um það reglur hvenær ástæða sé til að fella niður farþegaflutning áður en verra hlýst af. Við getum glaðst yfir því að hér fór betur en á horfðist, en það er ekki við það unandi að það sé ákvörðun skipstjóra hverju sinni hvort farþegar séu teknir. Hann getur vitaskuld ákveðið hvenær hann siglir skipi sínu, en í þessu tilviki verð ég að átelja það harðlega að börnin skuli hafa verið tekin um borð svo að ég fer fram á það við hæstv. ráðherra að um þetta verði tafarlaust settar reglur.