Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið rétt hjá virðulegum fyrirspyrjanda að beina til samgrh. þessari spurningu sem hér hefur verið fjallað um. Ég tek undir tillögur hennar um það að æskilegt væri að til væru reglur um það hvenær skyldi látið úr höfn við þær aðstæður sem geta skapast í sambandi við farþegaflutninga. Það er kannski erfitt að finna þeim reglum farveg, en ég tel að það væri æskilegt, ekki síst á landi eins og okkar þar sem er kannski meiri hætta á stórviðrum eins og þeim sem hér gengu yfir heldur en víða annars staðar.
    En ég vil þó aðeins taka fram að ég held að í því tilfelli sem hér hefur verið um rætt hafi ekki verið hætta á ferðum. Ég vil a.m.k. segja það að ég vil draga það í land sem hv. fyrirspyrjandi sagði að þar hafi farið betur en á horfðist. Ég tel að skipstjórinn hafi gert sér fyllilega grein fyrir því hvað hann var að gera og hann hafi vitað það að hann var með sína farþega á öruggri leið og hann mundi geta skilað þeim á sínu fari heilu í höfn. Og það tókst líka. Ég held að þarna hafi sem betur fer ekki verið nein hætta á ferðum þó að um það megi vitaskuld deila hvort í þetta skipti hafi átt að vera farþegar með skipinu eða ekki.