Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns hvað það snertir að við höfum ekki ástæðu til að ætla að hættuástand hafi nokkurn tíma skapast á þessari siglingu þann 3. febr. sl. Í bréfi sem ég hef frá Siglingamálastofnun ríkisins kemur fram að ekki sé annað vitað en sú sigling hafi gengið eðlilega fyrir sig þrátt fyrir þessar aðstæður.
    Varðandi það að setja reglur um það hvenær skipi sé heimilt að fara úr höfn með farþega og hvenær ekki, þá er það mat fagmanna að slíkt sé mjög erfitt. Það er afstaða Siglingamálastofnunar að það sé mjög erfitt að setja slíkar reglur og það hljóti fyrst og fremst að vera mat skipstjóra og á ábyrgð hans hvernig með hlutina er farið hverju sinni. Það er hin almenna regla og að sjálfsögðu mundu reglur, þó settar yrðu, ekki leysa skipstjóra á nokkurn hátt undan þeirri ábyrgð sem hann ber og verður að bera.
    Þannig er það einnig í sambandi við samgöngur á landi og flugsamgöngur. Þó að í fluginu séu tiltekin lágmörk sett varðandi skyggni og annað þvíumlíkt, þá er það að sjálfsögðu síðan á ábyrgð flugstjóra hvort hann til að mynda reynir lendingu, hættir við lendingu eða hvaða ákvarðanir aðrar hann tekur sem skipstjóri í fluginu til að tryggja öryggi farþega sinna og farsæl ferðalok.
    Eins er þetta með samgöngur á landi. Samgrn. fær af og til fyrirspurnir vegna þess að langferðabifreiðar hafa lagt upp á fjallvegi í tvísýnum vetrarveðrum o.s.frv. og þá er spurt hvort ekki eigi að banna mönnunum þessa vitleysu. En svarið er að sjálfsögðu hið sama. Það er ábyrgð þeirra sem skipstjórnarmanna, sem stýrimanna eða bílstjóra sem þeir bera lögum samkvæmt og má ekki frá þeim taka. Og sem betur fer held ég að við getum nú glaðst yfir því að yfirleitt hafa þessir hlutir gengið mjög farsællega fyrir sig og við eigum þarna á að skipa, til að mynda hvað skipstjórana á farþegaferjunum snertir hér við land, í flestum tilvikum mönnum með áratuga reynslu og farsælan feril að baki.
    Ég tek þannig til orða, og það er afstaða Siglingamálastofnunar, að það sé í öllu falli erfitt að setja þarna reglur, en ég vek athygli á því orðalagi, það er ekki sagt að það sé óhugsandi. Það er auðvitað hugsanlegt að setja reglur. Við gætum hugsað okkur að sú regla væri hreinlega sett að færi vindstyrkur yfir 11 -- 12 vindstig eða eitthvað af því tagi þannig að það teldist fárviðri á mælikvarða Veðurstofunnar, þá skyldi skipi óheimilt að láta úr höfn með farþega, eitthvað af því tagi. Yrði skipið að flýja höfn til að leita sér að öruggu lægi annars staðar yrði það að gera það án farþega o.s.frv. Slíkt er hugsanlegt en næsta erfitt þó og gildir þar hliðstætt og um t.d. ákvarðanir sem bílstjórar á langferðabílum eða fólksflutningabílum verða að taka, hvort þeir eigi að leggja út í ferð í tvísýnu veðri. En þetta er auðvitað hugsanlegt.
    Síðan er það sums staðar þannig að útgerðaraðilar sjálfir setja sér sínar eigin reglur. Það á líka við

um flugfélög. Sum flugfélög nota strangari reglur heldur en alþjóðatakmarkanir segja til um hvað veðurskilyrði snertir og þannig gæti þetta líka gerst.
    Að lokum vil ég svo benda á það atriði að þarna fara ekki alltaf saman öryggisaðstæðurnar sem slíkar og öryggi farþeganna annars vegar og vellíðan þeirra eða vist þeirra um borð hins vegar. Ég hygg að það sé miklu oftar sem sú ákvörðun er tekin að láta ekki úr höfn af umhyggju fyrir vellíðan farþeganna heldur en af hinu að menn óttist að öryggi þeirra yrði stefnt í voða. Og þetta held ég að skýri það að nokkru að yfirleitt telja menn sig hafa borð fyrir báru, ef svo má að orði komast, hvað snertir öryggisþáttinn, fyrst og fremst vegna þess að yfirleitt leggi menn ekki út í siglingu í verstu veðrum, þá fyrst og fremst vegna þess að þeir óttist að vist farþega um borð yrði svo ill að slíkt sé ekki á þá leggjandi.