Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Guttormur Einarsson :
    Virðulegi forseti. Nú þegar þessar skylmingar manna í millum eru komnar að niðurlotum þá er þó rétt að staldra aðeins við og skoða nokkuð sérstakar staðreyndir máls.
    Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út er að finna þrjú arðsemislíkön með nokkrum breytum sem valda því að ef maður reiknar út ýtrasta möguleika stærðfræðilega séð á öllum þeim skýrslum sem hægt væri að gefa út með þessum breytum, þá er fjöldinn 10 milljarðar. Setjum svo að aðeins sé hægt að rökstyðja 0,1 ‰ af þeim skýrslum, þá sitjum við samt uppi með hundrað þúsund útgáfur. Ég vil að menn geri sér fulla grein fyrir þessum hlutum þegar verið er að ræða hve vandasamt verk það er að gera arðsemislíkön og meta líkur fyrir verðmætum hluta, ekki síst jafnumfangsmikilla hluta og Þormóður rammi er fyrir sitt byggðarlag.
    Ég hef því miður ekki orðið þess áskynja að menn fjölluðu neitt í verulegum mæli um þær geigvænlegu afleiðingar sem það mundi hafa fyrir byggðarlagið í heild ef þessi lífsbjörg, þetta fyrirtæki hyrfi þaðan. Hafa menn með nokkru móti reynt að gera sér grein fyrir því hvað fasteignaverð fyrir allt heila móverkið mundi falla þar? Hvert yrði tjón fyrir landið í heild, fyrr eða síðar, ef þessir atvinnumöguleikar hefðu glatast úr byggðarlaginu?
    Því miður getur víða að finna aðila sem vilja það öðru fremur að lífsbjörg manna, hvar sem er að finna landið um kring, komi sem fyrst á uppboðsmarkað og hana sé hægt að kaupa hvert á land sem er. Það fer ekki á milli mála að slíkar vísbendingar hefur verið að finna kannski hjá fulltrúum eins stjórnmálaflokks umfram aðra og það var mér því viss ánægja að heyra hér áðan þegar 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., tók þannig til orða að að sjálfsögðu væri eðlilegt þótt salan hefði verið gerð að fullu opinber, sem ég persónulega tel að hafi verið gert, þá ætti samt að skilyrða söluna við byggðarlagið Siglufjörð.
    Ég vona að menn haldi áfram að íhuga vandamál þjóðarinnar í heild með þeim hætti.