Stjórnarskipunarlög
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. sagði að sér kæmi mjög á óvart að ég hefði lagt til að þessu frv. yrði vísað til sérstakrar nefndar, til stjórnarskrárnefndar. Hann sagði að það hefði verið hafður sá háttur á í Nd. að vísa málinu til allshn. Ég vék að því í minni frumræðu í umræðum um þetta mál og fann að því. Og þó að þau vinnubrögð hafi verið viðhöfð í hv. Nd. er það ekkert afgerandi um það hvað hv. Ed. gerir því að það er gert ráð fyrir því að svo geti farið að máli sé vísað til mismunandi nefnda í deildum. Það er ekki reglan en það segir í þingsköpum að að jafnaði skuli vísa til sömu nefndar. En þá er átt við fastanefndir þingsins og breytir ekki því að það er það eina eðlilega í þessu tilfelli sem hér um ræðir að vísa málinu til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar.
    Ég vil til áréttingar þessu láta það koma hér fram sem ég sagði að væri viðtekin venja. Ef litið er á það kemur í ljós að stjórnarskrárbreytingin samkvæmt stjórnskipunarlögum nr. 16/1903 var afgreidd með þeim hætti að vísa til stjórnarskrárnefndar. Stjórnskipunarlög nr. 12/1915 voru afgreidd á þann hátt að málinu var vísað til stjórnarskrárnefndar. Frv. um stjórnarskrá, að lögum nr. 9/1920, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, var vísað til stjórnarskrárnefndar, sérstakrar nefndar. Stjórnskipunarlögum nr. 22/1934 var vísað til sérnefndar, til stjórnarskrárnefndar. Stjórnskipunarlögum nr. 78/1942 var vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar. Stjórnskipunarlögum nr. 97/1942 var vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar. Frv. að lögum um stjórnarskrá, nr. 33/1944, lýðveldisstjórnarskránni, var vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar. Stjórnskipunarlögum nr. 51/1959 var vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar. Stjórnskipunarlögum nr. 9/1968 var vísað til allshn. Stjórnskipunarlögum nr. 65/1984 var vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar.
    Ég hef hér farið yfir allar breytingar á stjórnarskránni sem hafa verið gerðar á þessari öld og í öll skiptin hefur frv. að þessum breytingum verið vísað til sérnefndar, til sérstakrar stjórnarskrárnefndar, nema í einu tilfelli sem ég nefndi. Það var árið 1968, en þá var sú breyting gerð á stjórnarskránni, sú ein, að kosningaaldur var færður niður um eitt ár, úr 21 ári í 20 ár.
    Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég legg áherslu á það að það er ekki við hæfi, þó að ekki sé tekið sterkara til orða, ef þessu frv., sem við nú höfum til meðferðar, er ekki vísað til sérnefndar, stjórnarskrárnefndar. Það hefur alltaf verið venja --- í tilefni af því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði --- að þegar búið er að samþykkja að vísa máli til sérnefndar, hvort sem það er stjórnarskrárnefnd eða önnur sérnefnd, þá fer fram kosning í þá nefnd sem stofnuð hefur verið.