Vísinda- og tæknistefna
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka svari þeirra sem hér eru fjarstaddir við þessa umræðu. Mér finnst það eðlilegt að hv. alþm. séu svolítið feimnir við að horfa á þessa vissulega ágætu stefnu sem hér er sýnd og kynnt og muna svo eftir afgreiðslu fjárlaga og öðrum þingmálum í því sambandi. Það er nefnilega svo, þó að menn skirrist hér við að viðurkenna gildi hagvaxtar, þá er litlum árangri náð á þessu sviði án hagvaxtar. Það er afar mikið óraunsæi að halda það að framfarir í tækni og vísindum komi einhvern veginn af sjálfu sér án hagvaxtar og það sé hægt að krefjast þess að slík starfsemi njóti fjárhagslegs stuðnings og fyrirtæki séu þess umkomin að efla vísindarannsóknir án hagvaxtar. Ég held að það sem einmitt þessa starfsemi skortir hér á landi sé raunsæi af því tagi að menn horfist í augu við það að ýmsir þættir rannsókna eru afar kostnaðarsamir, en þeir munu skila árangri síðar meir.
    Hugsum okkur bara hversu miklu fé er varið í það sem oft eru nefndar nýjar atvinnugreinar. Menn keppast við að dæla fé í ýmsar nýjar atvinnugreinar. Við þurfum ekki að nefna mörg dæmi á umliðnum árum til þess að sjá að þar skorti ekki fé og fyrirgreiðslu í lánum og framlögum, en á því sama sviði er aftur á móti vísindaundirstaðan vanmetin. Það kemur mönnum einfaldlega í koll síðar.
    Við skulum líta á atvinnumálin. Menn tala um það hve dýrt sé að koma því sem þarf á markað. Markaðssetning hefur orðið eins konar lykilorð. En hver sinnir því þegar um er að ræða niðurstöður vísindarannsókna? Við tölum um það í hátíðlegum og fallegum ræðum, eins og hér hjá hæstv. menntmrh. áðan, hvílík undirstaða þekkingin, vísindin, rannsóknirnar séu að framförum á okkar landi. Og hvað gerist svo þegar að því er komið að styðja við bakið annaðhvort á þessum verkefnum eða því fólki sem þessi verkefni vinnur? Þá gera menn þjóðarsátt við aðra heldur en þá sem í hlut eiga í þessu tilviki að þeir skulu látnir borga brúsann af því að þeir eru búnir að undirbúa sig til vísindastarfa og afla sér þekkingar og svo á ekki að ansa því að fjármagn þurfi til þess að þessi sami mannskapur skili því verki sem þeir eru undirbúnir til og sem þeir eru tilbúnir að vinna í öðrum löndum og sem önnur lönd eru tilbúin að greiða fyrir, enda hafa þau af því aldalanga reynslu hvernig sá kostnaður skilar sér margfalt í árangri síðar í framförum í þeim hinum sömu löndum.
    Og það er rétt, því miður, sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan þegar hann vitnaði í veiðimannaþjóðfélagið. Við erum veiðimannaþjóðfélag, því miður, enn þá að svo mörgu leyti. Það er ósköp ánægjulegt á vissan hátt þegar við verðum þess vör að við séum talin sem veiðimannaþjóðfélag hafa varðveitt okkar sérstæðu menningu og fleira í þeim dúr sem sagt er stundum við okkur. Vissulega er það ánægjulegt og það skulum við gera, að varðveita okkar sérstæðu menningu. En við verðum að gera okkar atvinnulíf og þjóðlíf fjölbreyttara heldur en svarar til þess sem

veiðimannaþjóðfélög liðinna alda hafa gert.
    Og þá er ég kominn að einu atriði sem vissulega er vikið að hér í þessari ágætu skýrslu og það eru tengsl vísindastarfseminnar og byggðastefnunnar. Hér var áðan minnst á tengsl vísindastarfseminnar og hagvaxtarins. Ég tel að hagvöxturinn sé nauðsynlegur fyrir vísindastarfsemina. En ég er ekki alveg jafnviss um að framkvæmd byggðastefnunnar sé nauðsynleg fyrir vísindastarfsemina. Ég held nefnilega að þar séu stundum hagsmunir sem rekast á. Hins vegar held ég að vísindastarfsemin geti skilað árangri sem er gagnlegur fyrir framkvæmd byggðastefnunnar. Það er þess vegna meginatriði þess sem ég vildi sagt hafa í þessum fáu orðum að gott er að hafa fagra og háleita stefnu í þessum efnum en það sem meginmáli skiptir er að þær einingar, sem að þessum störfum standa, séu nægilega öflugar fjárhagslega til þess að geta sinnt því verki sem við viljum láta vinna og menn gleymi því ekki að hagnýtar rannsóknir, sem svo eru nefndar af því að þær eru í beinu sambandi við atvinnuvegina og eru vissulega nauðsynlegar, byggjast á grunnrannsóknum sem eru dýrar og með langtímamarkmið í huga, en því þurfum við að geta sinnt. Það eru því miður dæmi sem við vitum um og hv. þm. margir muna kannski eftir að þegar slíkar rannsóknir eru á þröskuldi þess að ná þeim árangri að þær fari að skila fjárhagslegum ávinningi fyrir þjóðfélagið, þá er sagt: Nú getur þessi starfsemi bjargað sér sjálf og þá hættir stuðningurinn og þá er ekki lengur hægt að sinna neinni markaðssetningu sem svo er nefnd. Á meðan við takmörkum okkur einungis við það að ýta hlutunum af stað en hjálpa þeim síðan ekki áleiðis, þá getum við ekki vænst þess að slík starfsemi skili þeim árangri í þjóðarbúið sem við tölum oft um í hátíðaræðum, að íslenskt hugvit og þekking sé undirstaða framfara á Íslandi. Víst er að það verður undirstaða enn meiri framfara og betra og fjölbreyttara þjóðlífs ef við styðjum enn betur við bakið á þessum greinum og því fólki sem vinnur að þeim.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt fram þetta plagg. Þarna hafa vissulega margir færir aðilar lagt hönd á plóginn. En ég vonast til þess að það verði ýmsar raunhæfar ráðstafanir gerðar til þess að betur verði staðið að þeim stuðningi sem hér er greinilega sýnt fram á að þörf er á og m.a. með því að styðja fyrirtæki með ýmsum lagaákvæðum til þess að þau sjái sér hag í því að veita vísindarannsóknum stuðning.