Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar, frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum, hefur þegar fengið umfjöllun í sjútvn. Hæstv. ráðherra nefndi það að honum fyndist að þetta væri góð leið og væri kannski rétt að um mörg frumvörp væri fjallað í nefndum þingsins áður en þau væru tekin til 1. umr. Ég tek undir þetta sjónarmið, en það fylgir minni skoðun að ég tel að eftir að málið er síðan komið til nefndarinnar aftur megi ekki líta á þá vinnu sem unnin hefur verið á undan því að málið kom til nefndarinnar þannig að það sé ekki gefinn tími eða takmarkaður tími til umfjöllunar eftir að málinu hefur verið vísað til nefndarinnar. (Gripið fram í.) Þegar jafnvel það langt er gengið að hv. þm. mælast til þess að mál séu tekin út úr nefnd áður en þeim hefur verið vísað til hennar, þá er nú skörin farin að færast upp í bekkinn. Ég vil vona það að umfjöllun um þetta mál verði ekki því marki brennd eins og því miður hefur verið ansi oft um sjávarútvegsmál hér á hv. þingi að það verði aðalatriðið að koma málinu sem hraðast í gegnum hv. Alþingi. Ég lít þannig á að það sé mikið atriði að einmitt mál eins og sjávarútvegsmál, þau snerta flesta aðila í okkar þjóðfélagi, að það sé ekki gert á þann máta eins og gert hefur verið oft áður. Það er ekki aðeins það að umfjöllunin verði takmörkuð hér inni á hv. Alþingi, heldur er það líka að þeir aðilar úti í þjóðfélaginu, sem vilja fjalla um málin og ættu að fjalla um málin, hafa ekki tíma og ekki möguleika til að skoða málin eins og þyrfti. En ég tel að þau vinnubrögð sem hér hefur verið beitt í sambandi við þetta mál séu af hinu góða. Það er að mörgu leyti notalegt og heppilegt að fá upplýsingar frá þeim aðilum sem kallaðir eru til nefndarinnar áður en 1. umr. fer fram. Það getur bæði verið á þann veg að menn sleppi ýmsum fyrirspurnum sem annars þyrfti kannski að beina sérstaklega til ráðherra eða að þættir komi upp sem mönnum finnst mikilsvert að ræða.
    Þetta frv. er á vettvangi fjölmiðla a.m.k. og ég hugsa víða í þjóðfélaginu orðið að lögum fyrir löngu síðan. Umræðan hefur verið þannig að það hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum hvernig þessir hlutir mundu nú verða, hve mikið þessi og þessi fengi og á hvern hátt framkvæmd laganna yrði. Það var farið að fjalla um lausn þessa máls --- ja, ég held að það hafi verið fyrir áramót sem maður fór að heyra það, að hæstv. sjútvrh. fór að tala um það að það þyrfti að beita 9. gr. fiskveiðilaganna til þess að hjálpa sérveiðiflotanum. Og jafnvel í fyrstu ekki talað um það að sá lagabókstafur væri neitt vondur. En svo breytist allt þegar yfir áramótin kom. Þá hefur sjálfsagt ráðherra og fleiri fundið fyrir því að það var ekki nein sérstök hrifning kringum 9. gr., að beita ákvæðum 9. gr., þessarar góðu greinar sem sett var í fiskveiðilögin á sl. vori sem talinn var hinn mesti nauðsynjaþáttur þar inni. Og þá var fundið upp það snjallræði að í staðinn fyrir það að beita 9. gr., eins og ráðherra var búinn að útlista að mundi vera þörf á að gera við þessar aðstæður og lagalegur réttur til, þá datt mönnum allt í einu í hug að nota Hagræðingarsjóðinn.
    Það þarf þó nokkra hugkvæmni til, ekki eingöngu til þess að nota þennan sjóð, sem var ætlaður til allt, allt annarra hluta, heldur líka til þess að segja það að með því að taka 8000 þorskígilda kvóta úr Hagræðingarsjóði, þá væri hann bara frá engum tekinn. Þeir sem ættu bolfiskkvóta yrðu ekki skertir. Það lægi í hlutarins eðli. Þetta væri kvóti sem hefði orðið til af sjálfu sér og það mundi ekki hafa nein áhrif á veiðimöguleika þeirra sem sjó sækja og hafa til þess aflaheimildir úr bolfiskinum.
    Maður hefur fundið fyrir þessu áður að frumvörp eða hugmyndir um leiðir til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins hafa verið orðin að lögum áður en þau hafa komið hér inn í hv. Alþingi. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti og þess vegna skal ekkert sérstaklega kippa sér upp við það.
    En hvað er verið að leggja til með þessu frv. og hver skyldu vera þau vandamál sem þarf að leysa? Vandamálin eru dálítið víðfeðm. Aflabrestur á loðnu orsakar fjölþætta erfiðleika. Það er í fyrsta lagi að með aflabresti á loðnu gerist það að við því starfsfólki, sem hefur unnið við loðnuna í landi, blasir atvinnuleysi. Það blasir við atvinnuleysi eða minnkandi atvinna hjá fjölda fólks hringinn í kringum landið vegna þess að loðnuverksmiðjur eru staðsettar frá Bolungarvík austur um og til Akraness, austur og suður um og til Akraness. Það er vitaskuld nokkuð mismunandi hjá verksmiðjum en alls staðar mun þessara hluta gæta, að atvinnan minnki hjá öllum og sums staðar verður atvinnuleysi eins og þegar er orðið upplýst að við blasir hjá ríkisverksmiðjunum en þær eru fyrst og fremst norðanlands og austan og þeirra starfsliði hefur þegar verið sagt upp. Það skapast líka vandamál hjá starfsfólki þjónustustofnana sem voru viðbúnar því að þjónusta loðnuveiðiflotann á þessum stöðum, fyrir Norðurlandi og Austfjörðum, t.d. í verslunum, netaverkstæðum kannski sérstaklega, vélaverkstæðum og fleiru og fleiru. Þessu tengjast líka vandamál sem koma upp hjá sveitarfélögunum. Með minnkandi veltu í byggðarlögunum kemur það af sjálfu sér að aðstöðugjöld minnka og með minnkandi tekjum starfsfólks, hvort sem það er hjá loðnuverksmiðjunum eða þjónustustofnunum í byggðunum, þá minnka tekjur hjá sveitarfélögunum og vitaskuld skapar þetta keðjuverkun á öllu því sem er að gerast í þessum byggðum, minnkandi athafnir. Og ekki nóg með það að sveitarfélögin tapi aðstöðugjaldi og útsvari beint vegna loðnubrestsins og afleiðinga þess, heldur gerist það að hafnirnar, sem yfirleitt eru lífæðar þessara byggða, tapa stórum hluta af sínum tekjum. Og eins og ég hef nefnt áður, þá eru á flestum þessum stöðum þjónustustofnanir sem hafa búið sig undir það að sinna loðnuflotanum og því sem er umleikis í kringum loðnuvinnsluna. Ég nefndi þar verslanir, netaverkstæði, vélaverkstæði. Allir þessir þættir, staða allra þessara aðila skerðist. Þetta er að gerast hringinn í kringum landið vegna þess að það er staðreynd að við höfum lent í því að það er aflabrestur á loðnu. Og því miður var hæstv. sjútvrh. að upplýsa það nú í ræðu sinni að síðasta könnun hafrannsóknaskipanna um stærð loðnuflekksins undan Suðurlandi hafi staðfest fyrri mælingar þannig að við getum ekki lifað í voninni um að úr rætist á þessu sviði.
    Enn þá erum við að reyna að lifa í voninni um að það rætist úr á öðru sviði í sambandi við aflabrögð. Enn höfum við von um það að Grænlandsþorskurinn sýni sig þó að með hverjum deginum sem líður minnki sú von og þær líkur. En við vonum samt enn þá að úr því geti ræst þó að þannig líti nú út fyrir með loðnuveiðistofninn, að hann sé ekki stærri heldur en þær mælingar sýna sem síðastar hafa verið, þ.e. áður en síðasta úthlutun fór fram. Þetta er nú staðan í mörgum fiskiþorpum frá Bolungarvík til Akraness.
    En eru ekki fleiri vandamál uppi í þessum byggðum? Því er nú verr og miður. Flestar þessar byggðir byggja afkomu sína að stórum hluta til á bolfiskafla og þar eru að gerast sömu hlutirnir. Það er kannski of stórt að segja að það sé skollinn á aflabrestur þar en það er mjög nálægt því vegna þess að á síðustu árum hafa aflaheimildir í bolfiski verið skertar um 24%. Við vorum upplýst um það í sjútvn. í gær af forstjóra Hafrannsóknastofnunar Jakob Jakobssyni, að ef ekki rættist úr með Grænlandsgönguna, þá mættum við búast við því að við fengjum skerðingu á veiðiheimild í bolfiski, í þorskinum, um 40 -- 50% á næstu árum, þ.e. möguleg aflaúthlutun á þorski á næsta ári, næsta veiðitímabili, næsta veiðiári yrði 200 -- 250 þús. tonn.
    Þessi mynd, bæði aflabresturinn á loðnunni og það sem blasir við og það sem við búum við í sambandi við bolfiskaflann, getur varla þýtt neitt annað en einn hlut sem við viljum síst af öllu nefna eða taka trúanlegt að yfir okkur dynji. Það er hreinlega að ef ekki verður einhvers staðar bjartara fram undan á næstu missirum heldur en við horfum á núna, þá þýðir það ekkert annað heldur en byggðaröskun. Undirstöðuatvinnuvegirnir sem halda uppi sjávarbyggðunum okkar hringinn í kringum landið ( Gripið fram í: Það þýðir meiri byggðaröskun. Það er byggðaröskun.) ef þeir skila ekki því sem til þarf til að halda uppi sæmilegum tekjum í þessum byggðum, halda þar uppi venjulegri þjónustu sveitarfélaga. Getur ekki þýtt annað.
    Þetta er dökk mynd og ég sé ekki að það séu nokkur rök fyrir því að á sama tíma og við blasir sú mynd sem ég hef verið að nefna hér í sambandi við þorskveiðiflotann, þorskveiðibyggðirnar, þá sé hægt að leggja það til hér á hv. Alþingi að það sé hægt að bjarga nokkrum með því að skerða þessa stöðu. Þó það sé lítið, þá er það allt í þá áttina. Þessi 8000 tonn, sem lagt er til í þessu frv. að verði tekin úr bolfisksstofninum og færð yfir til loðnuskipanna, koma ekki til með að hrygna næsta vetur eða vera í veiðistofninum næsta ár. Það er alveg fráleitt að láta sér detta það í hug að leysa vanda ákveðins hóps veiðiskipa á kostnað annarra. Það er hægt að gera það kannski við sérstakar góðar aðstæður, en alls ekki við þær aðstæður sem við búum við í dag eða við blasa.
    Vandi loðnuskipanna er mikill. Ég hef nefnt vanda

sveitarfélaga, hafna, verksmiðjanna lítillega og starfsfólksins en ég tel að þó að vandi loðnuskipanna sé mikill, þá sé hann þó minnstur af öllum þessum aðilum sem ég hef nefnt hér. Og hann er líka auðveldastur til lausnar vegna þess að hann liggur svo klár fyrir. Það er augljóst hver skaði hefur þar orðið. Hann er augljós. Það er vont til þess að hugsa að því var hafnað og hefur verið hafnað af eigendum þessara skipa á undanförnum árum að byggja sér upp sinn eigin aflatryggingasjóð. Maður heyrði jafnvel þau orð frá --- ja, ég vil ekki segja eigendum þeirra heldur frekar umboðsmönnum --- að þegar búið væri að koma á því fiskveiðikerfi sem við búum við, þá þyrfti ekki neina slíka tryggingasjóði. En eins og hv. 4. þm. Suðurl. benti á hér áðan, þá megum við alltaf búast við því að aflabrestur eigi sér stað á loðnuveiðum, enda er það hlutur sem við vitum um að hefur gerst með nokkurn veginn ákveðinna árafjölda millibili. En þessu var hafnað. Og í umræðunum um 9. gr. við undirbúninginn að fiskveiðifrv. á sl. vetri var ágæti 9. gr. útmálað og talin alger fjarstæða þegar ég hélt því fram þar að það ætti ekki að tryggja loðnuveiðiflotann á kostnað þorskveiðiflotans heldur ætti loðnuveiðiflotinn að byggja sér upp sinn eigin aflatryggingasjóð. Þá var því hafnað. Ég er ekki að segja að sá sjóður hefði verið það burðugur í dag að hann hefði getað tekið við þessum skelli, en það hefði þá verið búið að benda á leið sem væri til að tryggja rekstur þessa flota til framtíðar. En því var hafnað af eigendunum og því var hafnað af hæstv. sjútvrh. Talið betra að láta hlutina reka á reiðanum, eins og raun ber vitni, og sjá svo til þegar vandamálin kæmu upp hvort það væri ekki hægt að hlaupa yfir í þorskstofninn og láta hann standa undir þeim skelli sem við blasir núna og gæti komið oftar.
    Það var svolítið sérstakt þegar það fór að kvisast, þegar menn fóru að verða varir við það á miðunum hvað loðnan gaf sig lítið til, þá var strax byrjað að ræða um að það þyrfti að bjarga loðnuveiðiflotanum. Menn höfnuðu því ekki neitt. Þetta eru mikilsverð atvinnufyrirtæki sem eru undirstaða þess að atvinna haldist í þeim byggðum sem ég hef verið að margnefna hér á undan. Vitaskuld gerðu menn sér grein fyrir því að þarna þurfti að leysa vanda, en það var ekki eðlilegt að umræðan snerist á þann veg eins og hún hefur verið og eins og henni hefur verið haldið til, á þann eina veg að þau vandamál sem fyrst og fremst þyrfti að leysa væru tengd þessum skipum. Og eins og ég nefndi hér í upphafi, þá byrjuðu ráðamenn á því að tala um að sú lausn sem við blasti til þess að leysa þennan vanda væri sú að koma vandamálunum yfir á aðra aðila í þjóðfélaginu, aðra aðila sem væru kannski ekki betur undir það búnir heldur en þessi loðnuskip. Það var strax farið að tala um þorskinn og það var farið að tala um 9. gr. Og svo merkilega vildi til að umræðan hélt þannig áfram hér inni á hv. Alþingi, eða svona a.m.k. í ráðuneytunum, þar til hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson og aðrir þingmenn af Norðurlandi ýttu við ráðamönnum um það að vandinn væri mikið stærri en þetta. Í sameinuðu þingi var

umræða um tillögu þessara þingmanna, en hún var ekki tekin alvarlegar en það að hvorki forsrh. né aðrir --- ja, ráðherrar sem fengust við atvinnumál, ég held að ég fullyrði það að félmrh. var þar ekki og ekki heldur iðnrh., en hæstv. sjútvrh. mun ekki hafa verið á landinu þegar þessi umræða fór fram þannig að það er ekki hægt að átelja hann fyrir að hafa verið þar hvergi nærri --- en það var eins og ríkisstjórnin, þessi trausta og örugga ríkisstjórn, ( Gripið fram í: Hver segir það?) sem sumir segja að sé og hafi fundið lausn á mörgum hlutum, hafi ekki gert sér grein fyrir því í hvaða vanda var verið að stefna. Það er ekki fyrr en 1. febr. sl. að ríkisstjórnin kemur til fundar og þá kýs hún nefnd til þess að athuga önnur vandamál, þessi vandamál sjálfsagt líka, varla hafa þau verið þarna undanskilin, loðnuskipavandamálin. Allan desember og nóvember og allan janúar er fyrst og fremst talað um vanda skipanna, en hann var mikill, og það fannst engin lausn eftir að menn voru búnir að kasta 9. gr. til hliðar. Þau lög tóku gildi 1. jan. sl. Ég segi ekki að henni hafi verið hafnað fyrir áramótin, en það voru ekki margir dagar sem hún var búin að vera í gildi þegar hæstv. sjútrh. fór að tala um að það væri ekki hægt að beita þessari grein. Hann var með ákveðin rök fyrir því, en þau rök sáu margir fyrir sl. vor, að henni mundi ekki verða beitt og ætti sjálfsagt aldrei að beita henni vegna þess að hún er í sjálfu sér óréttlát. Sjútvrh. var fyrstur manna til að lýsa því yfir að þessari grein mætti ekki beita. Og þá var það fundið upp, eins og ég sagði áður, að nota Hagræðingarsjóðinn. Þar fannst nefnilega kvóti sem væri ekki tekinn frá neinum. Og umræðan komst á þetta sígilda, góða ríkisstjórnarplan, hvort sem Alþb. eða kratar eða Sjálfstfl. eru í ríkisstjórn. Nú skal afhenda einum aðila hlut, í þessu tilfelli aflaheimildir, án þess að nokkur verði fyrir skerðingu. Nú skal leysa málin án þess að nokkur verði fyrir skerðingu, 12 þús. tonna þorskígildi verða bara tekin utan úr tóminu.
    Er þetta boðleg umræða fyrir hv. Alþingi og fyrir þá sem lenda í því að verða skertir þó að hæstv. ráðherra og aðrir segi það að þessi hluti sé tekinn bara einhvers staðar og einhvers staðar frá og enginn finni fyrir því? Við vissum flest að formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, Kristján Ragnarsson, og líka hæstv. sjútvrh. kynnu ýmislegt fyrir sér. En að búa til aflaheimildir án þess að taka það frá einhverjum, það hélt ég að fáir hefðu gert sér grein fyrir að þeir gætu.
    Úr þessu, eftir þeirri túlkun sem hér er, bæði í frv. sjálfu og því sem hæstv. ráðherra hefur sagt hér, þá þurfum við sjálfsagt ekki að vera í neinum vandræðum með það að fá aflaheimildir. Þær verða bara búnar til úr einhverjum sjóðum eins og t.d. þeim sjóði sem ráðherra ætlar sér að fara að úthluta úr núna.
    Staðreyndin er nefnilega sú að í því kerfi sem við búum við og í auðlindum sem eru takmarkaðar, eins og þær auðlindir sem við erum að ræða um hér, þá verður aldrei einum eða neinum afhent eitthvað öðruvísi en það sé verið að taka það frá öðrum. Hitt er bara blekking og ekkert annað. Það er nákvæmlega

sama aðferðin sem verið er að nota, hvort sem 9. gr. er beitt eða hvort það er tekinn kvóti úr Hagræðingarsjóði. Það er verið að taka afla og skerða flatt eins og sagt er. En það er merkilegt að þeir höfðu ekki uppgötvað þetta, þessir höfðingjar sem ég nefndi hér áðan. Fyrir nokkrum dögum voru smábátamenn vítt um landið að biðja um nokkur tonn til þess að leiðrétta ýmiss konar misfellur eða vandamál sem upp komu í úthlutun smábátakvóta. Þá kunnu þeir ekki að ná sér í kvóta svona eins og þeir gera nú í sjútvrn. Það var alls ekki hægt að finna kvóta á lausu fyrr en allt í einu þegar hæstv. sjútvrh. sá það að lögin sem samþykkt voru sl. vor var ekki hægt að nota. Það var ekki hægt að beita þeim. 9. gr. var óhæf.
    Við þessa umræðu um að nú skuli úthluta úr Hagræðingarsjóði, þá er talað með mikilli umhyggju um þá sem veiða þorsk. Og eins og ég hef nefnt áður, þá er talað um að það megi ekki breyta 9. gr. vegna þess að hún sé svo ranglát við þær aðstæður sem við búum við núna. Það hefði verið gott að heyra þetta fyrr. En það er ósköp svipaður tónn í valdsmönnunum um það hvað sé hættulegt að skerða aflaheimildir skv. 9. gr. og þar með alla jafnt og þegar þeir eru að tala um kauptaxta láglaunafólks, þá tekjulægstu í þjóðfélaginu. Þeir setja sig í sérstakar stellingar, það verði að bjarga þeirra stöðu. Nú er sagt að það verði að bjarga stöðu þeirra sem hafa þorskveiðiheimildir með því að beita ekki 9. gr. á svipaðan máta og þegar valdsmenn eru að segja og fara í samninga: Við verðum að verja þá lægst launuðu. --- Hvort tveggja er marklaust. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að tónn valdsmanna í þeim málum hafi skilað sér. ( HBl: Kjör þeirra lægst launuðu hafa versnað mest.) Gæti verið að þetta sé rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal segir, að nú um stundir hafi kjör þeirra lægst launuðu versnað mest? Og allra kannski versnað þar með. Og gætu þá verið sannindi í því að það sem hæstv. sjútvrh. er að tala um núna, að það megi ekki skerða þorskveiðikvótann með 9. gr. ( Gripið fram í: Hann segir það ekki.) Jú, jú, hann segir að það þurfi endilega að beita Hagræðingarsjóðnum. ( Gripið fram í: Já, eins og er.) Það virki á svipaðan hátt og það sem menn hafa verið að tala um þá lægst launuðu. Í báðum tilfellum er verið að tala vel til þeirra sem verið er að skerða, jafnt hvort verið er að tala um þá tekjulægstu eða þá sem nú á að skerða samkvæmt þessu frv. Það er verið að reyna að tala vel til þeirra og verið að telja þeim trú um að það sé verið að bjarga þeim þegar verið er að taka frá þeim. Og allt gert í mjög góðum tilgangi eftir þeirra útlistingum.
    Þetta frv. sem við erum að fjalla um hér leysir ekki þann vanda sem við blasir hjá öllum þeim fjölda sem tengist loðnuveiðum og vinnslu. Það leysir engan vanda að færa vandann yfir á aðra, jafnvel aðila sem eru verr staddir en þeir sem á að fara að hjálpa. Aðalatriði þessa frv. er tillaga um slíka leið.
    Þau vandamál sem blasa við í sambandi við loðnubrestinn eru margþætt. Það á ekki að taka þar eitt vandamál út úr, jafnvel þó að það verði leyst á sérstakan hátt eins og hér er lagt til. Þeir sem eiga í

vandræðum á öðrum sviðum eiga kröfu á því að þeirra vandamál séu ekki skilin eftir. Þau verði leyst jöfnum höndum og í tengslum við þann þátt þessa máls sem hér er fjallað um. Því ætti að fresta þessu máli nú. Það er sjálfsagt að ljúka þeirri umræðu sem hér stendur yfir, en láta málið síðan bíða í nefnd og skoða vandamál sveitarfélaganna, verksmiðjanna, hafnanna, þjónustustofnananna og verkafólksins og íbúa þeirra byggða sem vandamálið tengist og leita að sameiginlegri lausn.
    Áhugi ríkisstjórnarinnar á þessu vandamáli hefur verið mjög takmarkaður eins og ég hef hér lýst. Sjútvrh. var oft búinn að nefna það að færa vandann til milli fyrirtækja og útgerðarþátta þegar ríkisstjórnin tók á sig rögg og skipaði nefnd til að fjalla um viðbrögð vegna loðnubrests. Þótt fimm ráðuneyti hafi fjallað um vandann eru tillögur þeirra varla burðugri en það frv. sem við fjöllum hér um. Það vakna miklu fleiri spurningar heldur en svarað er í því plaggi sem fylgir hér frv. sjútvrh., upplýsingar frá þessari nefnd. Það vaknar t.d. sú stóra spurning í sambandi við loðnuverksmiðjurnar: Hvaða verksmiðjur á að úrelda? Hverjar eru tillögur þessarar nefndar í því máli? Að slá hér fram þegar á að fara að leysa vandamál byggða að það þurfi helst að leggja niður þessa eða þessa verksmiðjuna, það tel ég mjög vafasaman hlut. Og að segja að það eigi að tengjast þessum vanda að fækka verksmiðjum kannski vítt um landið. Er þetta verksmiðjan á Raufarhöfn? Er þetta einhver hluti verksmiðjunnar á Siglufirði? Eða er þetta verksmiðjan á Þórshöfn, Neskaupstað eða hvar sem er? Svona uppsláttur eins og hér á sér stað er ekki réttur og síst af öllu við þá stöðu sem við búum við í þjóðfélaginu núna, þá erfiðu stöðu byggðanna vítt og breitt um landið. Og það eru ýmsir aðrir þættir sem hljóta að vekja spurningar í þessum tillögum eða yfirferð nefndarmanna, en ég ætla að láta það eiga sig að fjalla um það sérstaklega núna. Það kemur til þess tækifæri við 2. umr.
    En nú spyrja sjálfsagt ráðherrar og ríkisstjórnin, samstarfsflokkar: Ef þið teljið ekki okkar ráð góð, hvað viljið þið þá gera? Þetta er dálítið sígild spurning. Við höfum heyrt hæstv. sjútvrh. segja það ansi oft að við sem höfum verið að andæfa gegn fiskveiðistjórninni hefðum ekki neinar tillögur í þeim málum. Ég hef ekki viljað taka undir það og hef borið á móti því að svo sé, en samt hefur þessari fullyrðingu verið beitt ansi oft. Þetta eru nefnilega sígild svör þeirra sem ráða ekki við verkefni sitt eða vilja ekki leysa það. Sá sem er með ráðherravald á að hafa möguleika til að skoða ýmsar leiðir þegar leysa þarf vandamál líkt og þau sem hér blasa við. Ráðherra hefur tækifæri til að skoða málin betur en þingmenn og hefur tekið það að sér að undirbúa lagafrumvörp á þann veg að í þeim sé ekki tilætlun um að mismuna í þjóðfélaginu.
    Í því frv. sem hér er til umfjöllunar er ákvæði um mismunun gagnvart aðilum, bæði gagnvart þeim öllum sem standa frammi fyrir vandamálum tengdum loðnubrestinum og þeim sem á að hjálpa og þeim sem

á að taka frá sem í þessu tilfelli eru þeir aðilar sem tengjast þorsk - og bolfiskveiðum hringinn í kringum landið.