Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um leikskóla. Frv. hefur í raun og veru þegar fengið þó nokkra umræðu eða forsendur þess í tengslum við frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hefur verið hér til meðferðar á tveimur eða þremur síðustu fundum þessarar virðulegu deildar. Ég mun nú víkja að einstökum efnisatriðum frv. og forsendum þess, bæði hugmyndalegum forsendum og fjárhagslegum og gera grein fyrir þeim málum jafnharðan. Þetta er frv. sem hefur verið þó nokkurn tíma til meðferðar. Skipuð var nefnd í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, sem mynduð var í september 1988, en þar segir að undirbúa skuli lög um forskólastig. Nefndina skipaði ég síðan 25. jan. 1989 til að endurskoða lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, í þeim tilgangi að skapa ramma um nýtt skólastig, forskólastig, fyrir börn undir skólaskyldualdri. Nefndinni var einnig falið að gera áætlun um uppbyggingu og rekstur dagheimila og leikskóla næstu tíu ár og um æskilegt fyrirkomulag á stofn - og rekstrarkostnaði.
    Í nefndinni áttu sæti Ásmundur Stefánsson hagfræðingur, forseti Alþýðusambands Íslands, Bergur Felixson, framkvæmdastjóri Dagvistar barna í Reykjavík, Gerður G. Óskarsdóttir, ráðunautur menntmrh. í uppeldis- og skólamálum, Guðrún Alda Harðardóttir, fóstra, Gunnhildur Gísladóttir efnafræðingur, Hallgrímur Guðmundsson, nú bæjarstjóri í Hveragerði, Sigríður Lillý Baldursdóttir eðlisfræðingur, sem hefur setið á þingi sem varamaður iðulega fyrir hönd Kvennalistans, Kristín Á. Ólafsdóttir borgarfulltrúi, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, sem einnig hefur setið á Alþingi fyrir hönd Alþfl., Selma Dóra Þorsteinsdóttir, formaður Fóstrufélags Íslands, Svandís Skúladóttir deildarstjóri og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Sóknar. Ólafur Guðmundsson, þáverandi deildarstjóri í menntmrn., var formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði áliti með þeim hætti að hún sendi frá sér tvö frv. Annars vegar frv. til laga um leikskóla og hins vegar frv. til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla.
    Allir nefndarmennirnir tóku þátt í gerð frumvarpanna en Ásmundur Stefánsson tók þó ekki þátt í samningu frv. um leikskóla, en hann tók aftur á móti þátt í smíði frv. um fjármögnun og ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla. Bergur Felixson skilaði séráliti sem birt er sem fskj. með frv. þessu.
    Frv., eins og nefndin lagði það frá sér á sínum tíma, er birt í heild með þessu frv., en frv. tók nokkrum breytingum í meðförum ríkisstjórnarinnar, bæði í fyrravetur og sömuleiðis nú í vetur í tengslum við umræður sem fram fóru á milli stjórnarflokkanna um framlagningu þessa frv. og frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Eins og fram kemur í yfirliti á síðu 12 í þskj. þá eru fjögur fylgiskjöl með því, þ.e.:
    1. Frv. til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla og fjármögnun dagvistunar forskólabarna.
    2. Tillaga frá forskólanefnd um átak í menntun fóstra.
    3. Frv. til laga um leikskóla eins og það kom frá forskólanefndinni.
    Loks birtast fjölmargar umsagnir sem bárust menntmrn. fyrir 12. okt. 1990, en umsagnir sem síðar hafa borist eru ekki prentaðar hér með en verða að sjálfsögðu aðgengilegar fyrir hv. menntmn. þegar hún fær málið til meðferðar.
    Helstu rök að baki þess að leikskóli er uppeldis- og menntastofnun og heyrir þar af leiðandi undir menntmrn. og yfirstjórn þess, eru þessar:
    Vandaðar, ítarlegar rannsóknir, m.a. erlendis og hérlendis, sýna fram á að börnum sem byrja snemma í góðum leikskólum gengur betur í skólum og atvinnulífinu síðar meir miðað við börn sem ekki hafa verið í leikskólum. Íslenskir foreldrar hafa frá upphafi þess að fyrstu leikskólar voru settir á stofn óskað eftir leikskóla, fjórum tímum, fyrir börn sín. Hefur þetta verið óháð atvinnuþátttöku kvenna þó svo að þörfina fyrir lengingu leikskóladags megi sjá í ljósi þjóðfélagsbreytinga og aukinnar atvinnuþátttöku kvenna. Þannig hafa foreldrar í þessu landi talið leikskólann hafa uppeldislegt og menntunarlegt gildi fyrir börn sín, talið leikskólann fyrsta skóla barnsins.
    Menntun við hæfi er, eins og kunnugt er, réttur hvers og eins þjóðfélagsþegns, óháð kyni, þjóðerni, trúarbrögðum, félagslegum aðstæðum og ekki síst aldri hans og þroska, eins og margoft hefur verið staðfest í íslenskri löggjöf. Menntakerfi þjóðarinnar á öllum stigum, þ.e. frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu, gegnir stærra hlutverki í samfélagi nútímans en nokkru sinni fyrr.
    Nútímafjölskylda þarfnast skóla fyrir börn sín á öllum aldursskeiðum, skóla þar sem starfsemin er og verður viðbót við það er foreldrauppeldið getur veitt. Aldrei á æviskeiði einstaklingsins verða eins mikilvægar breytingar og á sex til sjö fyrstu æviárunum. Mikilvægt er að hlúa að fyrstu bernskuárunum og er því öllum þjóðfélögum nauðsynlegt að standa vel að uppeldi og menntun leikskólabarna.
    Fræðimenn sem núna reyna að sjá inn í framtíðina fullyrða að framtíðarmenntun felist fyrst og fremst í því að móta virka og skapandi einstaklinga með sjálfstæða hugsun og samvinnuhæfileika. Þannig byggist þjóðfélag okkar tíma að verulegu leyti á þeirri þekkingu og færni sem einstaklingar öðlast, svo og hæfileikum einstaklinga til samvinnu. Þessa færni þurfa börn nútímans að þróa í samspili við foreldra og fjölskyldu, en því til viðbótar við fjölbreytt verkefni og samvinnu við önnur börn undir handleiðslu sérmenntaðs fólks. Í dag eru það því fáir sem efast um gildi leikskólamenntunar fyrir barnið og þjóðfélagið allt, þó að þeir hafi verið margir fyrir allmörgum áratugum.
    Eins og kunnugt er hafa leikskólar mjög lengi, eða frá því að fyrst voru sett lög um starfsemi þeirra á Íslandi, verið skilgreindir sem menntastofnanir og málefni þeirra hafa heyrt undir menntmrn. Menntunarlegar forsendur liggja því að baki innra starfi leikskóla. Þannig hefur leikskólinn verið í vissum skilningi skólastig en með þessu frv. er ætlunin að lögfesta leikskólann sem formlegt skólastig. Það er nauðsynlegt, og um það eru í rauninni allir sammála, að eitt fagráðuneyti fari með yfirstjórn menntamála á öllum skólastigum. Á þann eina hátt er mögulegt að hafa yfirsýn og marka framtíðarstefnu í menntunarmálum þjóðarinnar. Yfirstjórn leikskóla og grunnskóla þarf að vera sú sama og tryggja verður samfellu í menntun leikskólabarna og grunnskólabarna. Engar stórar þroskabreytingar verða að sjálfsögðu hjá barni sem hættir fimm eða sex ára í ágúst í leikskóla og þar til það byrjar fimm eða sex ára í september í grunnskóla. Börn eiga rétt á að samfella sé í uppeldi þeirra og menntun og að starfsemi og aðbúnaður í leikskóla og neðstu bekkjum grunnskóla sé sem líkastur.
    Á allra síðustu árum hefur samstarf aukist á milli leikskóla og grunnskóla. Þannig hafa fóstrur og kennarar í auknum mæli sameinast um að draga úr þeim skilum sem verða þegar barn yfirgefur eitt skólastig og byrjar á öðru skólastigi. Náið og markvisst samstarf leikskóla og grunnskóla kallar þess vegna á sömu yfirstjórn.
    Á undanförnum missirum höfum við í menntmrn. unnið að því að móta heildarstefnu í skólamálum, frá leikskóla til fullorðinsfræðslu, og við höfum jafnframt tekið mikilvægar ákvarðanir í þeirri stefnumótun og við framkvæmd hennar. Í því sambandi má segja að um málin hafi í raun og veru ríkt mjög góð samstaða, mjög góð hugmyndaleg samstaða. Því er hins vegar ekki að neita, og yfir það skal ekki reynt að draga fjöður hér úr þessum ræðustól, að það hafa verið deilur um málin að sumu leyti og menn hafa viljað í rauninni ýta þessum málum út af borðinu hjá sér með almennum kostnaðarröksemdum. Menn hafa sagt sem svo: Ef þessar hugmyndir koma til framkvæmda á næstu tíu eða tuttugu árum, þá þýðir það svo og svo mikinn kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin í landinu og/eða ríkið. --- Og það er rétt. Það þýðir það.
    Það er hins vegar alveg augljóst mál að þeir foreldrar, sem núna búa við þær aðstæður sem þekktar eru, að þurfa að þeytast á milli gæslustaða fyrir börn sín en hafa ekki örugga dagvistun, verða að leggja fram gífurlega fjármuni sem ekki hafa verið teknir saman í einstökum atriðum. Ég lét líta á það mál núna á sl. ári hversu mikill kostnaður gæti þar verið á ferðinni hjá foreldrunum. Mér sýndist í fljótu bragði að þar gæti verið um að ræða kostnað sem á einu ári næmi 1,2 til 1,7 milljörðum kr. Það er mjög erfitt að áætla þetta nákvæmlega vegna þess að rannsóknir liggja ekki fyrir.
    Sá kostnaðarauki við, mér liggur við að segja, fullbúið dagvistar- eða leikskólakerfi sem gert er ráð fyrir hér í þessu frv. er 1,5 milljarðar kr. á ári. Til samanburðar má kannski geta þess að framlög ríkisins eins til grunnskóla á þessu ári eru 4500 millj. kr. eða þreföld þessi upphæð. Ég segi það fyrir mig, eftir að hafa farið yfir þessi skólamál og uppeldismál nokkuð rækilega núna síðustu missirin, að ef ég væri að koma

að ónumdu skólalandslagi á Íslandi, þar sem enginn skóli hefði verið fyrir, þá mundi ég byrja á að byggja upp leikskólann. Ég mundi byrja á að byggja upp leikskólann vegna þess að ég held að þau slys sem oft verða í þeim efnum, þau slys sem oft verða einmitt á þeim aldri þegar börnin eru viðkvæmust, séu með þeim hætti að afleiðingunum verður ekki breytt þrátt fyrir góðan grunnskóla og framhaldsskóla. Því fyrir utan hin beinu útgjöld foreldranna í þessu efni sem ég var að drepa á, þá er það ljóst að kostnaður þjóðfélagsins almennt vegna vanrækslu við börnin á þessu stigi, á þessum aldri, er gríðarlegur. Ég tel því þegar menn eru að reyna að varpa skugga á þetta mál með því að segja að hér sé um að ræða óraunsæjar kröfur í kostnaði, þá held ég að það sé á misskilningi byggt, ég held það sé ekki um það að ræða að hér sé um stórfelldar kostnaðartölur að ræða. Ég vísa því a.m.k. algjörlega á bug að það séu stórar kostnaðartölur miðað við tjónið sem verður í þjóðfélaginu af því að þessum málum er ekki sæmilega sinnt.
    Nú skulum við ímynda okkur, virðulegi forseti, að það hefði gerst árið 1974 þegar grunnskólalögin voru sett að kostnaður við framkvæmd þeirra til ársins 1991 hefði þá verið reiknaður út og sagt við þingheim: Þetta mun ákvörðun ykkar kosta. Hún mun kosta í raun og veru tvöföldun á framlögum til grunnskólans frá því sem er á árinu 1974 til ársins 1991. Ég er sannfærður um það að einhverjir hefðu hrokkið við ef þeir hefðu séð þá tölu. Ég er svo sem ekkert hissa á því þó að menn hrökkvi við þegar þeir sjá leikskólatöluna sem við næðum kannski eftir 10 ár eða svo samkvæmt þessu máli eins og það liggur hér fyrir. En allt um það er það þó alveg ljóst að þeir sem hefðu 1974 eða 1934 talað um það að hér ætti ekki að reka grunnskóla á vegum ríkisins heldur á vegum sveitarfélaganna, að sveitarfélögin ættu ein að sjá um barnafræðslu í landinu, og að menn væru á móti því að styrkja skólann eins og þrátt fyrir allt hefur verið gert á árinu 1934 eða 1944 og ef við kæmumst í slíkar ræður í þingtíðindum þá mundu þær verða samfellt skemmtiefni hér í þessum sal. Þær væru minnisvarði um afturhaldsviðhorf sem sem betur fer heyrast ekki og hafa ekki heyrst um margra áratuga skeið. Ég segi þetta vegna þess að þeir sem nú eru að streitast á móti því að viðurkenna þann veruleika að við verðum að eiga góðan leikskóla, það verður gaman fyrir framtíðina að lesa um þau viðhorf í þingtíðindum ársins 2010. Og ég vona að enginn þingmaður, og ég veit það reyndar, að enginn þingmaður hefur áhuga á því að gera sjálfan sig að slíku skemmtiatriði.
    Ég tel, virðulegi forseti, að það hafi verið óhjákvæmilegt að hafa nokkurn almennan inngang að þessu máli áður en ég kem að kynningu þess í heild. Ég mun nú víkja nokkuð að efni frv. sem slíks án þess að fara allt of nákvæmlega út í einstök atriði. Ég gæti auðvitað bætt við þennan almenna inngang því að þjóðfélagið sjálft, atvinnulífið og efnahagslífið og kjaramálastefnan í landinu hafa fyrir löngu sagt það við þjóðþingið og bæjaryfirvöld og sveitarstjórnir: Það

verður að taka á þessum málum.
    Hér á landi er atvinnuþátttaka kvenna meiri en nokkurs staðar annars staðar og það kom reyndar fram í máli sem við vorum að tala um í gær, sem var mótun vísinda- og tæknistefnu til ársins 2000, að svo að segja allur hagvöxtur hér sl. áratug á rætur að rekja til aukinnar útivinnu kvenna. Jafnljóst er hitt að við höfum ekki mætt þessum veruleika með sæmilegu skjóli fyrir börnin, því miður, og það frv. sem hér liggur fyrir er tilraun í þá átt. Áður en ég kem að einstökum atriðum málsins vil ég svo undirstrika það líka að um þetta mál, leikskólafrv. sem slíkt, er fullt samkomulag í núverandi ríkisstjórn. Fullt samkomulag á milli stjórnarflokkanna. Og þó að það sé skammur tími eftir af þinghaldinu nú, þá vænti ég þess að þinginu auðnist að afgreiða málið.
    Í frv. er hugtakið leikskóli notað yfir þá starfsemi sem hingað til hefur verið nefnd dagheimili ef um heilsdagsdvöl barna hefur verið að ræða og leikskóli ef um hálfsdagsdvöl hefur verið að ræða. Orðið dagvistarheimili hefur gjarnan verið notað sem heildarheiti. Í notkun orðsins leikskóli í stað dagvistarheimili eða dagheimili felst ákveðin stefnumörkun. Lögð er áhersla á að í leikskóla fari fram markvisst uppeldisstarf byggt á leik og hvers konar sköpun í máli, myndum, tónum og hreyfingu, en ekki aðeins gæsla barna meðan foreldrar þeirra stunda vinnu.
    Aðgreining í leikskóla og dagheimili er villandi og gefur í skyn að markmið þessara stofnana séu ólík. Með því að afnema skiptinguna er lögð áhersla á að hlutverk leikskóla sé það sama hvort sem barn dvelur þar fjórar eða níu stundir daglega, þ.e. að búa börnunum lærdómsrík og örugg leikskilyrði í hópi annarra barna og veita þeim markvisst uppeldi í samræmi við þroska þeirra undir leiðsögn sérmenntaðs starfsfólks. Lögð er áhersla á það í frv. að leikurinn er kjarninn í uppeldisstarfi leikskólans, í senn bæði markmið og leið og eðlilegt tjáningarform barna á leikskólaaldri.
    Leikskólinn er uppeldisstofnun þar sem fram fer uppeldisstarf, kennsla og menntun í stað þess að líta fyrst og fremst á gæsluhlutverkið. Hér er í fyrsta sinni litið á leikskóla sem skólastig og það er mikil breyting frá því sem verið hefur. Lítill munur á eldri börnum í leikskóla og yngstu börnum í grunnskóla er með þeim hætti að það er auðvitað fráleitt að draga þar skörp mörk á milli.
    Fjöldi barna á aldrinum hálfs til fimm ára hér á landi er núna 22.500. Um 47% þessara barna eru á dagheimilum eða í leikskólum eða um 11.000 talsins. Til þess að ná því marki sem frv. setur sér þá eru nú um 6700 rými þannig að það er nauðsynlegt að bæta við verulegum fjölda til þess að ná því marki sem við setjum okkur. Heildarútgjöld til leikskóla á ári frá sveitarfélögum eru 1,8 milljarðar kr. Dagvistarstofnanir eða leikskólar í landinu eru núna 215, fóstrur sem starfa við þessa skóla eru 500 og fjöldi starfsfólks með aðra uppeldismenntun er um 70 manns. Fjöldi ófaglærðra sem vinna við þessar stofnanir er um 800 og til upplýsingar skal þess einnig getið í þessu sambandi að Fóstruskóli Íslands útskrifar á ári um 60

fóstrur og fjöldi útskrifaðra fóstra frá stofnun Fóstruskóla Íslands er um 1250 talsins.
    Fyrir þremur árum var flutt á Alþingi till. til þál. um að sett yrði löggjöf um nýtt skólastig sem komi á undan grunnskólastigi og var gert ráð fyrir því að á því skólastigi væri ekki skólaskylda heldur fræðsluskylda, ef svo má að orði komast, þ.e. val foreldra um hvort börn þeirra sæktu þennan skóla. Núv. ríkisstjórn setti síðan í málefnasamning sinn að sett skyldi löggjöf um nýtt skólastig sem þar var nefnt forskólastig. Í framhaldi af því var sett á laggirnar sú nefnd sem ég greindi frá áðan og ég tek það fram að fóstrur áttu myndarlega aðild að samningu frv. og hafa stutt það mjög eindregið eins og fram hefur komið.
    Frv. þetta skiptist í tíu kafla. Í I. kafla er fjallað um gildissvið. Í III. kafla er fjallað um stofnun og rekstur leikskóla og hlutverk sveitarfélaga. Í kafla um yfirstjórn segir að menntmrn. fari með þau mál er lögin taka til og í VII. kafla er gerð tillaga um að réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar sé tryggður í lögum. Í VIII. kafla er gerð tillaga um þróunarsjóð leikskóla sem við stofnuðum reyndar 1989 en úr honum er veitt fé í margs konar þróunarstarf í leikskólum og einnig lagt til að menntmrn. ráði starfsmenn til að sinna tímabundnum rannsóknar- og þróunarverkefnum. Árið 1989 var fyrst veitt fé úr þessum sjóði, 3 millj. kr., og aftur árið 1990, 3,5 millj. kr. Hann hefur þegar orðið til þess að athyglisverð verkefni hafa verið sett af stað, t.d. um umhverfisvernd og náttúruna og afrakstur þess getur orðið stuðningsefni sem nýtist um allt land. Þannig stuðlar sjóðurinn að framþróun og endurnýjun. Síðustu tveir kaflarnir fjalla síðan um ráðgjafarþjónustu og heilsuvernd og hollustuhætti í leikskólum.
    Eins og kunnugt er þá er það þannig samkvæmt núgildandi lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að menntmrn. hefur með höndum faglega umsjón með starfi dagvistarheimila og skal vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þau mál. Samþykki menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn dagvistarheimili. Stofnun og rekstur þeirra er síðan á ábyrgð sveitarfélaga.
    Það er litið svo á að verkefni menntmrn. á sviði leikskólamála séu m.a. eftirfarandi:
    Að móta heildaruppeldisstefnu, m.a. með útgáfu uppeldisáætlunar þar sem kveðið er á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla og meginstefnu varðandi starfshætti.
    Að sinna þróunar- og rannsóknarstarfi, m.a. með úthlutun styrkja úr þróunarsjóði leikskóla.
    Að veita ráðgjöf og leiðsögn til sveitarstjórna og starfsmanna leikskóla.
    Að hafa faglegt eftirlit með innra starfi leikskóla.
    Að veita samþykki sitt til stofnunar leikskóla.
    Að sinna alþjóðlegum samskiptum.
    Að sjá um menntun starfsfólks.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, þá eru börn á aldrinum hálfs árs til fimm ára nú talin vera um 22.500 talsins. Samkvæmt spám Byggðastofnunar um fólksfjöldaþróun hér á landi er gert ráð fyrir því að fjöldi barna á þessum aldri um aldamót verði um 24.000. Nú eru 6500 heilsdagsrými í leikskólum í landinu, þar af aðeins um 420 fyrir börn yngri en tveggja ára. Um 3800 þessara rýma eru notuð af tveimur börnum hálfan dag hvort. Heilsdagsvistun, svokölluð dagheimili, eru í mörgum sveitarfélögum nær eingöngu fyrir forgangshópa, þ.e. börn einstæðra foreldra og í sumum tilfellum námsfólks. Um 20% kostnaðar af þessum stofnunum er nú greiddur af foreldrum. Í hálfsdagsvistun, því sem nú er kallað leikskólar, greiða foreldrar 35% kostnaðar. Sveitarstjórnir ákveða hvort rými eru nýtt fyrir heils- eða hálfsdagsdvöl. Nokkur sveitarfélög hafa eins og kunnugt er tekið upp sveigjanlegan viðverutíma barna.
    Það er mjög erfitt í raun og veru að áætla þörf fyrir leikskólarými, en það er ljóst að þörfin er mjög mikil. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um dagvistun barna sem kom út árið 1989 kemur fram að 90% foreldra fjögurra til fimm ára barna í Reykjavík óska eftir því sem kallað er opinber dagvistun. Það liggja ekki fyrir tölur um aðra aldurshópa eða aðra landshluta.
    Samhliða frv. um leikskóla, eins og fram kom hér áðan hjá mér, var samið á vegum ráðuneytisins og nefndarinnar frv. til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla. Þetta frv. hefur enn ekki verið lagt fram á Alþingi en er prentað sem fylgiskjal með þessu frv. um leikskóla. Í þessu frv. er lagt til að ríkissjóður leggi til leikskóla sveitarfélaganna ákveðna fasta krónutölu á hvert barn og vistunarstund, allt að átta stundum á dag. Heildarupphæðin nemi þeirri viðbót sem leggja þarf í rekstrarkostnað miðað við núverandi framlög svo tilteknu markmiði sé náð. Sveitarfélögin bæru þannig sama heildarkostnað og þau gera í dag og gætu fullnægt eftirspurn án þess að leggja í viðbótarkostnað fyrir sitt leyti. Einnig er í frv. gert ráð fyrir möguleika á stuðningi vegna stofnkostnaðar.
    Í greinargerð með þessu frv. um fjármögnun er ítarlega farið yfir það hvernig þessi kostnaður gæti hugsanlega fallið til og um hann vil ég segja þetta. Það er alveg augljóst mál að fjöldi sveitarfélaga hér í landinu ræður eins og sakir standa ekki við þá uppbyggingu leikskólakerfis sem hér er verið að tala um. Og það er alveg ljóst, og við höfum þegar af því reynslu þó að það séu ekki liðin nema tvö ár síðan við samþykktum lögin um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að sú breytta verkaskipting dugir ekki minnstu og veikustu sveitarfélögunum.
    Það er auðvitað nokkuð ljóst að Reykjavík, sem hefur talsverða peninga, hefur manni sýnst a.m.k. stundum þegar verið er að byggja hús úti í Tjörninni og uppi á hitaveitutönkunum, Reykjavík hefur fjármuni. Hún gæti byggt upp þetta kerfi. Hitt er hins vegar ljóst að önnur sveitarfélög, jafnvel stór sveitarfélög eins og Kópavogur, mundu eiga mjög erfitt með að koma til móts við þær kröfur sem verið er að gera í þessu frv. Þess vegna er það svo að ef hér á að vera um raunverulegt jöfnunarkerfi að ræða, raunverulegan leikskóla sem nær til allra, þá verður ríkið að koma inn í þá mynd. Það er algjörlega útilokað að ná framþróun í málefnum leikskólans öðruvísi en það komi peningar úr samfélagslegum sjóðum, hvort sem það er ríkissjóður, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eða einhver annar sjóður sem kemur þar til skjalanna.
    Það er nokkuð merkilegt að hugsa um það, virðulegi forseti, að við rekumst á það aftur og aftur um þessar mundir að menn eru sammála um að í rauninni dugi ekki þetta verkaskiptafyrirkomulag eins og það var ákveðið af því að sveitarfélögin eru mörg svo veik og svo misjöfn. Og það er kannski fróðlegt að nefna það að á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun voru lögð fram ein tvö mál þar sem bersýnilega var um það að ræða að menn viðurkenna að sveitarfélögin ráða ekki öll við þau verkefni sem þeim eru ætluð í dag. Mál eins og t.d. frv. til laga um brunavarnir og brunamál var kynnt í ríkisstjórninni í morgun. Þar kom fram að það er mat félmrn. sjálfs að það verður að koma til heildarátak í þessu efni þar sem ríkið kemur til skjalanna. Það að ætla sér að framkvæma verkaskiptinguna eftir þeirri stífu reglustiku sem var ákveðin 1989 er í raun og veru útilokað og þess vegna er það ekki goðgá heldur sjálfsagt mál að flytja hér á Alþingi frv. um það að fjármunir komi frá ríkinu, samfélaginu, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða öðrum sjóði til að byggja upp leikskólana í landinu. Fullkomlega eðlilegur hlutur og algjörlega fráleitt að vísa því á bug, algjörlega fráleitt. Ég hef hins vegar tekið eftir því að einn og einn sveitarstjórnarmaður er tregur í þeim efnum vegna þess að menn vilja líta á þessa ákvörðun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem ,,ritúal``, sem heilög vé sem megi ekki snerta. Ég vísa því á bug. Satt best að segja held ég að staðan sé þannig að í þágu félagslegrar þjónustu sé hin hreina reglustikuverkaskipting ríkis og sveitarfélaga ekki það besta sem geti komið fyrir fólkið í landinu. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar a.m.k., hvað sem aðrir segja, að það sé að mörgu leyti gott að verkaskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga sé óhrein og að ríki og sveitarfélög hjálpist að við að byggja upp félagslega þjónustu. Og það er a.m.k. mjög sérkennileg jafnaðarstefna að vísa því á bug.
    Í umræðum um þessi mál af hálfu menntmrn. á undanförnum missirum höfum við rætt ítarlega um marga þætti þessa máls, m.a. um leikskólann og þróun hans með hliðsjón af þróun skólakerfisins í heild. Við höfum rætt um fóstrumenntunina sérstaklega og vorum m.a. að fjalla um það í menntmrn. núna í hádeginu hvernig á þeim málum verði tekið núna í framtíðinni í skipulegri samvinnu við Kennaraháskóla Íslands með það að markmiði að hér verði til einn samfelldur, íslenskur uppeldisskóli fyrir allar þær faglærðar stéttir sem starfa að uppeldismálum.
    Ég ætla ekki að fara í einstökum atriðum yfir þessa áhersluþætti í framkvæmdaáætlun ráðuneytisins, virðulegi forseti, ég ætla aðeins að víkja að örfáum umsögnum sem borist hafa um þessi mál frá ýmsum samtökum í þjóðfélaginu þar sem má segja að fram komi eindreginn stuðningur við þau sjónarmið sem

birtast í þessu frv. Í þeim efnum vísa ég t.d. til foreldrasamtakanna, Félags áhugafólks um málefni barna. Ég vísa til Alþýðusambands Íslands, stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands. Ég vísa til Fóstrufélags Íslands, Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar, bæjarráðs Selfoss, félagsmálaráðs Akureyrar og dagvistarfulltrúa, félagsmálaráðs Vestmannaeyja, Hveragerðisbæjar. Og ég gæti einnig í þessu sambandi, virðulegi forseti, vitnað til bréfs sem var skrifað Steingrími Hermannssyni forsrh. og var afhent 30. okt. 1989 með undirskriftum 1782 starfsmanna leikskóla þar sem mótmælt er hvers konar hugmyndum um að flytja málefni leikskóla og dagheimila í félmrn. Ég gæti nefnt bréf foreldrafélags leikskólans Hálsaborgar sem sent var alþingismönnum í desember 1990. Ég gæti nefnt könnun sem foreldrasamtökin gerðu í Reykjavík árið 1990 en þar kemur fram að 72% foreldra barna sem eiga börn á dagvistarheimilum telja að þessi málaflokkur eigi eingöngu að heyra undir menntmrn. Og ég gæti nefnt Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og enn fleiri aðila.
    Það nýjasta af umsögnum af þessu tagi er ályktun eða bréf sem barst alþingismönnum, ég hygg í gær eða fyrradag, og er dags. 14. febr. 1991 frá dagvistarhópi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í þessari umsögn segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Frv. til laga um leikskóla, leikskólafrumvarpið svonefnda, hefur nú verið lagt fram á Alþingi. Af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var lýst afdráttarlausum stuðningi við inntak frv. þegar um mitt síðasta ár. Hefur þessi afstaða oft verið ítrekuð, nú síðast með samþykkt stjórnar BSRB frá 7. febr. sl.
    Samtök okkar styðja það markmið frv. að leikskólinn verði fyrir öll börn, óski foreldrar eftir því, og að honum sé ætlað að tryggja börnum rétt til umönnunar og öruggra uppeldisskilyrða undir handleiðslu sérmenntaðs starfsfólks.
    Dagvistarhópur BSRB, starfshópur um málefni leikskólans, hefur mótað stefnu samtakanna í þessum málaflokki í samráði við stjórn BSRB. Starfshópurinn samanstendur af fólki úr ýmsum aðildarfélögum samtakanna, en meðlimir hans eiga sammerkt í því að vilja gera sitt til að knýja á um heildarlausn í málefnum ungra barna og foreldra þeirra og þá með réttindi barnanna að leiðarljósi.
    Það er krafa BSRB að stórátak verði gert í uppbyggingu leikskóla, tekinn verði upp sveigjanlegur vistunartími og afnumdar þær forgangsreglur sem í gildi eru þannig að öll börn eigi jafnan rétt á leikskóladvöl.
    Við fögnum því að í leikskólafrv. skuli lögð áhersla á tengingu við grunnskólann, en með því móti skapast æskileg samfella í lífi barnsins.
    Ljóst er að verulegra fjármuna er þörf til að tryggja uppbyggingu leikskólans og í því skyni var samið sérstakt frv. um fjármögnun hans jafnhliða leikskólafrv. Illu heilli hafa þessi mál tekið þeim breytingum í meðförum ríkisstjórnarinnar að horfið hefur verið frá því að leggja fjármögnunarfrv. fram á Alþingi. Þess í stað hefur það verið gert að fylgiskjali leikskólafrv. og hefur því sem slíkt ekkert vægi lengur þegar fjármögnun leikskólakerfisins er annars vegar, með öðrum orðum eru engir peningar ætlaðir til boðaðrar uppbyggingar og eflingar leikskólans.
    Dagvistarhópur BSRB harmar þessa þróun mála. Í leikskólafrv. eru réttindi barnanna sjálfra til hollra uppeldisskilyrða og manneskjulegs lífs fortakslaust sett í öndvegi og því skorum við á Alþingi að veita leikskólafrv. brautargengi. Jafnframt krefjumst við þess að tryggt verði nægjanlegt fjármagn til uppbyggingar leikskólans og heitum því á þig, alþingismaður góður, að sjá til þess að fjármögnunarfrv., frv. til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla, verði hafið til vegs á ný.``
    Undir þetta rita félagar í dagvistarhópi BSRB, Kristjana Stefánsdóttir frá Fóstrufélagi Íslands, Grétar Guðmundsson frá Félagi ísl. símamanna, Jónína Sigurðardóttir frá Landssambandi lögreglumanna, Oddný S. Gestsdóttir frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Elín Mjöll Jónasdóttir frá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Hrafn Harðarson frá Starfsmannafélagi Kópavogs, Katrín Bragadóttir frá Ljósmæðrafélagi Íslands og Þuríður Einarsdóttir frá Póstmannafélagi Íslands.
    Ég get fyrir mitt leyti tekið undir allt sem í þessu plaggi stendur fyrir utan það að það er rangt sem í því stendur að drög að frv. um fjármögnun leikskóla hafi ekkert vægi. Þau hafa vægi en minna en ég hefði kosið. Ég tel hins vegar að með því að menntmrn. leggur þetta frv. fram sem fylgiskjal með frv. um leikskóla, þá sé verið að sýna það hvaða stefnu menntmrn. vill móta í þessu efni. Ég verð að segja það sem mína skoðun, virðulegi forseti, að ég er sannfærður um að þessi stefna mun verða ofan á. Hún mun ráða úrslitum, hún mun vinna sigur í þessu máli. Það er aðeins spurning um það hversu langan tíma það tekur fólk að átta sig á því að þetta er eina stefnan sem vitlegt er að fara, ef menn ætla sér á annað borð að reyna að byggja upp almennilegt leikskólakerfi hér í þessu landi.
    Í blöðunum í dag er sagt frá ályktun fulltrúa 12 leikskóla í Reykjavík og birtist hún í ýmsum blöðum. Þar er lögð áhersla á það að málefni leikskóla heyri undir menntmrn. Það var fundur fulltrúa 12 leikskóla í Reykjavík sem samþykkti þessa ályktun og birtist hún, eins og ég sagði, í blöðunum í dag og hljóðar svo í heild:
    ,,Við lýsum furðu okkar á því að lagt sé fram á Alþingi frv. um leikskóla sem sérstakt skólastig án þess að samhliða sé tryggður réttur allra barna til skólans. Við bendum á að í frv. eins og það kom frá forskólanefndinni var ákvæði sem tryggði öllum á leikskólaaldri rétt til hans. Við lýsum stuðningi við leikskóla sem forskóla fyrir öll börn sem heyri einungis undir ráðuneyti menntamála. Við styðjum tillögur forskólanefndar um ríkisframlag til uppbyggingar leikskóla og teljum sjálfsagt að ríki og sveitarfélög sameinist þannig um að tryggja öllum börnum rétt til leikskóla.
    Við lýsum undrun okkar á því að alþingismenn

aðrir en félmrh. og menntmrh. hafi ekki látið þetta mikilsverða málefni barna og foreldra til sín taka`` --- mér finnst þetta nú ekki alveg sanngjarnt, virðulegi forseti, jæja, --- ,,og hvetjum þá því til að taka opinberlega afstöðu til málsins.
    Við félagsmenn í hinum ýmsu samtökum launþega og atvinnurekenda skorum á samtök okkar að beita sér fyrir hagsmunum okkar í þessu efni.``
    Undir þetta rita 43 fulltrúar foreldrafélaga 12 leikskóla sem að ályktuninni standa.
    Ég tel að með því að frv. um leikskóla yrði samþykkt væri stigið mikilsvert skref, mjög mikilsvert skref í því skyni og í þá átt að festa leikskólann sem skólastig, auðvitað ekki sem skólaskyldu heldur sem skólastig og sem hluta af hinu almenna menntakerfi landsins. Ég er sannfærður um að það væri best að afgreiða frv. um fjármögnun leikskólans líka á þessu þingi. Mér er hins vegar ljóst að þar eru menn enn tregir til, en ég er sannfærður um það jafnframt, virðulegi forseti, að áður en langur tími líður mun renna upp fyrir öllum þingmönnum ljós í þessu efni og þá munu allir þingmenn, jafnvel þeir sem eru tregir í dag, vilja þá Lilju kveðið hafa sem felst í leikskólafrumvörpunum báðum.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.