Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að það er full ástæða til þess að ræða þetta hér málefnalega og enginn hefur verið að tala um að vera hér í einhverju pólitísku skæklatogi þó menn notuðu orðið falsa eða rangt bókhald yfir hluti eins og Verðjöfnunarsjóð sem ég átti eingöngu við. Ég átti við það að gjöld á að færa þegar afhending verðmæta fer fram. Ég átti eingöngu við það að þegar ríkisbókhaldið er ekki fært í samræmi við það tel ég það ekki rétta færslu. Það er bara málefnaleg afstaða mín, fullkomlega málefnaleg afstaða. Og ég skora á hæstv. fjmrh. að leggja hér fram ríkisreikning fyrir árið 1989 með áætluðum tölum fyrir t.d. Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Það má þá laga hann til seinna. En það er nauðsynlegt að fá þetta hér í þingsali og ræða kjarna málsins því að aðalatriðið er það að fá þetta nokkurn veginn á hreint því að 100% hreint getur það komið svo árið eftir en að talan yrði áætluð núna.