Heildarkostnaður Blönduvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það var rétt skilið hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að með framkvæmdakostnaði er talinn kostnaður við uppgræðslu, girðingar, gangnamannahús og aðrar bætur til heimamanna. Þessi kostnaður er í heild áætlaður hvorki meira né minna en 672 millj. kr. en var upphaflega áætlaður 540 millj. kr. Mismunurinn er því 132 millj. á þessum eina lið. Ef maður tekur hann frá þá standa hinar eiginlegu virkjunarframkvæmdir nákvæmlega á áætlun, kannski 3 millj. undir. Um orkuverð á hverja kwst. sem hv. þm. hafði hér eftir fjölmiðlum tölur um ætla ég ekki að fullyrða í nákvæmum greinum en endurtek það sem ég sagði áðan að tölur á bilinu 20 -- 23 þúsundustu úr Bandaríkjadal á kwst. hafa verið nefndar. En þetta er að sjálfsögðu háð bæði gengi, vaxtafæti, afskriftartíma og nýtingu orkugetu virkjunarinnar. En það hefur komið fram nú upp á síðkastið að þar hafi menn e.t.v. vanmetið möguleika þessarar virkjunar.
    Ég ætla ekki að segja um þetta fleira en vona að þetta hafi svarað spurningum hv. 6. þm. Norðurl. e.