Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum að ýmislegt hefur áunnist á undanförnum árum, en það hefur líka kannski meira verið talað heldur en gert. Oft finnst mér að þannig fari um vandamálin okkar, að við tölum meira um þau heldur en við framkvæmum. Ég veit þó --- ég hef þá aðstöðu að ég ólst upp í nágrenni Klepps og hef haft geðsjúkrahús í návist minni allt frá blautu barnsbeini, --- að það hefur mjög mikið áunnist í störfum fyrir geðsjúkt fólk. En í því samfélagi sem við lifum í er því þannig varið að hættan á geðsjúkdómum vex stöðugt og forvarnarstarfið verður þar af leiðandi að vaxa að sama skapi.
    Það er dálítið sorglegt til þess að vita að í því velferðarsamfélagi, sem við teljum okkur búa í, skulum við geta átt von á því að tveir af hverjum þremur, þ.e. 41 þingmaður t.d., muni þjást af einhverjum geðrænum sjúkdómi áður en hann verður 81 árs. Þannig er ástandið og það er hollt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir þessu.
    Það er því enn á ný erindi mitt í þennan stól að ræða um forvarnir, ræða um það að við þurfum að gera allt sem við getum, bæði í heilbrigðismálum og félagslegum málum á Íslandi til þess að ekki komi til svo alvarlegra atburða eins og hafa skeð núna undanfarið. Við þurfum að taka höndum saman, leggja að því mikla rækt að allt frá blautu barnsbeini eigi börn og ungmenni við slíkt umhverfi að búa að þau lendi ekki út í þau geðrænu vandamál sem síðar þjá mörg þeirra. Því allt það unga fólk sem fremur sjálfsmorð í dag gerir það meira og minna vegna þess að það þjáist af geðrænum vandamálum.