Grunnskóli
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þetta frv. er afar viðamikið og snertir velflest heimili í landinu. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, herra forseti, að ætlunin skuli að taka það núna til 2. umr., sem er sú umræða sem samkvæmt þingsköpum á að fjalla um einstakar greinar frv., í fjarveru hæstv. menntmrh. Þetta er þeim mun undarlegra þegar þess er gætt að mörg atriði í frv. eru umdeild, mjög umdeild, og önnur atriði eru afar lítt unnin. Það ber öllum saman um að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin um þetta mál en til þess að ákvæði þessa frv. verði framkvæmd verður visst samráð að vera við sveitarfélögin. Alla vega þarf að vera ljóst í öllum atriðum hver kostnaður verður og hvernig á að standa undir honum. Við þetta bætist svo að meiri hl. nefndarinnar, þ.e. fulltrúar stjórnarflokkanna, hafa flutt fjölda breytingartillagna. Þegar málið stendur svona tel ég afar óviðeigandi, svo ekki sé meira sagt, að taka það til 2. umr. í fjarveru hæstv. ráðherra.