Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Ég held að sú nefnd sem hér hefur starfað að málum og á hverrar starfi þetta frv. er byggt hafi unnið vel og að tillögur hennar séu með ýmsum hætti athyglisverðar. Þær hafa nú þegar verið kynntar talsvert í fjölmiðlum svo sem eðlilegt má teljast þegar nefndir af þessu tagi ljúka störfum. Ég verð hins vegar að viðurkenna að mér kom nokkuð á óvart sú hreinskilni sem mér fannst gæta hjá hæstv. forsrh. þegar hann var um þessi mál spurður og orð hans mátti skilja sem svo, a.m.k. skildi ég þau á þann veg, að það sem við hefðum verið að gera í byggðamálum nú um langa hríð hefði verið, ja, þar hefðum við nánast verið á röngum brautum. Sjálfsagt er mikið til í því og hefði verið kannski betra fyrr að taka á þeim málum, m.a. með þeim hætti sem hér er verið að gera tillögur um. Ég held að þær tillögur sem felast í þessu frv. til laga um breytingar á lögum um Byggðastofnun geti, ef vel tekst til, gert það að verkum að umfjöllun um þessi mál verði markvissari og að Alþingi komi að þessum málum með öðrum og kannski svolítið skipulegri hætti heldur en verið hefur til þessa. Það er af hinu góða. Þessar tillögur eru auðvitað ekki annað en verklagsreglur, um framkvæmdina fer eftir því hvernig að verður unnið.
    Það eru örfá atriði hér sem ég vildi aðeins víkja að þó vissulega mætti tala langt mál um flest þeirra. Í tillögum um fyrstu aðgerðir í byggðamálum, sem eru hér prentaðar sem fylgiskjal, segir m.a.: ,,Meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu verði til á landsbyggðinni.`` Ég held að þarna þurfi til að koma skipuleg könnun hjá hinu opinbera, athugun á því hvaða störf er raunhæft og hvaða störf er tæknilega unnt með nútíma fjarskipta- og tölvutækni að flytja út á land. Ég held að það sé tiltölulega auðvelt að gera sér grein fyrir þessu. Ég er sannfærður um að hjá stofnun eins og Pósti og síma er hægt að flytja mjög mörg störf út á land, á ýmsa staði á landsbyggðinni, og ég held að það verði ekki til óhagræðis nema síður sé. En slíkt gerist auðvitað ekki í einni svipan. Slíkt þarf að undirbúa vel og slíkt þarf auðvitað starfsfólksins vegna nokkurn aðdraganda. Ég hygg að hjá fleiri opinberum fyrirtækjum væri hægt að gera úttekt á þessu og ég er alveg sannfærður um að hún mundi leiða ýmislegt athyglisvert í ljós.
    Annar þáttur sem er ein af forsendunum fyrir virkari byggðastefnu er auðvitað stækkun sveitarfélaga sem hér er vikið að. Það er óhjákvæmilegt að sveitarfélögunum fækki verulega frá því sem nú er. Og þegar ég segi verulega þá er ég að tala um mjög mikla fækkun. Ef ég man rétt eru þau eitthvað um 200, en ég hygg að þeim þyrfti að fækka kannski niður í svona 50, þannig að í rauninni væri hægt að tala um starfhæfar einingar sem geta veitt íbúum þess svæðis sem um er að ræða þá þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímanum.
    Sameining sveitarfélaga hefur átt sér stað á nokkrum stöðum og ég hygg að hvarvetna sem það hefur orðið þá hafi það orðið íbúunum til góðs. Þetta

mál hefur hins vegar ekki gengið nægilega greitt fyrir sig og hlýtur að koma til álita að vinna mjög markvisst að því, markvissara en gert hefur verið að undanförnu, að ná þessu marki, þ.e. að sveitarfélögunum fækki verulega. Þetta er auðvitað ekki auðvelt mál því að þessu máli eru bundnar margvíslegar tilfinningar til átthaganna. En ég hygg að þegar þessi mál eru skoðuð í víðara samhengi þá sé þetta óhjákvæmileg forsenda fyrir alvöru byggðastefnu, alveg eins --- og það hef ég alloft bent á og ekki einn um það --- og bættar samgöngur, vegir með bundnu slitlagi eru líka forsenda alvöru byggðastefnu. Þeir stækka vinnusóknarsvæði og gera fólki kleift að sækja vinnu um lengri veg en áður. Kannski er það einn helsti gallinn og meinbugur á þeirri byggðastefnu sem fylgt hefur verið hér til þessa að samgöngumálin hafa orðið út undan að nokkru. Það hefur verið byrjað kannski stundum á öfugum enda. Greiðar samgöngur, fyrst og fremst vegakerfið en auðvitað aðrir þættir samgöngumálanna líka, eru í rauninni forsenda allra skynsamlegra aðgerða í byggðamálum. Ég held að það sjónarmið ásamt með stækkun sveitarfélaganna sé undirstaða þess að eitthvað vitrænna gerist í þessum málum.
    Þriðja atriðið sem mig langar að víkja að er nefnt hér, jöfnun raforkuverðs og sameining orkufyrirtækja, sem er einn þáttur í byggðastefnu. Þetta er vissulega mikilvægt mál enda þótt skylt sé að geta þess að talsvert hafi miðað í jöfnunarátt á undanförnum árum að því er orkuverð, t.d. til hitunar íbúðarhúsnæðis, varðar.
    Nú er í þann veginn að ljúka störfum nefnd sem hæstv. iðnrh. skipaði fyrir nokkru sem væntanlega gerir ákveðnar tillögur í þessum efnum. Það ber þó að hafa í huga í því sambandi að þar er hægara um að tala en í að komast og raunar við ramman reip að draga ef ekki er verið að tala um bein framlög úr ríkissjóði til að greiða þetta niður. Sú staðreynd blasir við öllum þeim sem um þessi mál fjalla með einum eða öðrum hætti að Landsvirkjun, sem framleiðir orkuna fyrst og fremst, er ekki eign ríkisins nema að hluta. Ríkið á ekki meiri hluta í þessu stóra fyrirtæki og getur þess vegna ekki haft ráðandi áhrif á verðstefnu þess og ólíka taxta til ólíkra nota. Í stjórn Landsvirkjunar sitja níu fulltrúar, þar af eru fjórir kjörnir af Alþingi, þrír eru fulltrúar næststærsta eignaraðilans, Reykjavíkurborgar, og einn frá Akureyri. Þessir átta eignaraðilar koma sér síðan saman um níunda manninn sem er stjórnarformaður fyrirtækisins.
    Ég hygg að verði nú ráðist í stórvirkjanir, eins og allt bendir til, sem betur fer, þá sé mjög brýnt að taka allt skipulag og eignarhald í þessum efnum til mikillar endurskoðunar. Verði ráðist í stórvirkjanir austur á Héraði þá sé ég engin rök hníga til þess að Reykjavíkurborg verði þar jafnstór eignaraðili eins og hún er í Landsvirkjun. Sú eignaraðild Reykjavíkurborgar á sér sögulegar forsendur, þær að Reykjavíkurborg lagði til virkjanir inn í þetta fyrirtæki, fullbúnar og nær afskrifaðar virkjanir að sumu leyti, á sínum tíma. En í nýjum virkjunum nýrra tíma er það ekkert

sjálfgefið að þetta fyrirkomulag haldist. Menn þurfa a.m.k. að skoða vel kosti og ókosti þess að fara þar aðrar leiðir. Ég held að það eigi að athuga.
    Það dreifingarkerfi sem við búum við í raforku er flókið, a.m.k. ekki einfalt, og þar er kostnaður með mismunandi hætti. Það er t.d. afar dýrt að koma raforku til Vestmannaeyja. Sú nefnd, sem ég nefndi áðan og fjallar um verðjöfnun á raforku, óskaði þess við iðnrh. í desember að hann skrifaði stjórn Landsvirkjunar og færi fram á nokkurn afslátt af raforku til húshitunar í Vestmannaeyjum, það eru ekki háar tölur á ári sem þar er um að tefla, þannig að kostnaður við að koma raforku til Vestmannaeyja væri ekki umfram meðaldreifingarkostnað í kerfinu. Þetta var eftir miðjan desember, skömmu fyrir jól. Enn hefur ekki borist svar frá Landsvirkjun við þessari málaleitan sem er tiltölulega lítið erindi en þó verulegt skref í jöfnunarátt.
    Ég vona að þær tillögur --- án þess að þær verði nánar raktar hér við þessa umræðu --- sem þessi nefnd sendir frá sér þegar hún lýkur störfum, sem ég vonast til að verði um miðja næstu viku, leiði til þess að þarna náist aukinn jöfnuður. Hann næst ekki í einu vetfangi, þar verður að stíga skref. Þau þurfa ekki að vera mjög mörg og ekki heldur mjög stór til þess að það náist viðunandi árangur í þessum efnum. En það er einlæg von mín og þeirra sem eru í þessari nefnd að það starf geti orðið til þess.
    Að lokum, virðulegi forseti. Hæstv. starfandi forsrh. vék hér áðan að höfuðborginni og landsbyggðinni, mjög réttilega og mjög skynsamlega sem ekki kom á óvart. Ég held að það sem hann vakti máls á eigi að vera okkur öllum umhugsunarefni vegna þess að án landsbyggðarinnar væri hér engin höfuðborg. Svo einfalt er það nú. Ég held að þarna þurfi að horfa til þess sambúðarvanda sem mér sýnist með nokkrum hætti vera til staðar vegna þess að því miður hefur maður oft haft það á tilfinningunni að stjórnendur Reykjavíkurborgar sjái hvorki upp fyrir Elliðaár né suður fyrir Fossvogslæk. Stundum hefur mér fundist gæta ótrúlegrar skammsýni hjá stjórnendum borgarinnar gagnvart málefnum og málum landsbyggðarinnar. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni. Ég minnist eins dæmis úr fréttum fyrir fáeinum dögum. Hér hefur verið starfrækt í Reykjavík Upplýsingamiðstöð ferðamála, ferðaþjónustu, fyrir allt landið. Frá því var greint í fréttum fyrir skömmu að Reykjavíkurborg hygðist draga sig út úr þessu samstarfi. Á mælikvarða þeirra fjármuna sem Reykjavíkurborg hefur til umráða var framlag borgarinnar til þessarar gagnlegu starfsemi, sem hefur gefið mjög góða raun og þjónar landinu öllu og höfuðborginni líka, þó raunar hreinir smáaurar. Það voru einhverjar örfáar milljónir kr., mig rekur nú ekki minni til hversu margar þær voru, en það var dropi í þann hafsjó fjármuna sem Reykjavíkurborg hefur úr að spila. Mér fannst þetta mál í rauninni ekki snúast um fjármuni, mér fannst það snúast um afstöðu höfuðborgarinnar til landsbyggðarinnar. Og enn og aftur segi ég: Þetta er íhugunarefni. Þetta er svo sem ekki efni til upphrópana, ég held að þetta sé

efni til samtala. Ég held að það þurfi að efla skilning forráðamanna Reykjavíkurborgar á góðu sambýli borgar og byggða. Ég held að hvorugt geti án annars verið og ég held að það þurfi að reyna að eyða þeirri skammsýni sem óneitanlega hefur ríkt hjá ráðamönnum Reykjavíkurborgar gagnvart landsbyggðinni. Ég held, herra forseti, og ætla nú ekki að lengja mál mitt frekar, að það sé líka brýnt verkefni í byggðamálum að snúa sér að því, en í heild þá held ég að þær tillögur sem hér liggja frammi í frumvarpsformi geti vissulega verið til góðs verði rétt á málum haldið.