Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því tilefni sem við fáum til að ræða byggðamálin hér þegar þetta frv. kemur fram og skýrsla sem hefur leitt af starfi einnar nefndar um byggðamálin og með fylgir skýrsla og hugmyndir annarrar nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar sem hefur unnið að sama málaflokki.
    Ég er ekki sammála því sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykn. að þessar tillögur skipti engu máli. Mér finnst að með því frv. sem hér er lagt fram um Byggðastofnun sé gerð tilraun til að breyta áherslum í starfi þeirrar stofnunar. Ég held að okkur sé öllum ljóst að meginkraftar starfsmanna Byggðastofnunar á undanförnum árum hafi farið í að grípa til skyndiaðgerða og björgunaraðgerða, liggur mér við að segja, þegar í óefni er komið. Það er mjög mikilvægt að stofnun eins og Byggðastofnun hafi tækifæri og þá tíma og mannafla til þess að gera áætlanir, en ekki síður til þess að gera rannsóknir. Ég held að það væri nauðsynlegt að tengja Byggðastofnun með einhverjum hætti þeim skólum sem við höfum á háskólastigi til þess að efla samvinnu um rannsóknir varðandi byggðamál. Það er gert víða í nágrannalöndum okkar, þar starfa stofnanir sem hafa sama hlutverk og Byggðastofnun og þær eru margar hverjar í öflugu samstarfi við háskóla einmitt um rannsóknir. Við þessa háskóla eru svo kenndar námsgreinar eins og t.d. byggðahagfræði.
    Ég tel mjög þarft að til umræðu á Alþingi komi með jöfnu millibili, eins og hér er gert ráð fyrir í 1. gr. frv., áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn. Það er ekki óeðlilegt að slíkt sé gert á sama hátt og við fjöllum um vegáætlun með reglulegu millibili. Má reyndar segja um þessa tvo málaflokka að þeir tengjast óhjákvæmilega mjög náið. Það sem e.t.v. vantar í þessar tillögur og hugmyndir beggja nefndanna er einmitt hvernig á að framkvæma þær og það kemur ekki fram nein áætlun um fjármagn til þeirra aðgerða sem lagðar eru til hér.
    Ég vil aðeins víkja að einu sem ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi og það er varðandi skipun þessara nefnda. --- Ég vildi óska þess að hér væru fleiri hv. þm. Við vorum hér sjö konur í Sþ. í gær að ræða jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára. Það er mjög alvarlegt ef sú umræða er að einangrast við konur eingöngu. Kvennalistinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að fara sína eigin leið, en ef svo heldur sem horfir er ég hrædd um að það verði enn stærri hópur kvenna sem velur þá leið og það er auðvitað ekki það sem er ætlunin til frambúðar. Ég vil benda sérstaklega á það að í þessum nefndum báðum er aðeins ein kona og það vill til að hún er einmitt fulltrúi Kvennalistans. Við getum spurt okkur hvernig skipan nefndarinnar hefði verið ef Kvennalistans hefði ekki notið við. En ég nefni þetta hér vegna þess að það sem stjórnvöld á Norðurlöndum hafa einkum beint athygli sinni að á síðasta ári er hinn sérstaki vandi kvenna úti á landsbyggðinni. Ýmislegt hefur verið gert til að reyna að mæta þeim vanda og rannsaka orsakir þess að það eru fleiri konur en karlar sem flytjast af landsbyggðinni. Það skýrist auðvitað fyrst og fremst af einhæfu atvinnulífi, fáum atvinnutækifærum og það sem líka skiptir miklu máli er fábreytni í menningar - og félagslífi. Konur eiga því oft ekki um annað að velja en að flytja til þéttbýlisstaðanna, bæði til þess að hafa vinnu og geta notið þess sem þær óska eftir í menningarlífinu. Ég held að þetta ætti að vera okkur mjög mikið umhugsunarefni.
    Ég get eiginlega ekki látið hjá líða að nefna annað í þessu. Ég er ekki að ásaka þá sem hér sitja inni fyrir það að í þessum nefndum skuli ekki vera konur. Ég varpa þessu fram til mjög alvarlegrar umhugsunar og skoðunar. Sú nefnd sem hvað oftast er nefnd þessa dagana er svokölluð sjömannanefnd sem hefur verið að fjalla um vanda landbúnaðarins. Í þeirri nefnd eru sjö karlmenn. Þeir hafa allir varamenn, og sumir tvo meira að segja, og þar er ekki ein einasta kona. Þessi sama nefnd kallaði 20 aðila til viðræðna um landbúnaðarmálin. Þar var heldur ekki ein einasta kona. Nú er ég að hluta til að endurtaka jafnréttispistilinn frá því í Sþ. í gær. Ég varpa hér fram sömu spurningu og ég varpaði fram þar: Hverjir í þessu landi skyldu sjá um neysluna? Hverjir eru það sem stjórna neyslunni, hver neyslan er t.d. á landbúnaðarafurðum okkar? Ég gat ekki stillt mig um að gera þetta að umræðuefni líka hér því að ég tel að við verðum að hafa þetta í huga þegar við fjöllum um byggðamálin að það verður engin raunhæf byggðastefna til ef sjónarmið kvenna koma þar hvergi nærri. Það sem við stöndum frammi fyrir hér á Íslandi er auðvitað það sama og nágrannar okkar á Norðurlöndum, þ.e. fá atvinnutækifæri, einhæft atvinnulíf og það bitnar fyrst og harðast á konunum eins og við sjáum á atvinnuleysistölum um land allt, enda sýna líka tölur að það hallar verulega á íbúatöluna hvað varðar búsetu kvenna úti á landsbyggðinni og ekki síst kvenna á aldrinum 20 -- 44 ára. Þar er mestur munur á fjölda karla og kvenna í öllum landsbyggðarkjördæmunum. Ég vildi nefna þetta hér því að ég held að þetta ætti að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni.
    Við stöndum frammi fyrir þeirri þróun sem hefur orðið á síðustu áratugum. Það hefur verið stöðugur fólksflutningur af landsbyggðinni í þéttbýlið, bæði á þéttbýlisstaðina úti á landi og einnig til höfuðborgarsvæðisins og þangað hefur straumurinn legið þyngstur. Burt séð frá öllum áætlunum um byggðamál og atvinnuþróun úti á landsbyggðinni stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: Hvernig ætlum við að laða fólk ýmist til að vera þar eða koma þar til starfa? Þar held ég að þjónustan skipti allra mestu máli. Fólk gerir orðið kröfur um að fá svipaða þjónustu og það getur gengið að hér á suðvesturhorninu.
    Það kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. áðan að hann teldi það hið mesta óráð að brjóta upp þjónustusvæði, eins og hann orðaði það. Ég held einmitt að með því að móta byggðastefnu hljótum við að verða að brjóta upp þjónustusvæði. Við tölum um að undirstaða byggðastefnunnar séu góðar samgöngur. Með góðum samgöngum breytist einmitt margt. Ég er mjög

sammála því að góðar samgöngur séu undirstaða byggðastefnunnar en bættar samgöngur hljóta um leið að leiða til þess að þjónustusvæði verða brotin upp. Það getur komið góður vegur í staðinn fyrir heilsugæslustöð eða skóla. Ég get minnt á eitt tilvik sem snertir reyndar Vesturlandskjördæmi og ég veit að það eru mörg slík dæmi í öðrum landshlutum líka. Börn eru keyrð um langan veg í heimavistarskóla í gegnum þéttbýlisstaði sem eru e.t.v. 10 -- 20 mínútna akstur frá heimilum þeirra. Þetta þarf allt að endurskoða og hugsa upp á nýtt þegar talað er um að gera áætlanir í byggðamálum.
    Þetta voru eiginlega mínar fyrstu hugsanir varðandi þetta frv. og tillögur hinnar nefndarinnar líka. Ég vildi bara segja það að lokum að með Byggðastofnun hljótum við að stefna að skynsamlegri nýtingu auðlinda landsins og fjölbreyttu menningarlífi og mannlífi í landinu öllu.
    Ég get ekki lokið máli mínu án þess að minna á eitt efni sem ég tel að við ættum líka að skoða vel og full ástæða sé til að hafa áhyggjur af. Það er hversu mikil áhrif við getum haft á nýtingu auðlinda okkar í framtíðinni ef svo fer sem e.t.v. horfir nú að við förum á fleygiferð inn í hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vil benda á að það hefur komið í ljós í þeim viðræðum að við t.d. kaup á landi er ekki hægt að setja neinar frekari hömlur á erlenda aðila en Íslendinga sjálfa. Við getum reynt að gera okkur í hugarlund hvað gerist ef land hér á Íslandi verður keypt upp í stórum stíl af útlendingum. Þess vegna ættum við að hafa augun opin fyrir hversu verðmætt land okkar er og hvernig við getum nýtt það á annan hátt en þann hefðbundna sem við höfum gert hingað til.