Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Karl Steinar Guðnason :
    Herra forseti. Athugasemd mín skal verða mjög stutt. Hins vegar gat ég ekki stillt mig um að koma upp eftir að hv. þm. Skúli Alexandersson var með skýringar á því hvernig á því stæði að atvinnulíf á Suðurnesjum hefði orðið daufara en áður var. Ekki átti ég von á því að hv. þm. væri með svo austrænar skýingar sem þar komu fram, ég hélt að þær væru horfnar úr hans sinni. En ég mótmæli skýringum hans alfarið.
    Í fyrsta lagi vil ég segja varðandi Grindavík að í undanfarin 2 -- 3 ár hefur atvinnulíf dregist saman hjá Grindvíkingum á sama hátt og annars staðar þó þeir og Sandgerðingar hafi kannski haldið betur velli en aðrir. En í Keflavík, Njarðvík, Vogum og Garði er sjávarútvegurinn í mikilli nauð og atvinnulífið þar. Það hefur verið þannig. Maður hefur að vísu vonir um að framtíðin verði bjartari.
    Sú skýring að ástæðan fyrir þessum samdrætti í atvinnulífinu sé herstöðin á Keflavíkurflugvelli er þvílík fjarstæða að ekki er hægt að láta því ómótmælt. Vil ég minna á það að þegar hermangið var sem mest, þegar umsvif varnarliðsins í verklegum framkvæmdum voru hvað mest, þá var atvinnulífið á Suðurnesjum hvað öflugast og þá var sjávarútvegurinn hvað öflugastur. Þá var vaxtarbroddur sjávarútvegs í landinu þar. Það eru aðrar skýringar á því að nú hefur dregist saman en þessir þættir. Vildi ég gjarnan ræða það seinna og fara yfir það. En skýring hv. þm. er aldeilis fráleit og þykir mér að með þeim orðum hafi hann talað niður til
Suðurnesjamanna á þann hátt sem vart er sæmandi.