Listamannalaun
Mánudaginn 04. mars 1991


     Ragnar Arnalds (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Sú brtt. sem hér á að greiða atkvæði um er að mínu viti alveg óumdeild. Það vantaði rétt gildistökuákvæði inn í frv. Deildin hefur hafnað þeirri útgáfu brtt. sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flutti hér og er nú að greiða atkvæði um hitt afbrigðið. Annað hvort hljótum við að velja. Það var nokkuð ljóst að menn höfðu ekki fyllilega áttað sig á því um hvað var verið að greiða atkvæði og það er gamall siður hér í þinginu að reyna að tryggja það úr forsetastól að atkvæðagreiðsla sýni sem sannastan vilja þingmanna. Ég tel því fullkomlega eðlilegt að forseta sé heimilt að láta atkvæðagreiðsluna fara fram á nýjan leik og spyr: Er einhver hér sem vill hafa aðra útkomu en þá sem er í samræmi við vilja þingmanna? Eigum við ekki að greiða atkvæði um þetta þannig að vilji þingmanna komi fram á sem skýrastan hátt? Auðvitað hljótum við að vilja það. Þess vegna óska ég eindregið eftir því að atkvæðagreiðslan sé endurtekin eða þá að nafnakall fari fram. Ég veit ekki betur en að það sé ævinlega orðið við því líka þegar þess er óskað.