Grunnskóli
Mánudaginn 04. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. sem er um þann þátt mannlífsins sem mest mótar framtíð okkar. Þess vegna er það að þetta frv. snertir í raun og veru hvert einasta heimili í landinu og leggur grunn að því hver verður framtíð íslensks þjóðfélags. Við í Sjálfstfl. fögnum því að í þessu frv. er að finna nokkur stefnumál okkar sem við höfum m.a. borið fram í frv. hér á Alþingi, en hafa ekki náð fram að ganga vegna þess að þá réðum við ekki ferðinni hér á þinginu. Nokkur þessara atriða, mjög mikilvæg, er þó sem betur fer að finna hér í þessu frv. Þessi atriði eru reyndar komin í framkvæmd í skólum á nokkrum stöðum á landinu og eru þess vegna staðfesting á þeirri þróun sem orðin er, en því miður er það svo að önnur ákvæði í þessu sama frv. geta hins vegar hamlað þessari þróun. Þess vegna höfum við efasemdir um ýmsa þætti sem ég mun gera nánari grein fyrir.
    Við höfum flutt tillögur og haft á stefnuskrá okkar um langt árabil lengingu skólatíma og samfelldan skóladag. Þar með fylgir að tillögur hafa verið uppi um nauðsyn þess að koma á aðstöðu til þess að neyta máltíða í skólum, með öðrum orðum skólamáltíðir með einhverjum hætti. Við höfum einnig gert tillögur um og reyndar að nokkru leyti komið á lengingu skólaskyldu. Allt er þetta með það fyrir augum að tryggja að betri árangur náist af því mikilvæga starfi sem fram fer í skólanum, bæði að því er varðar fræðslu og uppeldisþætti aðra.
    Við söknum þess mjög að ekki skuli vera í þessu frv. að finna eitt atriði, sem ég tel að sé nauðsynlegt fyrir þessi markmið sem ég greindi, en það eru ákvæði um skólaathvörf við hvern grunnskóla þar sem slíku er ekki þegar til að dreifa og fjarlægð frá heimilum eða aðstaða er þannig að nauðsynlegt er að hafa aðstöðu þar sem þeir nemendur sem vildu og þyrftu gætu dvalið utan kennslustunda. Fyrirkomulag þessa gæti verið með ýmsu móti en þetta er mjög mikilvægur þáttur sem ekki er tekið á í frv.
    Hins vegar má nefna að þegar ég gagnrýni það að einn þátt af þessu tagi skorti, þá er það enn einn þátturinn sem kostar nokkurt fé. Það er aftur á móti mál sem hæstv. ráðherra virtist láta sér í léttu rúmi liggja þegar hann flutti þetta frv. og þess vegna er það að allt er óljóst um framkvæmd þessa máls. Það er út af fyrir sig gott og blessað að flytja hvert lagafrv. af öðru með ágætum markmiðum, en við erum kannski fleiri sem teljum að sá kostur þurfi að fylgja hverju því frv. sem verður að lögum að ljóst sé að hægt sé að framkvæma það. Þess vegna gagnrýnum við mjög að það skortir allar áætlanir og viðleitni til samstarfs við sveitarfélögin sem hafa fengið það verkefni að annast alfarið rekstur grunnskólanna. Verkefni sveitarfélaganna hafa aukist mjög á þessu sviði og við teljum að það væri heilbrigt í þessu máli sem öðrum að saman fari sem allra mest hin fjárhagslega ábyrgð og svo ábyrgðin á framkvæmdinni. En frv. er með þeim hætti að mikið er um fyrirmæli og skyldur gagnvart þeim sem eiga að bera meginþungann af kostnaðinum, en aftur á móti ekki stafkrókur um það hvernig á að aðstoða þá aðila við að afla þess fjár sem til þarf.
    Ég tel það mikla blekkingu þegar sagt er að kostnaðaráætlun liggi fyrir þegar gerð er lausleg áætlun um kostnað ríkissjóðs af þessu frv. Vissulega er það rétt að það er skylt að lögum að láta fylgja áætlun um kostnað ríkissjóðs af þeim frv. sem við samþykkjum, en það er náttúrlega einber blekking ef sagt er að þar með liggi fyrir kostnaðaráætlun af þessu máli því að kostnaður ríkissjóðs er svo lítill hluti af kostnaðinum við málið í heild. Sveitarfélögin bera margfaldan þann kostnað sem ríkissjóður ber af þessu máli. Vissulega eru sveitarfélögin hluti hins opinbera, sem svo er nefnt,
og enginn ber að lokum kostnaðinn af þeim framkvæmdum sem hið opinbera sér um nema þjóðfélagsborgararnir sjálfir. Því er það mikið ábyrgðarleysi að henda inn hverju frv. af öðru sem kostar milljarða á vegum hins opinbera, jafnvel þótt það sé ekki allt úr ríkissjóði, án þess að séð sé fyrir fjármagni. Um leið og ríkið veltir verkefnum á sveitarfélögin eru það gömul og ný sannindi að með því verður líka að vera séð fyrir tekjum til þess að framkvæma þau verkefni. Því skýtur það skökku við að frelsi hinna staðbundnu yfirvalda, þ.e. sveitarfélaganna, að ekki sé minnst á skólana sjálfa, er mjög skert í þessu frv. Við teljum að það bæti skólastarfið og efli að hvetja skólana sjálfa, skólastjóra, kennara og líka nemendur, til frumkvæðis til þess að virkja góðar og nýjar hugmyndir, hvetja menn til þess að veita nýjum hugmyndum út í starfið og hafa þá nokkurt valfrelsi um það hvernig kennslunni er háttað, hvaða möguleika hver skóli hefur til þess að koma skyldum sínum í framkvæmd. Þetta frelsi er í frv. skert ef nokkuð er. Það hefði þurft að auka það frá núgildandi lögum. Því er öfugt farið í þessu frv., því miður.
    Við skiljum þann þátt í markmiðsgrein grunnskólalaganna, sem er um að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun, svo að það hljóti að eiga að leiða til þess að gera menn sem sjálfstæðasta í hugsun. Mér finnst ósamræmi í því að þau lög sem fjalla um þá sem þessu eiga að sinna dragi úr möguleikum þeirra sjálfra til þess að gera ýmsar sjálfstæðar ráðstafanir, koma áfram jákvæðum og skemmtilegum hugmyndum, t.d. með vali námsgagna eða viðbótarnámsgagna, og á þann veg að það efli hugmyndaflug og áhuga þeirra sem við skólann starfa, bæði kennara og nemenda. Ekki má fara örlítið út fyrir hinn einskorðaða veg sem menntmrn. á alveg að ákvarða samkvæmt þessu.
    Ég sakna þess líka í frv. að gert sé ráð fyrir meiri áhrifum foreldra. Menn eru óþreytandi að lýsa yfir gildi þess að efla samstarf foreldra og skóla, en óneitanlega kemur það því miður í ljós að þegar til kastanna kemur verður samstaðan um það samstarf oft og tíðum fyrst og fremst fólgin í því að foreldrar komi til skjalanna þegar afla þarf fjár til þess að ganga frá skólalóð eða baka kökur með kaffi eða vinna að útbreiðslustarfsemi fyrir skólana o.s.frv. Það er ýmislegt ágætt um það að segja að samstarf sé um atriði, en þegar kemur að skólamálunum sjálfum gerir það minni lukku að foreldrar séu að skipta sér af þeim hlutum. Með öðrum orðum, ekki er litið á það uppeldisstarf sem fram fer í skólunum sem verkefni eða afskiptasvið foreldra á neinn hátt. Það er í höndum sérfræðinga. Vissulega er það gott að vissu marki, að því marki sem það rekst ekki á uppeldismarkmið þau sem foreldrum er bæði rétt og skylt að sinna, bæði samkvæmt lögum landsins og öllum alþjóðlegum og hérlendum hugmyndum um mannréttindi, foreldrum og börnum til handa. Ég tel að það sé alveg óþarft að ganga á þann veg frá lögum að þessi atriði rekist á. Ég tel að það eigi einmitt að veita út í skólastarfið þeim hugmyndum sem annar af þessum tveimur samskiptaaðilum, sem starfa annars vegar við heimilin og hins vegar við skólann, hefur fram að færa. Opna þarf þann möguleika að við hugmyndum sé tekið og úr þeim unnið og jafnvel að virkja foreldrana í ýmsum tilfellum í ríkara mæli ef þeir hafa tök á og vilja, enda hafa þeir ýmislegt fram að færa til þess að þétta þessar raðir, þ.e. samstarfið. Skólarnir og heimilin eiga ekki að vera andstæðar einingar heldur samstarfsaðilar sem vinna að sama marki á þann veg að börnin finni að þau, foreldrarnir og kennaraliðið við skólann sé allt samhentur hópur. Ég tel að það hefði ómetanlega þýðingu. Sem betur fer tekst þetta oft vel. En ekkert er hins vegar í frv. sem tryggir að ekki sé misbrestur á þessu. Ef við erum á annað borð að setja lög um innra starf skóla, þá verðum við að taka á þessu máli. Þetta er þeim mun nauðsynlegra sem samvistir foreldra og barna eru skemmri núna en var fyrr á tíð, þeim mun nauðsynlegra er að hugmyndaflæði milli þessara uppeldisstarfsmanna, ef ég tek mér það bessaleyfi að kalla foreldra almennt líka uppeldisstarfsmenn, það geri ég vegna þess að það eru þeir sem mesta ábyrgð bera á uppeldi og lífi barna sinna, ég tel að hugmyndaflæði milli þessara aðila, kennsluliðsins og foreldranna, þurfi að vera miklu greiðara og það þurfi að vera enn þá jákvæðar tekið á hugmyndum foreldra.
    Enn ein röksemdin fyrir því er sú að nú eru enn strangari ákvæði í lögum en áður var um að það skuli einungis vera fagmenn, þ.e. þeir sem hafa tiltekin kennsluréttindi, sem annast uppeldið og fræðsluna í skólanum, en engum hefur dottið í hug að foreldrar þurfi að hafa neitt sérstakt réttindanám, pappír eða viðurkenningu upp á það að vera hleypt að því að ala upp börnin sín. Þetta á hvert foreldri að hafa í höfði sínu og húðinni og hafa tilfinningu fyrir því, en engu að síður er það svo að frá upphafi mannkyns, og reyndar ekki aðeins mannkyns, það er einfaldlega staðreynd lífsins að hvert foreldri ber ábyrgð á afkomu og velferð afkvæma sinna. Hvert og eitt foreldri ber ábyrgð á afkvæmi sínu. Þetta þurfum við að auðvelda ef við ætlum að ala börnin upp við það að búa sig sjálf undir það að standa að heimili og ala upp þar næstu kynslóð en besta veganestið til slíks í samskiptum við annað fólk er það sem menn venjast í barnæsku og á sínum heimilum því að lengi býr að

fyrstu gerð.
    Ég leyfi mér, herra forseti, að hlusta eftir því hvað hv. 3. þm. Vestf. er að segja uppi í Ed. Hann er skýrmæltur maður og hefur mikinn raddhljóm. Það gæti vel verið að það sé um skólamál og gæti þess vegna fallið inn í þessar ræður sem kafli, en slík mál eru reyndar ekki á dagskrá Ed. þannig að ég mun nú halda áfram þessari ræðu með þessu millispili og undirleik sem berst úr Ed. og það er auðvitað bara til bóta.
    Ég kaus það, herra forseti, að fara nokkrum orðum um þann þátt uppeldis sem fram fer í skólunum og skoða það atriði með hliðsjón af þeirri skyldu sem foreldrar hafa við börn sín og uppeldi þeirra. En ég hlýt að minna á það einu sinni enn sem ég hef stundum gert hér á þessum stað að nokkuð virðist skorta á skilning á þessu stundum. Varð ég þess ekki síst vör í flutningi lagafrumvarpa fyrir margt löngu um að lögleiða þætti úr mannréttindasáttmála Evrópu um rétt foreldra til að ráða uppeldi barna sinna. Þá risu upp miklar efasemdir og andmæli, einkanlega af hálfu flokks hæstv. menntmrh. Það var reyndar núv. hæstv. fjmrh. sem var mest á móti þeim ákvæðum mannréttindasáttmálans og taldi hann afar hættulegan og líkti þessu við hinar verstu og skuggalegustu hugmyndir. Mig grunar nú reyndar að hæstv. menntmrh. hljóti að hafa lært það í sínu starfi og kynnum sínum af uppeldisstéttunum að þetta er atriði sem við í okkar landi, eins og reyndar í mörgum öðrum löndum, verðum að taka mið af í löggjöf okkar ef við ætlum að tryggja börnum okkar þessi réttindi.
    Í ljósi þessa sem ég hef verið að segja um foreldrana og skólann er það alveg skýrt að við teljum að hlutur foreldra í þeim fáu samstarfsnefndum með þátttöku fólks utan skólans sjálfs, sem getið er um í þessu frv., sé fyrir borð borinn, alveg tvímælalaust. Við bentum á það í frv. sem við sjálfstæðismenn fluttum á þinginu 1989 að æskilegt væri að við hvern skóla væri skólanefnd sem væri til ráðuneytis og þar væru fulltrúar foreldra og einn fulltrúi sveitarfélags. Við teljum að slíkt væri enn mjög gagnlegt. Ég er ekkert svo viss um að hæstv. ráðherra sé í hjarta sínu svo andsnúinn þessum hugmyndum okkar. Hins vegar er hæstv. ráðherra, eins og flestir hv. þm., að ganga til kosninga og vill vitanlega geta sagt kjósendum sínum að nú hafi verið sett ný grunnskólalög og nú skulu fræðslumálin í landinu verða í allgóðu lagi, a.m.k. um skeið. Af því sem ég sagði um kostnaðarþáttinn er það náttúrlega hrein blekking á meðan ekki er betur fyrir þeim þætti séð.
    Ég gat þess að í þessu frv., þar sem margt væri jákvætt, væri ýmislegt annað sem gæti staðið í vegi fyrir frekari skólaþróun. Þá eru það aðallega þeir þættir sem snúa að framkvæmd sveitarfélaganna sem er ljóst að fjármagn skortir til og ekki er séð fyrir í frv. Í öðru lagi er það sem skerðir frumkvæði og frelsi og stjórnunarmöguleika skólastjóra og uppeldismöguleika kennaranna, möguleika þeirra á að koma fram faglegum hugmyndum, sem eru á einhvern hátt öðruvísi en það sem hefur verið ákveðið í smáatriðum í menntmrn. og undirdeildum þess. Loks er í frv. ákvæði sem geta kæft í fæðingu mjög ákveðnar tilraunir til þess að fara nýjar leiðir, en það er ákvæðið um einkaskóla, þar sem það er í raun og veru lagt alfarið í vald ráðherra hvort af starfsemi einkaskóla getur orðið eða ekki. Til viðbótar því að einkaskóli þarf sérstaka löggildingu af hálfu menntmrn. og ráðuneytið þarf að staðfesta reglugerð og skipulagsskrá skólans og ráðuneytið hefur eftirlit með starfseminni líkt og rekstri annarra grunnskóla, þá er gert ráð fyrir að skólagjöldin séu líka háð samþykki menntmrn. Með öðrum orðum, ef menntmrn. samþykkir ekki skólagjöld sem duga til að standa undir rekstri, þá er hægt að ganga af þessari starfsemi dauðri. Þetta atriði tel ég þvílíka frelsisskerðingu að það getum við ómögulega látið frá okkur fara með þessum hætti. Með þessari grein er ákveðið fyrir fram að svo lítið skuli frelsið vera til þess að virkja frumkvæði og nýjar hugmyndir að einn ráðherra geti haft það í hendi sér með því að segja nei við hugmyndum um skólagjöld. Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé, hvorki nú né samkvæmt frv. Þó hefur reyndin orðið sú að launakostnaður hefur verið greiddur af ríkinu hjá einkaskólum sem fest hafa í sessi í skólakerfinu á Íslandi fyrir áratugum síðan. Við skulum nefna Landakotsskóla og við skulum nefna Ísaksskóla. Það var ákveðið að laun kennara þessara skóla skyldu greidd af ríkinu og hefur þetta smátt og smátt orðið til þess að það þykir mjög eðlilegt að svo væri einnig um aðra einkaskóla sem stofnaðir yrðu, enda gert ráð fyrir að það verkefni sem menntmrn. hefði í því sambandi væri einungis að tryggja með vissu eftirliti eða athugun á prófum og árangri að sú fræðsla sem þar færi fram fullnægði þeim lágmarksskilyrðum sem við viljum að okkar grunnskólakerfi sjái nemendum sínum fyrir.
    Í frv. sem við sjálfstæðismenn fluttum 1989 gerum við ráð fyrir
að það sé að sjálfsögðu unnt fyrir einkaskóla bæði að reka skóla fyrir börn undir skólaskyldualdri með leyfi fræðslustjóra og einnig að ríki og sveitarfélög geti samið við einkaaðila um rekstur grunnskólans. Ég held að þetta sé atriði sem við ættum mjög að hafa í huga og gæti flýtt fyrir þeirri þróun sem við viljum vinna að með umbótum á skólakerfinu, að gert sé ráð fyrir því að samið yrði við einkaaðila í ýmsum tilvikum um rekstur grunnskóla. Það má líta á það sem samning við einkaaðila að það sé gert þegar frá málum er gengið með þeim hætti sem t.d. er gert í Ísaksskóla og Landakotsskóla. Dæmi um slíkan samning er t.d. samningur ríkisins við Verslunarskóla Íslands. Ég held að það blandist engum hugur um það að starfsemi allra þessara stofnana hefur verið skólakerfinu á Íslandi og fræðslumálum í heild til góðs. Ég held að við gætum því lyft undir þessa þróun með því að opna þennan möguleika betur.
    Ég leyfi mér að greina frá hugmynd sem við höfðum á sínum tíma um orðalag 75. gr. grunnskólalaganna, þ.e. greinarinnar sem fjallar um einkaskóla. Við lögðum til að hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Heimilt er menntmrn. að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., eða forskóla, sbr. 74. gr.`` --- sem ég reyndar nefndi hér áðan --- ,,sem reknir eru af einstökum mönnum eða stofnunum ef þeir starfa samkvæmt reglugerð eða skipulagsskrá er það staðfestir, enda hlíti skólar sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar. Kennarar við skóla þessa skulu fullnægja öllum skilyrðum um rétt til kennslu í grunnskóla. Börn sem þessa einkaskóla sækja hafa undanþágu samkvæmt 7. gr. en forstöðumaður skal tilkynna í upphafi hvers skólaárs og senda hlutaðeigandi skólanefnd skrá um nemendur og tilkynna henni allar breytingar á nemendaskrá jafnóðum og þær verða.``
    Síðan er svo ákvæðið um samning við þessa aðila: ,,Ríki eða sveitarfélag getur samið við einkaaðila um rekstur grunnskóla, sbr. 1. gr., og setja skal í reglugerð ákvæði um það hversu opinberum stuðningi við einkaskóla skuli háttað.``
    Herra forseti. Ég vek athygli á því að hér er opnuð sú leið að hafa miklu rýmri framkvæmd á þessu atriði. Ég leyfi mér, auk þeirra skóla sem ég nefndi hér áðan, að benda á reynsluna af Tjarnarskóla sem heimilaður var fyrir nokkrum árum og mér er það e.t.v. kunnugra en mörgum hv. þm. að sú heimild, það rekstrarleyfi, hlaut mikla gagnrýni bæði af ýmsum pólitískum aðilum, ekki síst þeim hæstv. ráðherra sem þetta frv. flytur, svo og ýmsum fagmönnum, því miður, úr kennarasamtökum. Þá stóðu reyndar yfir miklar pólitískar sviptingar út af kjaramálum og fleiru og má vera að þær hafi átt að einhverju leyti sök á þeirri afstöðu. Svo langt gekk þetta að jafnvel urðu börn fyrir aðkasti af þessum sökum ef þau sóttu þennan skóla. En það er mikið gleðiefni að nú hafa margir þeir sem harðast gagnrýndu hinn sama skóla séð fram á ágæti hans og hann hefur virkilega sannað gildi sitt. Þar fóru ungir fræðimenn, ungir kennarar, sem höfðu nýjar hugmyndir sem þeir vildu koma í framkvæmd og reyna. Ég er þess fullviss að nú mundi hver einasti þingmaður vera mér sammála um að það hefði verið rangt að leggja stein í götu þeirra.
    Með tilliti til þessarar reynslu held ég að það sé alveg ljóst að við eigum að láta af þeirri tortryggni sem menn hafa í garð slíkra stofnana. Því miður hafa afar margir hv. þm. og e.t.v. mjög margir landsmenn okkar vanið sig á mikla forsjárhyggju sem héðan kemur frá Alþingi, og þess vegna orðið vanir því jafnvel að ekki sé leyft að veita nýjum hugmyndum út í starfsemi sem þessa vegna þess hve erfitt hefur verið að koma af stað einkastofnunum á þessu sviði. Þetta gildir auðvitað um ýmis önnur svið þjóðlífsins sem nú eru að mestu undir opinberri stjórn en greinilegustu dæmin eru einmitt á þessu sviði.
    Í þessu frv. eru því miður nokkrar blekkingar, fyrir utan þá hina stóru blekkingu sem felst í því að fjármunir eru ekki til til að framkvæma stærstu atriðin. Ekki liggur fyrir nákvæm áætlun né heldur er til að dreifa samstarfi sem komið er á við sveitarfélögin um það hvernig það skuli gert. Sú blekking sem ég er nú að tala um er blekkingin um lengingu daglegs skólatíma. Vegna þess að það vantar skýrari ákvæði um

skiptistundir í þessu frv. verður raunverulegur skólatími margra nemenda styttri en hann er í mörgum tilfellum nú. Um þetta atriði þyrfti að fjalla af meiri nákvæmni í frv. til þess að ná þeim árangri sem látið er í veðri vaka að ætlunin sé að ná. Það er síst til bóta og auðvitað afturför að felld sé niður lagaheimild til að skipta bekkjum í vissum námsgreinum. Það er mjög gagnlegt fyrir nemendur að sú heimild sé til og hún sé framkvæmd. Nú má það vel vera að unnt sé að gera þetta, það sé ekki bannað að skipta bekkjum, en óneitanlega er tónninn gefinn í frv. með því að fella þessa heimild niður og með því að ákveða kennslustundafjöldann án þess að kveða betur á um skiptistundirnar.
    Þá þyrftu ákvæðin um sérkennslu mikilla endurbóta við. Þar þyrfti forræði skólans sjálfs að vera ríkara.
    Ég veit, herra forseti, að svona mætti lengi áfram halda. Við höfum svo margar og mikilsverðar athugasemdir við þetta frv. að gera þó við teljum að meginatriði frv. séu þau atriði sem eru stærst að kostnaði til, lenging skólatímans, samfelldur skólatími, skólamáltíðir. Allt þetta er í samræmi við okkar hugmyndir, en þá eru grundvallaratriði eins og það sem varðar betri möguleika á frumkvæði og frelsi fyrir skólastjóra, kennara og nemendur, það er allt í þrengri skorðum en áður var, þannig að við það höfum við athugasemdir að gera.
    Ég vil líka nefna eitt atriði sem mér sýndist í fyrstu að væri í sjálfu sér óþarft að tilgreina í lögum en væri svo sem meinlaust þótt tilgreint væri í lögum vegna þess að ég leyfði mér að líta svo á að í því fælist tilraun til samstarfs við aðila utan skólans. Það er ákvæðið um skólamálaráð þar sem taldir eru upp fulltrúar ýmissa aðila sem sæti eiga þar. Þar þykir okkur hlutur foreldra afar lítill. Þar er sterkur hópur kennara, bæði Kennaraháskólinn og Kennarasambandið, sem ég hélt nú að væri fyrst og fremst stéttarfélag en verkefnin í skólamálaráði væru ekki kjaramál heldur fyrst og fremst það sem varðaði skólastefnuna og sjálf kennslumálin og uppeldisatriðin. Þess vegna þykir mér mjög vanta á að fulltrúar foreldra eigi nægilega stóran hlut að þessu ráði.
    Annað sem ég vil í allri vinsemd benda hæstv. ráðherra á og ég tel að við hljótum að geta verið sammála um að þyrfti að vera í skólamálaráði, ef það á annað borð verður sett á laggirnar, er fulltrúi frá því skólastigi sem tekur við þeim sem útskrifast úr grunnskóla. Í skólamálaráði er fulltrúi frá Háskóla Íslands en enginn frá framhaldsskólastiginu. Ég held að menn séu yfirleitt sammála um það að okkur hafi ekki tekist að ráða nægilega bót á vissum vanda sem stafar af því að eitt skólastig veit ekki nægilega vel við hverju það tekur frá næsta skólastigi á undan. Þ.e. að námið á upphafsári nýs skólastigs hlýtur að verða að taka mið af þeirri þekkingu sem nemendurnir sem koma inn í skólann hafa eða sú þekking sem þeir fá eða er krafist þeim til handa taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru í næsta skólastigi á eftir. Með öðrum orðum, svo að það sé orðað eins og maður heyrir stundum frá framhaldsskólakennurum á fyrsta ári framhaldsskólans, við getum ekki ætlast til þess að framhaldsskólakennarar á fyrsta ári framhaldsskólans þurfi að eyða drjúgum hluta af starfstíma sínum í að kenna nemendunum það sem þeir áttu að kunna þegar þeir komu úr grunnskólanum.
    Það er viðkvæmt stundum að tala um þessi mál, menn telja það alvarlega gagnrýni og vissulega er það alvarleg gagnrýni ef það er rétt að árangur skólakerfis okkar sé ekki sá sem hann ætti að vera. Það er nefnilega ekki einungis spurt um samfelldan skóladag, lengdan skóladag, skólamáltíðir og fleira, það er líka spurt um árangur þess starfs sem fram fer í þessum stóru og mikilvægu stofnunum og hvernig við stöndum að því að átta okkur á þeim árangri. Vissulega viljum við ekki að það sé gert á þann hátt að það verði beinlínis til þess að einhverjir heltist úr lestinni en óneitanlega getur þetta oft á tíðum orðið til þess að þeir nemendur sem hafa verulega hæfileika og starfsgetu á þessum árum fái ekki verkefni við sitt hæfi. Sama gildir um þá sem hafa minnsta getuna til náms og starfs í skólanum að þeir þurfa að hafa rétt til þess að fá þjónustu sérkennslunnar. En það sem er rangt og spillir árangrinum að okkar viti er ef fjöldi nemenda fær ekki verkefni við sitt hæfi, nýtir ekki getu sína á þann veg sem gæti bætt árangur skólakerfis okkar og beinlínis menntunarstig þjóðarinnar, ef svo mikil áhersla er lögð á að halda öllum bekknum eða allri bekkjardeildinni í þeim vinnuhraða sem sá sem minnst getur þarf að viðhafa til þess að geta fylgst með. Þetta eru vissulega vandasöm atriði og mér er það vel ljóst að það hafa verið mismunandi kenningar um þetta atriði frá einum tíma til annars, svo einkennilegt sem það er að stundum hafa menn alfarið verið á þeirri skoðun að það sé stórhættulegt að skipta nemendum eftir getu og í annan tíma telja menn að það sé mjög æskilegt og hættulegt þeim sem minnst geta að finna það á hverjum degi að þeir geti minna en hinir. Þess vegna er það auðvitað alveg ljóst að sérkennslumálin skipta mjög miklu fyrir allan þennan hóp. En það hefur einhvern veginn ekki tíðkast að tala um sérkennslu fyrir þá sem mest geta. Þá munu alþýðubandalagsmenn rísa upp á afturfæturna og segja: Nú er verið að tala um úrvalsbekki, hvað eru þessir sjálfstæðismenn að tala um, slíkt er hættulegt.
    En ég held hins vegar að jafnvel þeir hafi áttað sig á þeirri villu sem hefur legið að baki grundvallarstefnu þess flokks, bæði hér á landi og annars staðar. Mér þykir það skiljanlegt að hæstv. ráðherra sé brúnaþungur yfir þessari alllöngu ræðu og yfir því að það skuli vera minnst á svona hluti. En auðvitað átta þeir sig á því eins og aðrir að þetta er mál sem þarf að taka nýjum tökum. En ég ítreka og legg áherslu á það að í því starfi getur orðið um tvíverknað að ræða, ónýtan vinnutíma líka ef við gætum þess ekki vel að framhaldsskólinn viti við hverju hann tekur úr grunnskólanum. Og það er mín tillaga að það verði reynt við framhaldsathugun á þessu máli, ég tala nú ekki um ef á það verður fallist, sem ég tel einu réttu leiðina í þessu, að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar þannig að hægt sé að vinna betur úr þeim mörgu og mikilvægu ábendingum sem við höfum fengið frá fjölmörgum umsagnaraðilum. Þá sé tekið m.a. á þessu atriði því það skiptir máli fyrir árangur skólastarfsins og líka fyrir árangur framhaldsskólans.
    Nú hafa skólastigin oft og tíðum haft samstarf. Ég geri ráð fyrir að svo sé enn eins og var fyrir nokkrum árum að saman komi öðru hverju samstarfsnefnd, a.m.k. framhaldsskóla og háskóla. Á slíkum fundi var rætt um að grundvöllurinn væri lagður í grunnskólanum, auðvitað erum við öll sammála um það, en þar þyrfti að nýta tímann betur. Enn fremur sú hugmynd að leiðirnar milli skólastiganna yrðu greiðari og eðlilegri á þann veg að ekki þyrfti að tvítaka verkið, endurtaka það í framhaldsskólanum sem unnið hefði verið í grunnskólanum eða þá að vinna við það sem menn áttu að kunna úr grunnskóla. Ég veit að við hæstv. ráðherra þekkjum bæði kennara sem var orðinn afar þreyttur á því að vinna við stafsetningarleiðréttingar fólks sem var komið í framhaldsskóla og átti að kunna að stafsetja íslensku þegar það kom þangað. Þessir hlutir og fleiri á tímum málvöndunar og málvernd eru auðvitað óhemju mikilvægir. Það á ekki að eiga sér stað að nemendur í framhaldsskóla þurfi að eyða tímanum í að læra að tala og skrifa móðurmál sitt. Þetta eiga þeir að kunna og nýta það til þess að læra aðrar greinar þegar í framhaldsskólann er komið og til þess að nýta þá kennslukrafta sem í framhaldsskólanum eru.
    Ég hef, herra forseti, ekki rætt um þá hluti sem hér hafa orðið mest umræðuefni manna, sem er kostnaðurinn við þetta frv. Ég hef ekki farið ítarlega ofan í það og þær miklu og mikilvægu umsagnir sem við höfum fengið. Það hafa aðrir gert. Ég hef leyft mér að fjalla um nokkur atriði sem mér hafa verið sérstaklega hugleikin, bæði sem þingmanni og ráðherra á sínum tíma og ósköp einfaldlega sem eitt af öllum foreldrum þessa lands. Ég geri ráð fyrir að við lestur frv. eins og þessa vakni slíkar hugleiðingar með okkur og við viljum vera viss um það að frá máli eins og þessu sé gengið með þeim hætti að hið unga Ísland, hinir ungu borgarar þessa lands eigi við síbatnandi skólakerfi að búa og skólakerfi sem tengir heimili þeirra og skólann þannig að þeir búi við samstarf þeirra sem bera ábyrgð á hag þeirra en ekki að einn sé að vinna það sem annar hefur ekki tök á að fylgjast með eða hafa áhrif á. Þetta tel ég skipta meginmáli að því er varðar þann þátt málsins sem veit að samstarfi heimila og skóla.
    Ég vil að lokum minnast á annað frv. sjálfstæðismanna sem flutt var um þetta efni, annað en það frv. sem ég hef gert hér nokkuð að umræðuefni og við fluttum í Nd. 1989. Það var frv. sem flutt var í Ed. oftar en einu sinni og flutt var af hv. þm. Salome Þorkelsdóttur og fleiri þingmönnum og fjallaði einmitt um það atriði sem ég hef gert hér að umræðuefni, hvernig unnt væri að koma málum svo fyrir að þetta samstarf yrði virkara og auðveldara. En það var frv. um skólaráðin, sem svo voru nefnd. Þessar hugmyndir komu fram í nefndum sem unnið höfðu á vegum ríkisstjórnarinnar, bæði á vegum menntmrn. og svo forsrn. í tíð hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Það fór ekki á milli mála að á þetta atriði var mjög mikil áhersla lögð og þess má að skaðlausu geta að a.m.k. í annarri þessari nefnd var mikill meiri hluti nefndarmanna konur svo að ég geri ráð fyrir að þeim sé þetta sérlega hugleikið. En hitt er mér líka ljóst að þeir feður grunnskólabarna sem ég hef rætt þetta mál við hafa líka mjög mikinn áhuga á slíku samstarfi, þar sem væri fjallað um skólamálin sjálf meira en nú er, og með virkari hætti. Um það vísa ég til tillagna sjálfstæðismanna.
    Ég bið nú afsökunar, herra forseti, hve langan tíma ég hef tekið til að ræða um þetta mál af því að ég geri ráð fyrir að velflestir deildarmenn þurfi að tjá sig. En ef svo er ekki dreg ég þá afsökunarbeiðni til baka, en hér er um mál að ræða sem bæði mér og fjölmörgum öðrum þingmönnum liggur mikið á hjarta. Ég ítreka það að við leggjum eindregið til að betur verði unnið úr þessu máli þannig að það hafi einhverja von um að komast til framkvæmda með eðlilegum hraða og að tekið verði upp samstarf við sveitarfélögin í framhaldsundirbúningi þess. Þess vegna hygg ég að það jákvæðasta sem við gætum gert sé að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar í trausti þess að það yrði betur unnið í samstarfi við sveitarfélögin sem eiga þó að bera hitann og þungann af kostnaðinum.