Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er leitt að hv. þm. Halldór Blöndal skuli vera farinn úr salnum vegna þess að það var alveg greinilegt að hv. þm. Þorsteinn Pálsson og jafnvel hv. þm. Geir H. Haarde höfðu alls ekki heyrt það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði í umræðunni. Hvað sagði hann? Hann sagði: Við afgreiddum lánsfjárlög í Ed. og fórum létt með það, og átaldi svo Nd. fyrir að vera ekki búin að ljúka verkinu. ( Gripið fram í: Á hverju stendur þá?) Það væri nú fróðlegt að spyrja að því. Ég fagna því að hv. þm. Halldór Blöndal er nú loksins kominn, a.m.k. í dyragættina því hann var einmitt að hæla sjálfstæðismönnum í Ed. fyrir það hvað þeir hefðu farið létt með að afgreiða lánsfjárlögin. En það er alveg greinilegt að þeir eru ekki svona verkglaðir og hæfir menn, sjálfstæðismenn í Nd. og er nú alveg ljóst hvaðan Sjálfstfl. mun sækja sinn næsta fjmrh. Það verður greinilega úr Ed. frekar en Nd.
    Þetta er nauðsynlegt að komi hér fram. Svo tek ég nú undir það sem hér hefur verið sagt að það er auðvitað ekki hægt að segja það einn daginn: Alþingi er með fjárveitingavaldið, og hinn daginn skamma fjmrh. fyrir að afgreiða ekki lánsfjárlögin þegar hann skilaði frv. inn í þingið fyrir fjórum mánuðum síðan.